Hringur í hverfinu í kvöld. Nú var snjór og logn miðað við hlýtt og logn í gærkvöldi.
Maður heyrir oft að það þurfi gríðarlegar æfingar til að hlaupa 100 km og það sé ekki nema á fárra manna færi. Það er rangt að mínu mati. Ég held að það sé rétt sem Gurli Hansen sagði mér á Borgundarhólmi í hitteðfyrra að allir sem geti hlaupið maraþon geti hlaupið 100 km. Það sé bara spurning um að drekka og borða reglulega í hlaupinu og hlaupa skynsamlega. Ég hef verið að glugga í bók sem ég á og heitir LORE OF RUNNING eftir Tim Noakes. Hún er ein af fáum bókum sem ég hef séð sem fjallar sérstaklega um ultramaraþon, sem er eins og allir vita hlaup sem eru lengri en maraþon. Í henni er fjallað sérstaklega um þjálfun hugans. Ég hef einhverntíman vísað í málshátt frá gamalli vestfirskri vinnukonu sem sagði:"Þú stekkur ekki lengra en þú hugsar". Í bókinni er fjallað sérstaklega um þegar menn voru að berjast í að hlaupa míluna á undir 4 mín. Þjálfun hugans heitir kaflinn. Sir Roger Bannister sá sem fyrstur braut múrinn gerði það vegna þess að hann skildi kannski öðrum frekar að þetta var spurningu um hugarfar en ekki eingöngu um líkamlega getu. Þegar hann var búinn að brjóta múrinn reyndist það auðveldra fyrir aðra eftir að menn sáu að þetta var mögulegt. Að hlaupa ultra hlaup er ekki síður spurning um hugarfar en líkamlega getu. Það sem ræður ekki síst úrslitum um árangur er skipulagning og hugarfar til viðbótar við æfingar. Í bókinni Lore of Running er gefið prógram fyrir Comerades (90 km) sem er margreynt. Þar er byrjað að æfa markvisst í desember en hlaupið er í endaðan júní. Í desember og janúar er hlaupið um 50 km á viku. Í febrúar og mars eru yfirleitt hlaupnir 50 til 60 km á viku en tvisvar farið upp í 80 km. Tvö hlaup um 30 km og eitt um 50 km. Í apríl eru tvær vikur um 60 km og tvær vikur um 80 km. Í mánuðinum er eitt maraþon og eitt hlaup um 50 km. Í maí eru þrjár vikur í kringum 60 km en ein vika um 100 km. Eitt hlaup um 60 km og eitt hlaup yfir 30 km. Fyrstu tvær vikur júní eru um 40 km og svo kemur Comerades í þriðju viku. Markmið er að fara undir 10 klst 45 mín. Málið er að hlaupa jafnt og þétt á tímabilinu og taka síðan nokkur löng hlaup af og til í þeim tilgangi að venja sig við það álag, líkamlegt og andlegt, sem fylgir þeim. Þetta er svona ekki óáþekkt prógram eins og ég gekk í gegnum í hitteðfyrra þegar ég hljóp 100 K á Borgundarhólmi. Þetta er ekkert svakalegt og ættu flestir sem geta hlaupið maraþon að ná í gegnum þetta. Á það ber að minna að þetta er prógram til að komast þokkalega í gegnum hlaupið með töluverðu af skynsemi samanvið. Strangari æfingar skila vafalaust betri tíma.
fimmtudagur, janúar 05, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli