þriðjudagur, janúar 17, 2006

Ekkert hlaupið í gær en fór út í gærkvöldi og tók nokkrar myndir. Fróðleg umræða um úrslit prófkjörsins í Garðabæ. Lýðræðið gefur ekki alltaf þá niðurstöðu eins og allir vilja. Þá er náttúrulega hlaupið til og niðurstöðunum breytt. Manni dettur í hug hvernig fyrirsagnirnar hefðu hljóðað ef konur hefðu orðið í fjórum efstu sætunum. Þá hefði líklega verið sagt "Stórkostlegur sigur kvenna í Garðabæ" eða eitthvað svoleiðis en nú er sagt: "Karlar röðuðu SÉR í fjögur efstu sætin" eins og ég heyrði sagt á Stöð 2 í morgun. Það var engu líkara en að þessir fjórir karlar hefðu tekið sætin frá fyrir sig og látið öðrum eftir afganginn. Maður getur ekki varist því að hugsa sem svo í ljósi þessarar umræðu hvort það sé bara sumum konum sem finnst jafnt vægi kynjanna mikilvægt, öðrum stendur bara á sama.

Það er ekki örgrannt um að það fari um mann léttur hrollur þegar maður sér greinar í blöðunum þessa dagana um öll framfaramálin sem frambjóðendur ætla að keyra í gegn að afloknum kosningum ef þeir fá til þess fulltingi. Ég ætla bara rétt að vona að þetta ágæta fólk haldi ekki að peningarnir verði til í ríkiskassanum eða í hreppskassanum eins og mörg börn halda að mjólkin verði til í mjólkurkælinum. Maður sér nefnilega mjög sjaldan ef nokkurn tíma minnst á hvernig eigi að fjármagna öll herlegheitin. Ég sé ekki annað ef allt þetta skyldi ganga eftir að margt eigi að verða ókeypis sem hingað til hefur verið greitt fyrir að hluta til af þeim sem nota þjónustuna til þessa. Það þýðir einfaldlega að það er einhver annar sem borgar fyrir þjónustuna. Sífellt minni hluti samfélagsins borgar skatta af launum sínum sem renna til að greiða samfélagslega þjónustu því sístækkandi hluti íbúanna hefur aðalframfærslu sína af fjármagnstekjum. Þetta þýðir með öðrum orðum að það verður að hækka álagningu útsvars og fasteignaskatta hjá sveitarfélögunum til að fjármagna það skarð sem myndast vegna minni þjónustutekna. Hverjir skyldu það vera sem þurfa að axla þessar byrðar? Almennt venjulegt launafólk hefur enga undankomuleið hvað varðar skattgreiðslur á meðan þeir sem ráða yfir fjármagninu hafa margar greiðar leiðir til að sleppa við greiðslu skatta eins og dæmin sanna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvar eru áhorfendur?