Vaknaði bara hress í morgun eftir leiðindi gærdagsins. Það var eins gott því nú var fyrsta laugardagsmorgunhlaup ársins. Nýtt ár er komið og nú byrjar prógrammið. Lagði af stað rétt fyrir 8.30 út í Fossvogsbotn. þegar þangað var komið sáust engir á ferli, hvorki Pétur né Halldór. Ég var svolítið snemma á ferðinni og hljóp því fram og til baka um stund en lagði svo af stað því eitthvað gat hafa gerst. Fór fyrir Kársnesið, inn að Smáralind og upp Garðabæjarbrekkuna, krók inn í Garðabæ og síðan niður með Smáralindinni aftur. Veit ég þá ekki fyrr en tveir menn dökkir yfirlitum koma hlaupandi þvert á stíginn sem ég skokkaði eftir. Þar voru Halldór og Pétur komnir og höfðu sofið út og ekki lagt af stað fyrr en kl. 9.00. Við tókum Kópavogströppurnar saman (kapphlaup) og síðan inn í Elliðaárdal og ég fór svo heim. Búinn að ná um 20 km eins og ætlað var.
Jói og félagar spiluðu æfingaleik við Fram eftir hádegið og ég hjálpaði við að stjórna liðinu í fjarveru þjálfarans. Strákarnir kunna þetta vel og stóðu sig með prýði.
Las smá kafla í Lore of Running um ofþjálfun. Þar kemur fram að hægt er að fá vísbendingar um ofþjálfum með hvíldarpúsli að morgni. Ef hvíldarpúls hækkar skyndilega eftir að hafa verið á hægri niðurleið samhliða berta formi þá benda allar íkur til ofþjálfunar. Eftirfarandi syndrom eru einnig gefin sem ábendingar um ofþjálfun:
Verðurðu móður eftir sprett sem hefur verið þér auðveldur?
Eru fæturnir þungir lengur en vanalega eftir ákveðna æfingu?
Er óeðlilega erfitt að ganga upp stiga?
Finnst þér tilhugsunin um æfingu vera fráhrindandi?
Er erfitt að fara á fætur á morgnana?
Hefurðu ekki eins góða matarlyst og áður?
Ertu næmari fyrir kvefi, höfuðverk, sýkingum eða inflúensu en áður?
Er hvíldarpúslsinn 5 - 10 slögum hærri en venjulega?
Er æfingapúls hærri en vanalega?
Það hefur verið svolítið fyndin umræðan hérlendis eftir viðtalið við Tarantino á bandarískri sjónvarpsstöð þar sem hann lýsti áramótunum á Íslandi. Ég sá viðtalið við hann og efa ekki að hann var að lýsa því sem hann hafði raunverulega séð og upplifað. Hann virtist nefnilega ennþá vera í dálitlu sjokki eftir upplifun áramótanna. Það er hins vegar jafn fáránlegt að segja að hann sé að ljúga þessu öllu eins og að segja að þessi lýsing eigi við allar íslenskar konur. Á hinn bóginn skapast orðsporið vitaskuld eftir þeim sem mest ber á. Talað var við talskonu feminstafélagsins í Fréttablaðinu í morgun og hún fór náttúrulega að hnýta í karlmenn og sagði að ólíklegt að talað væri á þessum nótum um þá í stað þess að ræða um það sem umræðan beindist að. Það er gamall og nýr siður að drepa málum á dreif og ætla sér að bæta eitt böl með því að benda á eitthvað annað. Eins var farið að skammast út í marklaðssetningu á landinu sem gengi út á þetta orðspor. Ég skil ekki af hverju menn geta ekki horft á hlutina eins og þeir eru í stað þess að vera að tala út og suður. Það er alveg á hreinu að það fellur öll markaðsetning flöt ef hún er innistæðulaus.
Fréttamaður (spyr einhvern): Finnst þér að Gunnar Gunnarsson hefði átt að fá Óskarinn?
Einhver: Já alveg eins.
Fréttamaður: Hefurðu lesið eitthvað eftir Gunnar Gunnarsson?
Einhver: Já, já, til dæmis Höllu og heiðarbýlið?
laugardagur, janúar 07, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli