Það var mikið talað um sannleikann í gærkvöldi. Gott og vel, það er göfugt markmið per se að leita hans. Ég tek hins vegar undir með Pétri Blöndal í sjónvarpinu í morgun að það séu varhugaverðir menn sem telja sig hafa hafa höndlað sannleikann og viti einir manna hver hann er.
Ég hef velt mikið fyrir mér hvort ég eigi að skrifa smá frásögn af atviki sem ég lentí í fyrir rúmum tíu árum og varðar upplognar ásakanir um refsivert athæfi af minni hálfu og félaga minna og aðkomu fjölmiðla að því. Fyrir algera tilviljun gátum ég félagar mínir hreinsað okkur af ásökunum þessum sem komið var til fjölmiðla. Ég vil taka fram að þær ásakanir voru í engu samhengi við eðli þeirra sem eru grundvöllur þess máls sem nú rís hæst og það skal einnig tekið fram að ég er ekki að ætla það að þær ásakanir sem komu fram í því séu sannar eða ósannar. Til þess hef ég engar forsendur.
Ég ætla ekki að rekja málið sem ég lenti í, það er best að það sé dautt og grafið nema innan þröngs hóps sem hlær að því einstaka sinnum, en um nokkurra missera skeið á eftir var ég spurður að því, jafnvel af mér lítt kunnugu fólki, hvort ég væri ekki maðurinn sem hefði gert það sem ásakanirnar snerust um. Þegar sýnt var að ásakanirnar höfðu ekki við neitt að styðjast þá var áhugi fjölmiðla ekki lengur fyrir hendi og þeir sneru sér að öðru. Eftir sat í huga almennings að það hafði verið fjallað um ákveðna nafngreinda einstaklinga í tengslum við refsivert athæfi og síðan hafði málið bara horfið. Það var ekki fjallað um sönnunargögn okkar í fyrirsögnum eða fréttatímum. Málið hvarf bara. Það sýndi mér að fjölmiðlar hafa mikið vald sem ber að fara varlega með er varðar einstaklinga og æru þeirra og bera þar af leiðandi einnig mikla ábyrgð.
Við félagarnir íhuguðum að fara í meiðyrðamál við viðkomandi fjölmiðla og einstaklinga en var ráðið frá því af lögfræðingum, það myndi engu skila. Eftir sat að stimpill um refsivert athæfi var á okkur um skeið fyrir atbeina fjölmiðla þar til fennti yfir málið enda var það harla ómerkilegt.
fimmtudagur, janúar 12, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli