miðvikudagur, desember 30, 2009

Twisted Sister - White Christmas

Vitinn á Látrabjargi

Árið 2009 er senn liðið til loka. Það er ekki úr vegi að líta um öxl og rifja upp hvernig mál hafa gengið fyrir sig á árinu. Um áramót var stefnan tekin á 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi í maí. Það var nokkur ferð út í óvissuna því það er dálítið meira að taka tvo sólarhringa í Borgundarhólmshringnum en einn. Það hafði ég séð árið áður. Ég lagði því nokkuð meir að mér en áður. Meðal annars var sett upp áætlun um að taka eitt maraþonhlaup í viku hverri frá áramótum fram til vors. Áætlunin gekk fullkomlega eftir án nokkurra áfalla eða erfiðleika. Hlaupið sjálft gekk vel þrátt fyrir að blöðrur á fótunum hafi nokkuð sett mark sitt á seinni sólarhringinn. Annað var allt í lagi. Árangurinn var síðan framar björtustu vonum en maður sér alltaf að það væri hægt að gera enn betur. Að þessu verkefni loknu tók annað við. Ég hafði fengið þá hugmynd að hlaupa norður til Akureyrar og þegar ljóst var að allt var í lagi eftir Borgundarhólm þá hafði ég samband við Eddu Heiðrúnu Backmann og UMFÍ og lagði hugmyndina fyrir þau. Mér var tekið tveimur höndum og allt sett á fullt með undirbúning. Ég lagði svo af stað sunnudaginn 5. júlí og lauk hlaupinu á setningarhátíð UMFÍ föstudagskvöldið eftir. Að jafnaði hljóp ég 65 - 70 km á hverjum degi. Ingimundur Grétarsson úr Borgarnesi fylgdi mér norður og var sá besti ferðafélagi sem mögulegt var að fá. Veðrið lék við okkur sem aldrei fyrr, sól og rúmlega 20°C upp á hvern dag. Allt gekk eins og best var á kosið og er mörgum fluttar þakkir fyrir að þessi litla hugmynd yrði svo eftirminnilega að raunveruleika. Síðan tók ég þátt í skemmtilegu maraþonhlaupi UMFÍ laugardaginn eftir. Laugavegurinn var viku síðar og nú var látið staðar numið í Þórsmörk og dvalið í góðum félagsskap að hlaupi loknu. Næst á dagskránni var London - Brighton hlaupið í lok september og til að undirbúa það meðal annars þá tók ég tvöfalt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. London - Brighton hlaupið gekk vel að mestu leyti en það var flóknara í framkvæmd en flest önnur álíka hlaup þar sem rötunin vóg nokkuð þungt. Það er um 90 km langt og lá um engi, tún, skóga og þéttbýli og leiðin hvergi merkt. Stórverkefnum ársins lauk svo laugardaginn 5. desember þar sem ég tók 100 km á hlaupabretti í World Class, fyrstur Íslendinga. Það gekk allt ljómandi vel og var auðveldara en ég hafði haldið fyrirfram.

Ég skrifaði dálitla bók snemma vetrar sem Vestfirska forlagið var svo vinsamlegt að gefa út. Í henni rek ég hlaupasögu mína frá skemmtiskokkinu eftirminnilega sem ég tók þátt í fyrir algera tilviljun fram til að ég snerti fótinn á styttu Leonídasar í Spörtu eftir að hafa lokið erfiðasta og lengsta ofurhlaupi í heimi. Ég veit ekkert um sölutölur en hún hefur reist út. Þetta var skemmtilegt verkefni sem mér fannst betur gert en ógert, sérstaklega það gæti orðið einhverjum til stuðnings eða hvatningar.

Samtals er ég búinn að pjakka vel yfir 5.000 km á árinu og er það nær 15% lengra en á síðasta ári sem var langlengsta ár fram til þessa. Þar áður hafði ég hlaupið nálægt 3.000 km árlega. Ég er ekki í vafa um að breytt mataræði skiptir miklu máli í því sambandi að geta aukið álag á líkamann án þess að það hafi eftirköst. Mér likar mjög vel við þá rútínu semég er búinn að koma mér upp og hef enga ástæðu til að breyta henni. Burt með allan sykur, hvítt hveiti í algeru lágmarki og allt draslfæði hreinsað út. Það er ekki mjög flókið. Síðan er ég viss um að Herbalifepróteinið er mjög gagnlegt í löngum hlaupum. Ég er búinn að láta það oft reyna á það að ég tel mig geta fullyrt nokkuð í þeim efnum. Ég er ekki að segja að það sé það besta sem til er, um það hef ég ekki möguleika að dæma en sama er, það dugar mér vel.

Á næsta ári bíða mörg skemmtileg verkefni. Fyrst skal telja að ég er skráður í Comrades hlaupið í Suður Afríku í lok maí. Með því að ljúka því þá hef ég lokið öllum fjórum klassísku ofurhlaupunum í heiminum. Síðan langar mig til að takast aftur á við 48 klst hlaup á Borgundarhólmi og sjá hvort ég hafi eitthvað lært af hlaupinu frá því í fyrra sem betur megi fara. Nú hefur kostnaður hins vegar vaxið svo mikið við að fara erlendis svo maður verður að vanda valið. Ég er skráður í Trans Gaul hlaupið þvert yfir Frakkland en veit ekki hvort ég geti fjármagnað það. Það kemur í ljós. Það eru þrjú slík hlaup sem eru áhugaverð. Þvert yfir Þýskaland og Frakkland og síðan langs eftir Englandi. Öll eru þau um 1100 km og er lokið á 16-18 dögum. Það er alltaf gaman að láta sig dreyma. Síðan er ég farinn að spökulera í áhugaverðu verkefni hér heima á sumri komanda. Það kemur í ljós hvort af því verður. Það er ýmislegt hægt ef skrokkurinn er í lagi.

Maður getur ekki verið annað er ánægður með að allt þetta sem upp er talið hafi gengið upp án áfalla og í raun hefur hvert verkefnið verið öðru skemmtilegra. Það er ekki sjálfgefið. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en forréttindi sem maður á að vera þakklátur fyrir að geta leyft sér.

Árið hefur að öðru leyti verið mjög ánægjulegt. Fín ferð norður í Austurdal í Skagafirði, Kjalvegshlaupið í júní, styttri og lengri ljósmyndatúrar og námskeið, landsmót UMFÍ á Akureyri og ULUMFÍ á Sauðárkróki, ánægjulegir endurfundir með Neil í september, o.s.frv.o.s.frv.

Á morgun bíður Gamlárshlaupið. Það spáir vel, bjart, logn en smá frost. Betra gæti það varla verið. Það er nú einu sinni vetur.

Bestu nýárskveðjur.

laugardagur, desember 26, 2009

Jingle Bells (Open Sleigh) - Fun Christmas Song/Carol!

Smá sýnishorn af Látrabjargi

Jólin líða hjá á hefðbundinn hátt. Yfirleitt er hvíld og afslöppun nokkuð höfð í fyrirrúmi. Það tilheyrir og þykir ágætt. Fjölskyldan hittist og tekur sólarhæðina á ýmsum málum. Lestur góðra bóka er órjúfanlegur hluti jólanna. Ég fékk m.a. Útkall eftir Óttar Sveinsson í einum pakkanum á aðfangadagskvöld. Í henni er sagt frá björgunarafrekinu við Látrabjarg sem bændur í Rauðasandshreppi unnu um miðjan desember árið 1947. Ég hef áður minnst á þetta afrek sem er einstætt í björgunarsögu þjóðarinnar og þótt víðar væri leitað. Þarna voru unnin ómöguleg afrek af vanbúnu og fátæku bændafólki í vestasta hreppi Evrópu. En vegna þess að þarna var fólk sem hafði alist upp í nánum tengslum við náttúruna og þekkti aðstæður þarna út og inn þá var þessi þraut leyst á svo ótrúlegan hátt að manni er orða vant. Aðstæður voru eins erfiðar og hægt var að hugsa sér. Hársbreidd munaði að fjöldi björgunarmanna færist. Um þetta afrek var aldrei talað sem neinu nam í sveitinni. Þegar þessu verkefni var lokið þá var því lokið.
Það er náttúrulega til vansa hvað seinni tíma einstaklingar hafa sýnt þessu takmarkaðan sóma. Ekkert aðgengilegt efni er til staðar fyrir ferðafólk að átta sig á aðstæðum eða því sem gerðist þarna. Myndin um björgunarafrekið við Látrabjarg er að vísu sýnd í safninu á Hnjóti og ýmsir munur eru þar einnig til minja um þennan atburð og er það vel. Engu að síður er hægt að gera miklu betur. Úti á Bjargtöngum er ekkert sem minnir á þennan atburð. Á bílastæðinu á vegarenda inni á Bjargi er smá skilti sem var sett upp fyrir örfáum árum. Þar er lauslega farið yfir þennan atburð en svo ótal margt er látið liggja milli hluta að það er erfitt að hugsa um það. Fólkið sem vann þetta afrek á það svo sannarlega skilið að fólk nútímans sem á allt til alls en myndi aldrei geta fetað í fótspor þess haldi því afreki á lofti sem unnið var við Látrabjarg um miðjan desember árið 1947.

Aðeins til að gefa áhugasömum innsýn í hvað þarna gerðist þá verður hér stiklað á stóru:
1. Föstudaginn 12. desember snemma morguns strandar togarinn Dhoon undir Látrabjargi.
Skipstjórinn virðist hafa keyrt skipinu beint upp í bjargið. Skipið strandar undir 180 metra háu standbergi. Það er óþverraveður og mikið brim. Á skipinu er 15 manna áhöfn. Neiðarkall er sent út.
2. Upplýsingar berast vestur um strandið. Farið er að leita. Síðdegis á föstudag sjá Látrabændur hvar skipið er strandað undir bjarginu. Það er hvasst og skítaveður en frostlaust. Látramenn ráða ráðum sínum og skipuleggja björgunaraðgerðir morguninn eftir. Menn leggja gangandi af stað til Látra víðs vegar að úr hreppnum.
3. Björgunarmenn leggja af stað eldsnemma á laugardagsmorgni frá Látrum. Ákveðið er að freista þess að bjarga strandmönnum með því að síga í fjöru af Flaugarnefi. Um 100 metra leið er af brún bjargsins niður á Flaugarnef og er það snarbrött klettahlíð. Af nefinu er svo 80 metra standberg í fjöru.
4. Tólf menn fara niður á Flaugarnef. Þeir eru allt frá nítján ára unglingum upp í fullorðna menn. Flaugarnefið er 40 metra breitt og 60 metra langt. Einungis er fært fyrir vana menn niður á það að sumarlagi, hvað þá um hávetur í klaka og myrkri. Þeir eru komnir niður á nefið um kl. 10:00. Fyrir tilviljun hafði einn mannanna tekið með sér öxi. Með henni var hægt að höggva spor í grassvörðinn svo þeir sem á nefninu sátu hefðu viðspyrnu.
5. Fjórir (Þórður á Látrum, Drési Karls, Hafliði í Neðri Tungu og Bjarni í Hænuvík) síga niður í fjöru af Flaugarnefinu og tóku þeir mest allann björgunarbúnaðinn með sér á bakinu.
6. Línu er skotið út í skipið. Greiðlega gengur að bjarga Bretunum í land. Um kl. 13:00 eru allir skipbrotsmenn sem voru á lífi (tólf talsins) komnir upp í fjöru.
7. Um kl. 14:00 er farið að draga skipbrotsmenn upp á Flaugarnefið. Kl. 16:00 er búið að draga sjö skipbrotsmenn upp á Flaugarnefið og Þórð á Látrum einnig. Þá er orðið dimmt og farið að flæða að. Ómögulegt er að draga fleiri upp þennan dag.
8. Steinn kemur fljúgandi niður Flaugarnefið. Hann strýkst með vanganum á Árna Helgasyni og særir Guðmund í Breiðuvík á öxlinni. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef hann hefði lent á þeim.
9. Þeir sem eru í fjörunni (þrír björgunarmenn og fimm Bretar) freista þess að finna stað undir bjarginu þar sem brimið nær ekki til þeirra til að geta lifað af nóttina. Í sautján klukkustundir eru þeir að hörfa undan briminu í fjörunni í náttmyrkri við ólýsanlegar aðstæður. Björgunarmenn á Flaugarnefi og Bretarnir sjö verða að dvelja þar um nóttina því ómögulegt er að fara upp 100 metra snarbratta og hættulega klettahlíð í náttmyrkrinu. Þrír menn fikra sig þó upp á brún eftir vað til að láta vita af sér og sækja mat og klæðnað.
10. Hafliði fær stein utan í höfuðið undir bjarginu og höfuðkúpubrotnar. Búið er um sárið en annars er ekkert hægt að gera. Bátsmaðurinn á Dhoon fær einnig stein í höfuðið en særist minna.
11. Þegar búið er að sækja mat og föt að Látrum er bagginn (um 50 kíló) bundinn á bakið á Halldóri Ólafssyni, fimmtán ára dreng. Hann er léttastur og því auðveldast að láta hann síga niður í náttmyrkrinu. Hann er látinn síga niður um 60 metra leið. Bagginn er svo þungur að það reynist honum ofraun að halda um kaðalinn á leiðinni niður. Hann missir tökin á vaðnum og snýst við. Honum er þannig slakað niður einhverja tugi metra í náttmyrkrinu með höfuðið á undan og fimmtíu kílóa bagga hangandi á sér þar til hann lendir á syllu og stöðvast. Hann kallar á hjálp og menn á Flaugarnefinu heyra í honum og komast til hans. Hann verður fyrir svo miklu áfalli að um tveir sólarhringar eru þurrkaðir út úr minni hans æ síðan.
12. Menn úr nærliggjandi sveitarhlutum safnast til Látra á aðfaranótt sunnudags til að aðstoða við björgunina. Það gengur á með hvassviðri og rigningu.
13. Undir hádegi á sunnudegi er farið að birta það mikið að hægt er að fara að draga þá sem eftir voru í fjörunni upp á nefið. Þeir lifðu allir af nóttina. Þegar þeir eru að klöngrast að vaðnum fær Andrés Karlsson stein af svo miklu afli í kassa sem hann bar á bakinu að hann flaug flatur.
14. Það tekst að ná öllum mönnunum úr fjörunni upp á Flaugarnefið. Síðan er farið að koma þeim upp á brún á bjarginu. Um kl. 18:00 á sunnudagskvöld er síðasti maður kominn upp á brún. Ekki var fært að koma þeim skipbrotsmönnum sem höfðu gist í fjörunni heim að Látrum um kvöldið eða nóttina því ekki var til nægur mannskapur svo tryggt væri að allir kæmust til bæja. Um 15 km leið er heim að Látrum frá bjargbrúninni. Þeir urðu því að gista í tjaldi á bjargbrúninni ásamt tveimur íslendingum. Ekki mátti sofna því þá var ekki víst að menn vöknuðu aftur.
15. Síðustu skipbrotsmenn og björgunarmenn koma heim að Látrum á mánudagsmorgni. Þeir sem lengst höfðu vakað vöktu í um þrjá til fjóra sólarhringa.


Þetta er stutt ágrip af atburðarásinni vestur við Látrabjarg þessa sólarhringa sem vafalaust enginn gleymdi nokkurntíma sem upplifði þá. Margt fólk kemur vestur á Látrabjarg á hverju sumri. Fæstir þeirra leiða hugann að þessu mikla afreki þegar þeir standa á brun bjargsins á góðviðrisdegi og enn færri geta gert sér í hugarlund við hvaða aðstæður þetta mikla afrek var unnið.

fimmtudagur, desember 24, 2009

Mahalia Jackson - Silent Night

Dómkirkjan á góðri stund

Þegar maður heyrir í hádegisfréttum að flugvélinni sem átti að fara til Ísafjarðar hafi verið snúið frá vegna veður þá rifjast upp eitt og annað frá því í denn tíð þegar verið va rað komast heim eða að heiman í kringum jólafrí. Það var ekki alltaf fyrirhafnarlaust. Í fyrsta sinn sem ég fór í skóla utan sveitar þá var það í Stykkshólm. Ég komst vandræðalaust heim í jólafrí með ákveðnum selflutningum . Þegar áramótin voru liðin þá þurfti að koma gripnum í vegn fyrir Breiðafjarðarferjuna Baldur á nýjan leik. Það var ekki auðvelt því allar heiðar voru kolófærar. Þá voru vegir ekki ruddir daglega heldur einu sinni til tvisvar í viku eftir því hvernig verkast vildi. Því fór pabbi með mig fótgangandi inn yfir Sandsheiði inn á Barðaströnd. Mig minnir að það hafi verið á þrettándanum. Ég mældi leiðina í fyrrasumar og hún er akkúrat 15 km inn að Holti með um 500 metra hækkun. Ég hafði ekki farið Sandsheiði síðan þarna í janúar 1967. Ferðin gekk í sjálfu sér vel, veðrið var ágætt og göngufæri líka. Við gistum svo inn á Barðaströnd og pabbi fót fótgangandi til baka daginn eftir.

Öðru skipti man ég eftir þegar hafði verið ófært að sunnan nokkra daga og að lokum gaf að fljúga daginn fyrir Þorláksmessu. Þá var ollu tjaldað sem til var og þrjár flugvélar flugu vestur á Patreksfjörð þennan morgun. Veðrið va rsvo sem ekkert sérstakt því þær þurftu að hringsóla yfir Patreksfirðinum í ein þrjú kortér áður en möguleiki var á að lenda. Þá flugu þær út með firðinum að norðanverðu því þar var bjartara. Síðan þegar komið var til móts við flugvöllinn þá var þverbeygt inn í sortann og svo skelltu þær sér niður á völlinn. Þeir sem biðu farþeganna sáu ekkert til vélanna fyrr en þær runnu fram hjá flugvallarskýlinu eftir að hafa lent.

Eitt skipti kom Inga systir vestur daginn fyrir gamlársdag og ætlaði að vera heima yfir áramótin. Hún þurfti að bíða í þrjár vikur eftir því að flugfært yrði suður með tilheyrandi vandræðum.

Varðskipin voru þrautalendingin þegar gaf ekki fyrir flug. Það kom nokkuð oft fyrir að skólafólk og aðrir sem þurftu að komast á milli fóru vestur með varðskipi fyrir jólin eða þau smöluðu firðina eftir hátíðarnar þegar illa leit út með flug. Það voru ekki alltaf skemmtilegar ferðir að veltast með varðskipi eina tólf tíma drullusjóveikur og ræfilslegur. Eitt skipti komst ég vestur á Þorláksmessukvöld eftir varðskipsferð að sunnan og annað skipti þurfti ég að bíða í viku á Patró eftir næsta varðskipi þar sem ég missti af þvi fyrra.

Tvisvar sinnum man ég eftir að rafmagnið fór yfir jólin. Í annað skiptið bilaði ljósavélin og það var búið við kertaljós og gaseldavél fram yfir nýár. Í hitt skiptið fór rafmagnið á aðfangadag 1974 þegar nýbúið var að leggja raflínuna um sveitirnar. Línurnar slitnuðu í vitlausu veðri og rafmagn kom ekki aftur á fyrr en á gamlársdag. Þetta hafðist en mest va rum vert að geta haldi hlýju á bænum. Þá kom gamla olíufýringin í góðar þarfir.

Svona var þetta og þótti sjálfsagt. Þetta var eðlilegur partur af tilverunni að geta lent í ströggli við að komast frá eða til í jólafrí. Aldrei datt manni þó í hug á þessum árum að vera annarsstaðar yfir jólin en fyrir vestan.

Óska öllum þeim sem eiga leið um síðuna gleðilegra jóla.

þriðjudagur, desember 22, 2009

Run Rudolph Run Keith Richard

Norðurljós á fljúgandi ferð við Rauðavatn

Ég var niður í Hagkaup í Kringlunni í eftirmiðdaginn að árita bókina. Lílkega verður þetta seinasta úthaldið. Þetta venst þokkalega. Auðvitað er það dálítið skrítið að sitja þarna og bjóða afurðina til sölu. Það er mesta furða hvað fólk stoppar, spjallar og alltaf eru nokkrir sem ganga burt með bók í hönd. Auðvitað hefði ég getað verið duglegri við að fara um og lesa upp en það er svona að í nokkur horn er að líta.

Á norska vefnum www.kondis.no/ultra er sagt smávegis frá brettishlaupinu um daginn. Líklega eru ekki margir sem hafa lagt fyrir sig svona löng brettishlaup á norðurlöndunum. Johann Lindvall, svíinn sem ég atti kappi við á Borgunarhólmi í vor, hefur þó hlaupið 48 klst hlaup á bretti og náði tæpum 300 km. Einar sem heldur utan um vefinn gefur einnig slóð á gildandi reglur um svona hlaup svo þau verði tekin gild á alþjóðavettvangi. Ég þekkti þessar reglur ekki áður en það er gott að vita af þeim. Gott hjá Sæbjörgu í Vestmannaeyjum að einhenda sér í að hlaupa 100 km á bretti og klára það með sóma.

Ástralskur vinur Sveins kom með honum að utan á miðvikudaginn og dvaldi hjá okkur í nokkra daga. Það hefur vafalaust verið dálítið framandi fyrir hann að koma hingað. hann sagðist t.d. aldrei hafa dvalið í landi sem hefði ekki ensku sem móðurmál. Eitt af því sem hann vonaðist eftir að upplifa var að sjá norðurljós. Við fórum austur á Þingvöll í gærkvöldi á norðurljósaveiðar. Við sáum þau vissulega en frekar voru þau dauf. Það hefði verið gaman fyrir hann að upplifa þau kraftmikil og litfögur en þetta var svona hálfsýning.

föstudagur, desember 18, 2009

Bruce Springsteen - Santa Claus Is Comin' To Town

Tvær gæsir að hvæsa

Við mættum nokkur niður í Sportís í Garðabæ seinni partinn í dag. Það voru þau ágætu hjón Þórólfur og Eva, Sibba, Margrét Elíasdóttir, Birgir Sævarsson, Birkir Marteinsson, Sigurður Hansen og undirritaður. Tilefnið var að taka á móti fyrstu posion af hlaupafatnaði frá Asics umboðinu. Það valdi nokkra hlaupara sem það ætlar að styrkja með vetrarhlaupafatnaði, sumarhlaupafatnaði og hlaupaskóm í þeirri von að hópurinn verði umboðinu og hinu ágæta Asics nafni til sóma og framdráttar. Það er heiður að því að vera valinn í svona hóp því þarna er samankomið harðsnúið lið og mjög myndarlega gert af umboðinu. Við myndum lið á hlaup.com og einnig mun hópurinn mynda lið í hlaupum þar sem boðið er upp á það undir merkjum Asics. Þegar var verið að spjalla saman töldu þeir Asics menn öll tormerki á því að þeir gætu neitt hlaupið sem heitið gæti. Upp úr því fóru menn að bera saman sinn fyrsta tíma í 10 km. Þar komu tölur fram sem hefðu ekki bent til þess að viðkomandi ætti eftir að standa uppi sem afreksmaður í götuhlaupum nokkrum árum síðar. Það sannast á þessu að maðurinn er sín mesta hindrun. Ef maður telur sér trú um að eitt eða annað sé ómögulegt þá tekst það alveg örugglega ekki. Ef látið er reyna á hvort eitthvað sé hægt þá er þó alla vega möguleiki á að það takist.

Ég er búinn að fá glærurnar frá ráðstefnunni í Frankfurt í síðustu viku. Það er fróðlegt að fara yfir þær og rifja erindin upp. Það eru ótrúlegir hlutir sem hafa verið að gerast í almenningshlaupum í Evrópu á síðustu árum. Þetta hefur sprottið upp úr grasrótinni án stuðning eða atbeina frjálsíþróttasambandanna og sumstaðar án aðkomu fjölmiðla. Okkar land er að mestu leyti dæmi um hið síðarnefnda. Í ár þá sóttu 125 þúsund manns um að komast í London maraþon í þessu 25 þúsund pláss sem voru laus. Þetta gerðist á einum sólarhring. Þetta er náttúrulega makalaust. Fyrir 20 árum tóku um 5.000 manns árlega þátt í Boston maraþoni. Nú eru þeir um 25.000. Reiknað er með að það séu á bilinu 450.000 og 500.000 manns sem hleypur maraþon í evrópu á hverju ári. Fyrir 15 árum síðan voru þeir rúmlega 100.000. Í kringum 1980 voru þeir kannski um 10.000 talsins. Á 10 árum hefur fjöldi skokkara í Hollandi vaxið úr því að vera um 8% þjóðarinanr í um 18%. Í Belgíu hefur fjöldi skokkara vaxið úr því að vera 3% þjóðarinnar á 10 árum í ca 10%. Af einstökum viðburðum sem eru skipulagðir undir sama hatti þá er DHL boðhlaupið í Danmörku fjölmennasti hlaupaviðburðurinn í Evrópu en um 100.000 manns taka þátt í honum. Það er margt fleira athyglisvert í þessum glærum sem verður kannski farið yfir síðar.

Ég sé á hlaup.is að kona í Vestmannaeyjum ætlar að leggja í a hlaupa 100 km á bretti á morgun. Það er flott að hlauparar eru tilbúnir í að kasta sér út í djúpu laugina. Vonandi gengur þetta allt upp hjá henni. Fréttir í Vestmannaeyjum hefðu hins vegar aðeins lagst í rannsóknavinnu því tvær íslenskar konur hafa hlaupið 100 km utandyra. Það eru þær Elín Reed og Bryndís Baldursdóttir (Bibba). Engin íslensk kona hefur hins vegar hlaupið 100 km á bretti svo kannski verður brotið blað í hlaupasögunni á morgun.

Ég árita bókina í Hagkaup í Smáralindinni í dag milli 16:00 og 18:00 og svo er það Mál og Menning á Laugaveginum á morgun milli kl. 14:00 og 16:00. Þá verðum við Edda Heiðrún saman að árita. Það verður ánægjulegt.

The Pogues and Kirsty MacColl - Fairytale of New York

Sólsetur við Grímsá í Borgarfirði

fimmtudagur, desember 17, 2009

Norski hlaupavefurinn birti í dag yfirlit um besta árangur ársins á Norðurlöndum í 100 km hlaupi hjá konum og körlum. Sigurjón Sigurbjörnsson er þar í 18 sæti eftir sitt góða hlaup í júní en rétt um 30 karlar á Norðurlöndum hlaupa 100 km á undir níu klst, en það er lágmarksárangur sem þarf að ná til að komast inn á þennan lista. Það sýnir okkur að hann er í fremstu röð á Norðurlöndum í þessari grein ultrahlaupa. Engin íslensk kona hljóp 100 km á árinu en árangur Elínar Reed í fyrra hefði fleytt henni í 10. sæti eða svo. Það gefur okkur bara hugmynd um hvað hún er sterk. Það er vonandi að fleiri taki á sig rögg, hoppi út í djúpu laugina og fari að takast á við ultrahlaup af þessum toga.

Nýlega voru knattspyrnumaður og knattspyrnukona Íslands á árinu 2009 valin. Mér finnst valið á Eið Smára sem knattspyrnumaður ársins vera vægast sagt diskútabelt. Þótt hann hafi verið á mála hjá besta liði Evrópu fyrri helming ársins þá er það ekki það sama og að hann hafi spilað stóra rullu í liðinu. Fréttaflutningur hér heima var reyndar eins og að hann hefði allt að því unnið meistaradeildina fyrir Barcelona upp á eigin spýtur. Allir sem fylgdust eitthvað með vissu að staðreyndin var önnur. Síðan átti hann að verða hreinn bjargvættur fyrir Monaco þegar hann skipti um lið. Nú kemst hann ekki einu sinni í liðið. Að skjóta þrisvar sinnum á mark í átta leikjum er ekki gott fyrir mann sem á að skora mörk. Vælið um að franska knattspyrnan sé eitthvað öðruvísi en annar fótbolti er náttúrulega út í hött. Maður sér íslenska stráka koma frá Belgíu og spila í Englandi frá fyrsta leik eins og þeir hafi aldrei gert annað. Það er greinilegt að það er eitthvað mikið að hjá honum. Að taka á móti verðlaunum sem besti knattspyrnumaður ársins í þessari stöðu hlýtur að vera meir en lítið vandræðalegt ef menn bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér.

Ég fletti bókinni Útkall í dag. Hún fjallar einvörðungu um björgunarafrekin við Látrabjarg og Hafnarmúla í Rauðasandshreppi. Fólkið sem þarna kom við sögu á það sannarlega skilið að þessi saga sé sögð í greiðargóðu máli eins og Óttari er von og vísa. Um þessa atburði var afar lítið talað heima, sérstaklega þó um björgunina við Hafnarmúlann. Þar dó rúmur tugur Breta og hefur það vitaskuld legið þungt á þeim sem að málinu komu. Annað kemur einnig fram sem ég vissi ekki en það var hve þessir atburðir hvíldu þungt á mörgum og sumir jöfnuðu sig aldrei. Sumir gátu aldrei horft á myndina um Björgunarafrekið við Látrabjarg því það rifjaði upp svo erfiðar minningar. Hafliði í Neðri Tungu höfuðkúpubrotnaði þegar hann fékk klakann í höfuðið undir bjarginu. Það var nokkur dæld í höfuðið á honum allar götur upp frá því eftir því sem segir í bókinni. Það var bara látið gróa því annað var ekki í stöðunni en hann bar þessa aldrei bætur eins og gefur að skilja. Það er óhætt að mæla með þessari bók sem fróðlegri lesningu um mikil afrek sem fólkið í Rauðasandshreppi vann fyrir rúmum 60 árum.

Ég ætlaði að skreppa austur að Selfossi í kvöld og lesa upp úr bókinni minni í bókakaffinu hjá Bjarna Harðarsyni. Því miður þurfti ég að aflýsa því en það var nauðsynlegt að fara á íbúafund út á Álftanes þar sem fjárhagsstaða sveitarfélagsins var rædd.

Það hafa ýmsir spurt mig að því hvort ég muni árita bókina einhversstaðar. Nú er það ákveðið að ég geri það í bókabúð Máls og Menningar á Laugaveginum milli 14:00 og 16:00 á sunnudaginn kemur. Ég á eftir að ná í Eddu Heiðrúnu en hún var búin að hafa góð orð um að leggja mér lið ef út í þetta væri farið.

laugardagur, desember 12, 2009

Aðallagið í dag!!! Bob Dylan - Must Be Santa

Það var hart tekist á í Víkinni í gærkvöldi

Indriði bóndi á Skjaldfönn skrifar góðan pistil í Moggann í dag þar sem hann beinir nokkrum orðum til umhverfisráðherra vegna þeirrar ákvörðunar ráðherrans að ríkið hætti að leggja fjármuni í refaförgun. Indriði er bæði gjörkunnugur viðfangsefninu og einnig er hann orðhagur svo pistillinn er góður eins og við var að búast. Þegar ríkið hættir að leggja fjármuni í þetta verkefni gerist annað tveggja, kostnaðinum er ýtt yfir á sveitarfélögin eða refurinn verður látinn í friði. Nú er það svo að margir þeirra sem fara sjaldan austur fyrir Elliðaárnar sjá ekkert athugavert við að litlir sakleysislegir hundar eins og refurinn vappi um holt og móa. Það getur varla skipt svo miklu máli. Þeim sem leggja leið sína um Hornstrandir finnst yndisauki að sjá refina skottast við fætur sér og sníkja harðfisk og súkkulaði. En þetta er ekki svona einfalt. Það eru rétt 30 ár síðan ég fór fyrst um Hornstrandir. Ég fór síðast um Hornstrandir fyrir um 10 árum síðan. Þá hafði friðun refa staðið yfir í 10 ár. Samanburðurinn er þannig að fyrir þrjátíu árum var jafn sjaldgæft að sjá ref á Hornströndum eins og það var sjaldgæft að sjá mófugl fyrir tíu árum síðan. Mófuglinn er horfinn af Hornströndum. Vitskuld. Refurinn þarf að éta eins og önnur dýr. Kunnugir segja að hann sé búinn að eyða bjargfugli úr stórum flákum í björgunum eða á þeim svæðum sem hann getur farið auðveldlega um. Þegar fuglinn er farinn sprettur grasið fljótt og þar verpir svartfugl ekki aftur. Lengi stóðu þrætur milli heimamanna og svokallaðra sérfræðinga um hvort refurinn væri staðbundinn eða hvort hann færi út af Hornströndum. Sérfræðingarnir fullyrtu að refurinn væri mjög staðbundinn og færi ekki neitt. Bændur og veiðimenn fullyrtu hið gagnstæða. Loks þegar samkomulag náðist um að setja senda á refi á Hornströndum kom í ljós að hann fjandaðist um allar jarðir. Það er bara heilbrigð skynsemi. Þegar ætið er orðið of lítið á Hornströndum þá leitar hann vitaskuld að fæðu annarsstaðar. Það segir sig sjálft.

Ég er alinn upp við hliðina á refnum og þekki hann því svona þokkalega. Nokkur dýr slysaði ég enda þótt þau væru ekki mörg. Svo hátt komst ég í þjóðfélagsstiganum þar vestra að ég lá á greni á sínum tíma. Refurinn er mér því ekki ókunnur. Einu sinni var refur ekki unninn í sveitinni í tvö vor, einhverra hluta vegna. Það merktist strax hve honum fjölgaði gríðarlega einungis fyrir það að gren voru ekki unnin í hreppnum þessi vor.

Skaði af refum er tvennskonar. Annars vegar drepur hann sauðfé. Skaði af þeim völdum hefur vafalaust minnkað þegar farið var að taka fé fyrr á hús og sleppa því síðar á vorin en dýrbítar munu alltaf finnast. Það er ófögur sjón að koma á greni sem er þakið lambaræflum. Hins vegar drepur refurinn mikið af fuglum. Hann ryksugar upp unga um varptímann. Ef refnum fjölgar mikið er þetta stóri skaðinn að mínu mati. Fjölgun hans mun hafa veruleg áhrif á fuglalíf í landinu. Ef sveitarfélög reyna að hamla á móti þessum skaðvaldi þá lendir kostnaðurinn á íbúum fámennra sveitarfélaga á landsbyggðinni en 70-80% íbúanna láta sér þetta í léttu rúmi liggja en vilja engu að síður njóta fuglalífsins. Hvaða réttlæti er í því t.d. að íbúar Skútustaðahrepps, sem eru um 400 talsins, skuli einir bera kostnaðinn af því að halda niðri vargi við Mývatn þegar vatnið og umhverfi þess er á heimsminjaskrá? Skútustaðahreppur er mjög landmikill svo það er enn erfiðara. Það er náttúrulega svo galið að það nær engri átt.

Ég reiknaði út að gamni mínu hvað eitt tófupar gæfi af sér marga afkomendur á 10 árum ef engin afföll yrðu og allar tófurnar myndu eignast afkomendur árlega. Auðvitað er niðurstaðan ofmat en það gefur engu að síður til kynna hve ofboðsleg fjölgun verður á refnum ef hann er látinn óáreittur. Tófur eignast yrðlinga ársgamlar svo viðkoman er mikil. Ef tófupar eignast fjóra yrðlinga að vori, tvo steggi og tvær læður þá eru þrjú pör klár vorið eftir. Hvert þessara para eignast fjóra yrðlinga. Þá eru tófurnar orðnar 18 o.s.frv. Eftir 10 ár væru tófurnar með þessu áframhaldi orðnar rúmlega 118 þúsund sem væru komnar útaf þessu eina pari ef engin afföll yrðu og allar hefðu parað sig. Vitaskuld er þetta ofmat en gefur þó til kynna hve tófunni fjölgar gríðarlega hratt ef hún er látin í friði. Eitthvað þarf svo þessi sægur að éta.

Ég verð nú að segja að þetta er skrítin umhverfisvernd að mínu mati.

Hún er klár íslenska stelpan sem býr í Búlgaríu. Á Íslandi segist hún vera ofboðslega fræg og þekkt í Búlgaríu og í Búlgaríu segist hún vera heimsfræg á Íslandi. Búlgaría var eitt af alverstu kommúnistaríkjunum í austurblokkinni á sínum tíma. Einungis í Albaníu var fólkið blokkerað meir frá umheiminum. Vafalaust finnst því enn það vera töluvert merkilegt sem gerist í útlandinu, jafnvel þótt það sé bara uppi á litla Íslandi. Íslendingar hafa alltaf verið ofboðslega svag fyrir öllu sem kemur að utan. Það þykir veruleg íþróttafrétt ef íslendingur situr á bekknum hjá liði í annarri eða þriðjudeild, bara ef það gerist í útlandinu. Ég tala nú ekki um ef hann kemur inn á. Því þykir það mjög merkilegt á Íslandi að komast ber eða hálfber í myndablað í útlandinu, jafnvel þótt það sé bara í Búlgaríu. Stelpan spilar á þetta á víxl og nær bara furðugóðum árangri. Þetta er kallað að þekkja sitt heimafólk.

Hitti Jóa og Gauta við brúna í morgun og við tókum góðan 20 km hring. Flott veður.

miðvikudagur, desember 09, 2009

The Beatles - Ob-La-Di, Ob-La-Da Best Version

Trommarinn í Svanhvíti á góðri stund

Ég fór ásamt Svövu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Reykjavíkurmaraþons, til Frankfurt á mánudagsmorguninn. FRÍ var boðið að senda tvo fulltrúa á mikla ráðstefnu um almenningshlaup sem IAAF, ALþjóða frjálsíþróttasambandið boðaði til. Sambandið hefur loks áttað sig á því að það eru að gerast gríðarlega magnaðir hlutir í almenningshlaupum út um alla Evrópu. Hlaupum fer fjölgandi og þáttakendur fjölgar ennþá meir. Á síðurstu árum hefur orðið sprenging í almenningshlaupum í okkar heimshluta. Á einum sólarhring sóttu 125000 manns um að taka þátt í Londonmaraþoni þegar opnað var fyrir skráningu fyrir hlaupið í vor. Sama má segja um mörg önnunr hlaup. það er orðið erfitt að komast inn í stærdtu og þekktustu hlaupin. Áhugavert er að sjá hvað er að gerast í landsáætlunum um að hvetja almenning til aukinnar hreyfingar s.s. í Skotlandi og Noregi. Frjálsíþróttasamböndin vilja gjarna tengjast þessari hreyfingu betur og meðal þess sem rætt var á ráðstefnunni var hvernig það gæti gerst. Hvar færu hagsmunir saman og hvar ekki. Vafalaust hafa frjálsíþróttasamböndin víða verið miðuð við hagsmuni afreksíþróttamanna og þá var í leiðinin hálfvegis litið niður á skokkarana. Þarna koma fjölmiðlarnir einnig til sögunnar. Við þurfum ekki að leita langt til að sjá viðhorf ýmissa svokallaðra íþróttafréttamanna hérlendis á þessu sviði. Fjölmiðlamenn nenntu ekki að fletta þvþí upp hverjir urðu í öðru og þriðja sæti á Laugaveginum í sumar. Það þykir meiri íþróttafrétt að launagreiðslum til Hermanns Hreiðarssonar seinkaði um einn dag heldur en að Laugavegsmetið væri bætt um 20 mínútur í sumar. Síðan standa menn frammi fyrir því að það er að gerast eitthvað alveg óvænt sem hvorki frjálsíþróttasamböndin né fjölmiðlar hafa komið nálægt eða sýnt nokkurn áhuga. Markaðurinn er hins vegar búinn að átta sig nokkuð á hvað er að gerast í þessum málum hvað varðar eftirspurn eftir ýmsum vörum sem tengjast hlaupum. Þetta var fróðleg ráðstefna sem vonandi skilar einhevrju inn í umræðuna og framkvæmd mála hérlendis.

Ég sá nýlega að tveir Svíar ætla að gera atlögu að sænsku metunum í 24 tíma hlaupi og 48 tíma hlaupi á bretti. Þeir hafa undirbúið sig nokkuð lengi en ætla að láta slag standa eftir áramótin. Sænska metið í 24 tíma brettishlaupi er 180 km og Johann Lindvall, sem varð annar í 48 tíma hlaupinu í Borgundarhólmi í vor, á metið í 48 klst hlaupi eða 291 km. Það kemur mér á óvart að sænksa metið í 24 tíma brettishlaupi skuli ekki vera meira en 180 km. Það hefðu verið 80 km á 13,5 klst til viðbótar við þá 100 sem ég hljóp um daginn. Það hefði ekki verið neitt stórmál.

Ég tek yfirleitt bækur með mér þegar ég fer í svona ferðir því það er yfirleitt nægur tími til að lesa. Ég greip með mér Fiskileysisguðinn eftir Ásgeir Jakobsson og las hana í flugvélinni á leiðinni heim. Ég hafði lesið hana áður en það er svona með sumar bækur að þær getur maður lesið aftur og aftur. Yfirleitt eru það gæðamerki. Ásgeir spáði á áttundaáratugnum fyrir um þróun mála í aflabrögðum á þorski þegar farið var að stjórna fiskveiðum hérlendis. Líklega hefur þróunin orðið verri en hann gat ímyndað sér. Um áratugaskeið gáfu Íslandsmið af sér um og yfir 400 þúsund tonn að þorski upp úr sjó. Eftir 25 ára stjórnun og vísindalega ráðgjöf taldi Hafrannsóknastofnun óhætt að veiða 130 þúsund tonn í ár. Það er einn þriðji af því sem hafið kringnum landið gaf af sér í áratugi hér á árum áður. Það er náttúrulega alveg stórmerkilegt að það skuli varla vera nein umræða um þessi mál. Lágmark væri að Hafró skýrði það út hvers vegna lækningin er alveg að drepa sjúklinginn. Á tímabili héldu sjálfskipaðir sérfræðingar því fram að sjávarútvegur heyrði sögunni til en fjármálamarkaðurinn væri framtíðin. Það má vel vera að svo sé en alla vega höfum við Íslendingar ekki vit eða þekkingu til að vera með í þeim leik. Það er hins vegar töluverður hópur Íslendinga sem kann sjósókn mjög vel. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að auka útflutingsverðmæti með öllum tiltækum ráðum. Það er eina leiðin til þjóðin geti greitt þær skuldbindingar sem hún verður að taka á sig. Ég er enginn sjávarútvegssérfræðingur en ég veit hinsvegar að 130 þúsund tonn er tæpur þriðjungur af 400 þúsund tonnum. Það er ekki lengur hægt að horfa þegjandi á Hafró leggja til minni og minni sjósókn í nafni vísinda. Þeir verða að rökstyðja betur þær jöfnur sem þær nota en þeir hafa gert hingað til því einhversstaðar eru í þeim skekkjur. Það er eins gott að þær finnist áður en þeir reikna sjávarútveginn til andskotans.

sunnudagur, desember 06, 2009

The Beatles-Your mother should know

100 km á hlaupabrettti

Það var fínn dagur í gær. Vitaskuld er ákveðið stress á ferðinni þegar tekist er á við hluti sem maður hefur ekki reynt áður. Ég hafði mestar áhyggjur af því að fá í bakið eða eitthvað álíka. það er allt annað álag á líkamann þegar hlaupið er í sömu stellingu í klukkutímann saman heldur en þegar hlaupið er utan dyra. Ef maður fær svona álagsmeiðsli þá fer maður að hlaupa skakkur og þá er stutt í ákveðinn vítahring. Ég hafði lengst hlaupið 30 km á bretti þar til nú þannig að þetta var að hluta til ferð inn í óvissuna. En það er nú bara þannig að það er ekki allt fyrirséð. Það er partur af þessu.
Ég var mættur niður í Laugar með nesti og gamla skó upp úr kl. 8:00. Það þurfti að græja eitt og annað en ég hafði gert ráð fyrir að leggja af stað kl. 9:00. Það stóðst allt og ég var kominn af stað á tilsettum tíma. Ég lagði út með hraðann 11 sem er rétt undir 5:30 á km. Það er vandinn í svona hlaupum að finna þetta jafnvægi sem verður að vera fyrir hendi, ekki of hratt og ekki of hægt. Reyndar var þetta ekki kapphlaup heldur félagshlaup. Því var ég ekkert naumur á að stoppa stund og spjalla ef svo bar undir.
Það kemur vel í ljós í svona hlaupi hvað allt er afstætt. Mér hafði fram að þessu fundist langt að hlaupa 30 km á bretti. Nú var það einungis 1/3 af heildarvegalengdinni svo það var bara stutt og tók fljótt af. Ég lagði hlaupið upp eins og 100 km hlaupið í Óðinsvéum sem við Halldór hlupum á sínum tíma. Þar voru tvær drykkjarstöðvar á 5 og 10 km. Ég setti hlaupið upp á sama hátt. Stoppaði smástund á 5 km og fékk mér vel að drekka. Sama á 10 km. Þetta brýtur hlaupið upp og gerir áfangana viðráðanlegri. Ég hafði þrjú box af Herbalife próteini með og drakk skammtinn á 3ja tíma fresti. Ég var með nóg af öðru nesti en borðaði ekkert af því því próteindrykkurinn dugði eins og ég vissi að hann myndi gera.
Trausti Valdimarsson og Guðjón sonur hans komu upp úr hádegi og hlupu með mér seinni part dagsins. Guðjón hljóp 25 km en Trausti skrefaði 50 km. Það var fínt að hafa þá við hliðina á aér og braut daginn vel upp. Edda Heiðrún kom í heimsókn eftir hádegið og færði mér flotta blómaskreytingu. Allmargir hlauparar komu og heilsuðu upp á mig yfir daginn. Það var bara gaman að því og stytti daginn.
Ég hljóp á hraðanum 11 upp í 50 km. Þá jók ég hraðann aðeins og hélt því upp í 70 km. Þá fór sinadráttur að gera vart við sig í kálfunum og hamraði hann þar stöðugt sem eftir var. Þrátt fyrir að ég dældi í mig steinefnatöflum þá bara dugði það ekki til að berja hann niður. Aðstæður fyrir langhlaup eru ekki beint góðar inni í svona æfingasal. Það er örugglega 22-24°C og algert logn. Aldrei svali eða gola. Svitinn streymir stöðugt út og því þarf maður að drekka gríðarlega. Ég var með allan vökva með á flöskum svo ég veit alveg hvað ég drakk. Ég drakk yfir 10 lítra af vökva á meðan á þessu stóð. Það skiptist á eftirfarandi hátt: 4 lítrar af vatni, 3 lítrar af Coke, 1 líter af Sprite, 2 lítrar af djús í Próteindrykknum og 1/2 liter af Malti. Það segir sig sjálft að það er gríðarlegt álag á líkamann að renna þessu vökvamagni í gegnum sig eða sem svarar 1 líter á klukkutíma. Útskolun á steinefnum er eftir því. Eftir hlaupið var ég heldur léttari en þegar ég lagði af stað. Ég fékk aðeins aðkenningu í magann á milli 60 og 70 km en svo lagaðist það. Eftir 70 km þá hægði ég aðeins á mér til að bregðast við krampanum í kálfunum. Ég vildi ekki eiga á hættu að læsast fastur svo ég valdi hraða þar sem ég rúllaði létt áfram. Það er alltaf fínt í hlaupi eins og þessu þegar maður sér til enda þess. Því var tilfinningin góð þegar farið var ínn í síðustu 10 km. Þá hleyp ég í huganum frá Eiðistorgi austur hefðbundna leið í gengum miðbæinn, inn að Laugum og svo gegnum húsdýragarðinn, framhjá Glæsibæ og svo heim.
Ég var fínn þegar hlaupinu var lokið. Hvergi skafsár eða blaðra, hvergi eymsli eða stirðleiki. Zinkpastað er töfraefni í þessu samhengi. Krampinn hvarf um leið og hlaupið var búið svo það voru engin vandræði af honum. Það hefði ekki verið neitt mál að halda áfram ef það hefði verið í spilunum. Hlaupinu lauk ég á um 10 klst og 20 mín.
Það var ekki til setunnar boðið þegar hlaupinu var lokið. Ég skrapp heim og fékk mér smá bita en svo ók ég suður í Kópavog. Það var Vestfirska forlagið með bókakynningu. Ég las smá kafla upp úr bókinni "Að sigra sjálfan sig". Þarna var upplestur út fleiri bókum sem kom út hjá því vestfirska í haust en einnig steig Ólafur Helgi sýslumaður á Selfossi á svið og söng Rolling Stones lög með hljómsveitinni Granít frá Vík í Mýrdal.

föstudagur, desember 04, 2009

The Beatles (1963-70)

Upphaf þriðja dagsins í sumar

Nú bíða 100 km á morgun. Ég ætla að mæta niður í Laugar kl. 8:00 og gera klárt svo hlaupið geti hafist kl. 9:00. Þetta fer vonandi allt vel en þetta er svolítið önnur áskorun en margt annað. Það er ekki ástæða til annars en að vera bjartsýnn. Reikna með að ljúka hlaupinu um kl. 19:00. Ef það gengur hraðar þá er það bara bónus.

miðvikudagur, desember 02, 2009

The Beatles Blackbird

Merkigil í Austurdal í Skagafirði

Kiljan er einn alskemmtilegasti þáttur sem er í sjónvarpinu. Egill hefur gott auga fyrir að halda góðum dampi út í gegn og er alltaf með áhugaverða vinkla inn í bókmenntaheiminn. Páll og Kolbrún mynda skemmtilegt andstæðupar, hún kvik og snögg upp en það rótar honum ekkert. Bestur er þó Bragi Kristjónsson. Það er virkilega góð hugmynd hjá Agli að fá Braga til að botna hvern þátt því karlinn þekkir náttúrulega þetta allt saman út og inn. Það er ekki til sá maður tengdur menningarheiminum síðustu áratugina sem hann þekkir ekki. Það var flott kvæði sem Bragi fór með eftir Jón Helgason og hann orti þegar hann var 13 ára gamall.
Það er ekki allt eins dýrt kveðið sem heyrist í fjölmiðlum og kallað er kveðskapur. Í gær heyrði ég lesið upp eitthvað útrásarsveinakvæði á Rás 2. Þá hafði einhver umsnúið og skrumskælt Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum yfir á útrásarvíkingana. Hugmyndin er svo sem allt í lagi en þegar þetta er bæði illa gert og algerlega laust við að vera fyndið þá er betra heima setið en af stað farið. Það er eins og fólk haldi að það sé nóg að kalla það kveðskap ef fjórum línum er klæmt saman samhengislaust, án alls hrynjanda og stuðlar og höfuðstaðir eru víðs fjarri. Dægurlagatextar eru ekki svo heilagir en þegar þetta er lesið upp þá verður að gera lágmarkskröfur svo það sé boðlegt.

Við eldum einstaka sinnum hádegismat í vinnunni til að krydda hversdaginn og breyta til í mararæði. Í dag slógum við í rússneska rauðrófu Borch súpu. Ég hafði einu sinni borðað svona súpu í Rússlandi fyrir löngu síðan og langaði að láta á það reyna hvernig hún gengi hérlendis. Uppistaðan var grænmeti af ýmsu tagi sem er maukað eftir að það hefur verið soðið vel. Súpan heppnaðist mjög vel og hlaut mikið lof. Það er hægt að ná í uppskriftir að svona súpum á netinu með því að googla "borch" eða "borch súpa". Það var eldað fyrir rúmlega 20 manns og efniskostnaður var fyrir utan ýmislegt krydd rétt rúmlega 2000 krónur. Í því var innifalið fyrir utan græmmetið flaska af matarolíu, smjörstykki og peli af rjóma. Ef vill þá er hægt að bæta smátt skornu kjöti út í svona súpur. Bara að láta hugann reika.

þriðjudagur, desember 01, 2009

George Harrison (Here comes the sun)

Jói stóð sig ágætlega í gær

Það var upplestur á Súfistanum í Máli og Menningu í kvöld. Auk mín lásu Anna Ólafsdóttir Björnsson og Elías Snæland Jónsson úr nýútkomnum bókum sínum. Þetta var svolítið sérstök upplifun að bera sig svona á torg. Það venst hinsvegar örugglega eins og margt annað. Ég verð að segja eins og er að ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég rifja upp skemmtiskokkið góða fyrir einum 15 árum. Hvað hefði gerst ef maður hefði sagt Jóa að vera ekki að þessari vitleysu að vera að suða um að hlaupa? Það veit maður auðvitað aldrei en þetta er dæmi um krossgötur þar sem maður velur leið, vitandi eða óafvitandi. Eins gleymi ég aldrei þegar ég sá maraþonhlauparana í Lækjargötunni árið eftir. Maraþonhlauparar, það voru alveg sérstakir menn. Maður veit aldrei hverskonar mola maður fær úr kassanum eins og Forest Gump sagði.

Ég hlustaði á frásögn hjónanna í Kastljósi í gærkvöldi. Þar var eitthvað sem stemmdi ekki. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem þau eru í, það er auðvitað ekki hægt. Sama er, þegar menn ganga fram fyrir skjöldu þá verða öll kurl að vera til grafar dregin.

Ég vona að allt verði í lagi á laugardaginn. Það er alla vega ekkert sem gerir það að verkum að svo verði ekki. Það náðist ekki að safna saman ákveðnum hópi sem skipti kerfisbundið á milli sín 100 km. Fólki virðist vaxa það svolítið í augum að hlaupa 10 km. Fólk getur mikllu meir en það heldur, það bara veit ekki af því. Hlauparasamfélagið er hins vegar farið að melda áhuga á að taka lengri eða skemmri legg við hliðina á mér. Það er bara fínt og verður gaman. Ég þarf að ræða útfærsluna á því við Björn og Dísu í World Class.

Jói og félagar hans fóru suður í Hafnarfjörð og spiluðu við kollega sína í Haukum í
2. flokki í handbolta. Víkingar áttu stórleik og komust mest í 12 marka forystu og sigruðu örugglega að lokum. Þeir eru allir að koma til. Vonandi er hungrið í árangur farið að segja til sín. Það dregur menn ansi langt áfram.

sunnudagur, nóvember 29, 2009

The Beatles-In My Life

Við hlupum gott Kjalvegshlaup sl. sumar

ég lauk við að lesa Ævintýraeyjuna eftir Ármann Þorvaldsson í gærkvöldi. Ég hef reynt að lesa þær bækur sem hafa verið gefnar út um bankaþróunina og hrunið. Þær gefa hver sinn vinkil á þá þróun sem leiddi ófyrirsjáanlegan ófarnað yfir íslensku þjóðina. Mér finnst þessi bók vera sú sísta sem ég hef lesið. Hún er yfirborðsleg frásögn manns sem manni finnst alveg eins að geti hafa staðið fyrir utan allt saman og horft á sjálfan sig í einhverju framandi hlutverki sem hann bar enga ábyrgð á. Oft er látið að því liggja að vöstur Kaupþings hafi verið svo mikill vegna þess hve forystumenn bankans voru snjallir. Mér finnst miklu frekar það standa efti að hafa lesið þessa bók að hinn gríðarlegi vöxtur bankans hafi verið eins og hann var vegna þess hve forystumennirnir voru vankunnandi um bankamál eða svo fullir sjálfstrausts að hið hálfa hafi verið nóg. Kaupþing þróaðist sífellt meir og meir í þá átt að verða heildsölubanki. Það þýðir að hann lánaði til langs tíma en fjármagnaði sig til skamms tíma. Hann varð því sífellt háðari fjármögnun á alþjóðlegum lánamörkuðum. vegna þess var starfsemi hans sífellt áhættusamari. Það hafði í för með sér að skuldatryggingarálagið hækkaði og hækkaði. Þá var farið að leita á enn fjarlægari markaði til að reyna að bjarga málunum. Sama hefur vafalaust mátt segja um hina bankana tvo. Starfsemi þeirra var byggð á kviksandi. Ef minnsta hreyfing varð á undirstöðunni þá gliðnaði hún í sundur. Það eru þó nokkur atriði sem standa eftir við lestur bókarinnar. Eitt þeirra er til dæmis um hve ýmsa hafi skort lágmarks kunnáttu í mannasiðum. Nefnd eru nokkur dæmi um hvernig hinir og þessir, og þar á meðal bókarhöfundur, hafið komið fram við annað fólk og stuðað það. Þetta hefur vafalaust þótt fyndið í hópi hrokagikkjanna á þeim tíma en virkar nú sem birtingarmynd vanmetakenndarinnar. Annað er ákveðinn plebbaháttur í tónlistarsmekk. Menn sem halda miklar veislur á fínustu veitingahúsum í London hringja ekki í Duran Duran og biðja þá um að skemmta. Það væri svona svipað og hringja í Troggs eða Uriah Heep. Það er dálítið dæmigert þegar hópur fór á ballettsýningu á Ítalíu og fóru síðan að hringja heim og spyrja hvenær söngvarinn (KJ) myndi koma fram. Manni dettur síðan helst í hug að hin gríðarlega eftirspurn eftir að heyra nefndan Ármann syngja Delilah sem Tom Jones gerði vinsælt fyrir einhverjum 40 árum síðan geti allt að eins verið vegna þess að menn hafi hálfvegis verið að gera grín að honum með því biðja hann um að belja lagið við ólíklegustu tækifæri.

Ég á eftir að lesa Styrmisbókina. Hún er vafalaust með áhugaverða vinkla.

Ég fór yfir 5000 km markið í ár kl. fimm mínútur yfir 11 í morgun. Ég hljóp 30 km á bretti í World Class í morgun. Þegar ég fór fyrst á bretti fyrir fjórum árum þá var það död og pine að fara upp í 8 km samfellt á bretti. Nú líða 30 km hjá eins og ekkert sé. Þetta var síðasta langa æfingin fyrir fyrirhugað 100 km hlaup á bretti sem ég ætla að takast á við á laugardaginn kemur. Ég hef æft ágætlega í haust svo þetta á að vera í lagi. Skrokkurinn er fínn svo þetta er fyrst og fremst spurning um hausinn. Ég hafði hugsað mér að fá fimm manns héðan og þaðan til að hlaupa á bretti við hliðina á mér og hver tæki 2 x 10 km. Ég sé ekki fram á að ná því þar sem of mörgum óar við þessari vegalengd. Þá verður þetta bara eitthvað öðruvísi því það eru þegar farnir að gefa sig fram einstaklingar sem vilja hlaupa lengri eða styttri vegalengd samhliða mér. Þetta verður nokkurs konar kynningaruppákoma á bókinni sem kom út fyrir skömmu m.a. til styrktar Grensásdeildinni. Það kemur betur í ljós í vikunni hvernig uppsetningin verður en hlaupið hefst kl. 9:00 á laugardagsmorgun.

Þar til fyrir tveimur árum síðan þá hljóp ég samtals um 3000 km á ári og þótti ágætt. Í fyrra fór ég vel yfir 4800 km en nú eru komnir 5000 km á ellefu mánuðum. Það gera um 450 km á mánuði. Það var allt að því hámarksvegalengd í ströngu prógrammi fyrir 3-4 árum. Nú er það bara létt og áreynslulítið. Það sem helst vantar nú í þessu sambandi er tími. Það er bara eins og gengur.

laugardagur, nóvember 28, 2009

Help! Beatles

Tildruskinn

Það ehfur verið mikil umræða út að fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar að lækka greiðslur í fæðingarorlofi. Það ætlar allt af göflinum að ganga hvað varðar jafnrétti kynjanna og möguleika feðra til að umgangast börn sín. Reyndar finnst mér að það séu yfirleitt konur sem haldi fram þeim sjónarmiðum. Það væri gaman að sjá í hvaða löndum feðrum er greitt álíka fæðingarorlof eins og hér hefur verið gert. Þeir sem vit hafa á hlutunum eru óþreytandi að segja að önnur lönd líti til Íslands í þessu sambandi. Hvernig líta þau til Íslands? Með aðdáun eða í forundran? Mig skal alla vega ekki undra að það hafi verið nokkur spurnarsvipur á öðrum þjóðum þegar fæðingarorlof var greitt hérlendis sem ákveðið hlutfall (80%) af brúttótekjum feðra, sama hvað háar þær voru. Það lentu á manni boðaföllin þegar gerðar voru athugasemdir við þessa stjórnvisku. Það þótti afturhaldssamt, gamaldags og sérdeilis forpokað að vera ekki sáttur við svo ágætt kerfi. Fyrir mína parta þá set ég spurnignarmerki við það að taka feður taki alfarið fæðingarorlof þegar börnin eru kornabörn. Mér finnst að þau hafi ekki síður haft þörf fyrir nærveru pabbans þegar þau voru að byrja í leikskóla eða grunnskóla. Ég hlustaði á spjall í Rúv um etta efni í gær. karlmaðurinn hélt fram þessari skoðun. Hann fékk það framan í sig að hann væri með bara útúrsnúninga og hártoganir. Það er í þessu eins og öðru að það er bara til ein rétt skoðun. Ég ætla ekki að segja hver hafi búið hana til. Síðan er fullyrt að barnsfæðingum muni fækka vegna þessa sérstaklega þar sem barnsfæðingum fækki í kreppu. Reyndar fæðast börn i ár sem aldrei fyrr en það var skýrt út með því að væntanlegir foreldrar hafi ekki áttað sig á að kreppan væri komin.

Út í búð í dag sá ég að Bubbi Mortens vill byltingu. Mig minnir að þessi sami Bubbi hafi gert samning á sínum tíma um að fá ca 10 ára greiðslur fyrir lög sín og texta greidd fyrirfram. Aurana festi hann síðan í FL Group og sá þá aldrei aftur. Það er ekki nema von að það sé kallað eftir byltingu. Spurning er hverja á að kolla? Það er alltaf gert í byltingum.

Fór út snemma í morgun í fínu veðri. Hitti Jóa og Stebba við brúna yfir Kringlumýrarbrautina og fórum Eiðistorgshringinn. 30 km lágu. Fínn dagur.

Man. Udt. vann Portsmouth örugglega í dag. Það telst svo sem ekki til tíðinda að topplið vinni botnlið nema að varnarmaður Portsmouth sagði í Mogganum í morgun að Man. Udt. væru skíthræddir við lið sitt. Hvað ætli það sé búið að tala oft við þennan ágæta mann á íþróttasíðum Moggans síðustu mánuði? Það er spenna í loftinu yfir tilefni næsta viðtals. Ætli það verði þegar hann hefur farið út með ruslið?

þriðjudagur, nóvember 24, 2009

The Beatles -- I've Just Seen a Face

Frá Látrabjargi

Það var flott viðtalið í Kastljósinu í kvöld við Árna Helgason frá Neðri Tungu út í Örlygshöfn. Hann er orðinn 85 eða 86 ára gamall og fór afar vel og skilmerkilega yfir ýmis atriði varðandi björgunarafrekið við Látrabjarg og svo undir Hafnarmúlanum ári síðar. Það komu ýmsir kunnugir fram í myndbrotunum sem sýnd voru undir viðtalinu. Þar má nefna Þórð og Daníel á Látrum, Drésa Karls, Kitta póst og Agnar frá Hænuvík og svo Anna Hafliða, kona Árna. Það getur enginn ímyndað sér sem ekki hefur reynt hvernig aðstæður voru í bjarginu þessa daga, bæði hjá þeim sem sátu á Flaugarnefninu í allt að tvo sólarhringa og eins hjá þeim sem í fjörunni voru í hráslagaveðri í háskammdeginu. Eins og Árni sagði þá var einhver fyrir tilviljum með öxi með sér sem þeir gátu notað við að höggva spor í snarbratt nefið til að hafa sem viðspyrnu þar sem þeir sátu. Það var rétt sem Árni sagði að það var talað afar lítið um þessa atburði í sveitinni og sérstaklega þó strandið undir Hafnarmúlanum. Þvílík framsýni að hafa látið gera myndina sem hefur haldið þessu afreki á lofti síðan. Kvikmyndagerð var ekki alveg það sem menn voru vanir að fást við vestur í Rauðasandshreppi á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Ætli lífið hafi ekki snúist mest um að hafa í sig og á.
Það var frábær mynd frá Tsjúkotka í Rússlandi í sjónvarpinu í kvöld. Ari Trausti og Ragnar Th. fóru þangað fyrr í ár og ferðuðust um. Eins og sannir landkönnuðir þá dókumeteruðu þeir ferðina af snilld. Það var ánægjulegt að sjá að aðkoma Abramovich hefur breytt tilverunni fyrir þetta fólk. Þróuninni hefur verið snúið við á þann hátt að nú flyst fólk þangað og er það breytt frá því sem áður var þegar allir sem vetlingi gátu valdið flúðu burt. Lífið var ekki svona barskt á Kamchatka þar sem ég bjó í tæpt ár en í Ústkamchatk, norðar á skaganum, var staðan ekki ólík því sem lýst var í myndinni. Halli, formaður hópsins okkar á sínum tíma, kom þangað einu sinni. Ástandið var ekki fallegt að hans sögn. Skelfing væri gaman að komast í svona túra með góða myndavél í farangrinum. Maður getur reynt að ímynda sér hvernig það hefur verið fyrir Gúlagfangana að berjast við vegalagningu í fimbulkulda á þessum slóðum. Stór hluti þeirra sem sendur var þarna austur dó úr hryllilegri þrælkun og ömurlegum aðbúnaði. Kuldinn getur farið niður undir -50°. Maður sá það á veðurkortum frá Rússlandi á sínum tíma.
Jói og félagar hans í 2. fl. Víkings urðu Reykjavíkurmeistarar í handbolta í gærkvöldi. Það munaði litlu að þeir misstu titilinn út úr höndunum á sér þegar þeir fóru að spila eins og viðvaningar undir lok leiksins en sem betur fer tókst þeim að hanga á sigrinum. Erfiðleikarnir eru líka til að læra af þeim ef vilji er fyrir hendi.

sunnudagur, nóvember 22, 2009

The Beatles - I'm So Tired

Gamall IH áburðardreifari á Gilsbakka

Það hefur verið mikið rætt um skattamál að undanförnu og ekki að ófyrirsynju. Skattar á stóran hluta launafólks mun hækka veruleg aá næsta ári, bæði hvað varðar álagningu óbeinna og beinna skatta. Það kemur ofan á þá kaupmáttarrýrnum sem hefur átt sér stað hjá almenningi vegna verðhækkana, samdráttar í atvinnu, minni yfirvinnu, atvinnumissis og beinna launalækkana. Það er vitaskuld rétt að sá mikli kaupmáttur sem var til staðar í landinu vegna sterkrar krónu og mikilla umsvifa var á sandi byggður. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að það séu réttar staðreyndir í almennri umræðunni. Stjórnvöld hafa tekið kúrsinn á norrænt skattakerfi að sögn. Það er nú ekki nein aldæla. Stighækkandi skattar voru notaðir af ákefð hér áður fyrr á árunum í Svíþjóð. Þeir voru keyrðir áfram af slíku offorsi að fólk var farið að borga meir í skatta en þeir þénuðu. Þar á meðal var Astrid Lindgren, hinn ástsæli sænski rithöfundur. Hún borgaði um tíma 110% skatt. Gunnar Sträng, þáverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar, sagði að hún gæti alveg borgað svona mikla skatta því hún þénaði svo mikið. Þó að Astrid Lindgren væri mjög félagslega sinnuð þá sárnaði henni þeta rugl og skrifaði fræga grein: "Pomperipossa i Finansministeriet" eða í grófri þýðingu: "Ruglið í fjármálaráðuneytinu". Þessi grein hafði mikil áhrif þar sem Astrid Lindgren var enginn nóboddy í augum sænskra.

Manni hefur skilist af umræðunni að fram til þessa hafi verið flatur skattur hérlendis, hvað sem það nú þýðir. Skatthlutfall af heildarlaunum hefur vitaskuld verið stighækkandi þar sem frítekjumark er það sama á alla einstaklinga, hvort sem um lægri eða hærri laun er um að ræða. Skattleysismörk eru í ár 113.454. Það þýðir að sá sem hefur 134.454 krónur í mánaðarlaun borgar engan skatt. Sá sem hefur 200.000 krónur í mánaðarlaun borgar 37,2% staðgreiðslu til ríkis og sveitarfélaga af 200.000-113.454 eða af 86.456 kr. Það gerir 32.195 krónur í skatt á mánuði eða 16,1% af heildartekjum.
Sá sem hefur 400.000 krónur í mánaðarlaun borgar skatt af 400.000 - 113.454 eða af 286.546 kr. Það gerir 106.595 krónur í skatt á mánuði eða 26,65% skatt af mánaðarlaunum.
Sá sem hefur 600.000 krónur í mánaðarlaun borgar skatt af 600.000 - 113.454 eða af 486.546 kr. Það gerir 180.995 kr eða 30,17% af mánuðarlaunum.
Sá sem hefur 1.000.000 kr í mánaðarlaun greiðir skatt af 1.000.000 - 113.454 eða af 886.546 kr. Það gerir 329.795 kr eða 32,98%. Þannig mætti áfram halda. Þegar félagslegar aðgerðir eru svo tekjutengdar þá magnast áhrifin enn frekar upp.

Nú tók ég ekki í þessum útreikningum tillit til greiðslna í lífeyrissjóð eða annarra frádráttarliða heldur er þetta sett fram á þennan hátt til einföldunar til að sýna fram á að hlutfall skatta af launum er ekki flatt heldur er skatthlutfall af launum hærra hjá þeim sem hafa hærri laun. Það er í sjálfu sér eðlilegur hlutur en þá á að segja hlutina eins og þeir eru. Nú á hins vegar að hækka skatthlutfallið enn frekar upp hjá þeim sem hafa hærri laun, þ.e.a.s. skatthlutfallið verður enn hærra en það hefur verið til þessa. Það eru þó í sjálfu sér ekki mörg ár síðan ég greiddi sértakan hátekjuskatt. Í þessu samhengi er til einhver jafnvægispunktur sem ég ætla ekki að segja til um hvar er. Eftir því sem hann færist neðar eftir launastiganum þá verður það minna efirsóknarvert launalega séð að leggja á sig langt nám og ráðstafa þannig mörgum árum í nám við nauma afkomu. Hvatann til að fá launalega umbun þess erfiðis má ekki taka frá fólki því ef ævitekjur verða jafnvel lægri við langskólanám en án þess þá er tilgangurinn orðinn hæpinn.

Maður heyrir oft í umræðunni að það sé eins og hérlendis hafi frjálshyggjudraugurinn riðið húsum á undanförnum árum og barið fótastokkinn og samfélagið mótast af þvi. Nú má til sanns vegar færa að eitt og annað hafi mátt fara betur en það hafi gert svo ekki sé minnst á sjálft hrunið. Þó er nú ekki eins og samneyslan hafi verið út úr kortinu þegar það er borið við okkar nálægustu lönd. Nýlega var birt skýrsla þess efnis að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé meðal þeirra bestu í víðri veröld. Það er í sjálfu sér alls ekki sjálfsagt að örþjóð á eyju norður í Atlandshafi hafi þá stöðu. Í þessu sambandi stóðum við framar hinum miklu velferðarþjóðfélögum annarsstaðar á Norðurlöndum. Við leggjum mest fjármagn til grunnskólamála á hvern íbúa innan OECD. Vitaskuld er skólakerfið hérlendis dýrt á hvern íbúa vegna smæðar þjóðarinnar en þetta ber þess svo sem ekki vitni að þar hafi verið skorið við nögl. Það er rétt að halda því til haga sem vel hefur verið gert. Nóg er nú samt.

Ég fór 30 km á bretti í World Class í morgun. Það var bara fínt og tíminn leið fljótt. Ég ætla að fara að herða þessa hlið aðeins upp. Það að fara langt á bretti er bara æfing eins og allt annað. Johann Lindwall, svíinn sem ég atti kappi við í 48 tíma hlaupinu sl. vor, fór tæpa 300 km á bretti síðastliðinn vetur á tveimur sólarhringum. Það er sem sagt allt hægt ef viljinn er til staðar.

laugardagur, nóvember 21, 2009

How Do You Do It - The Beatles

María stekkur þrístökk í sumar

Silfurmótið var hjá ÍR í íþróttahöllinni í Laugardalnum í dag. Þetta er fyrsta innanhússmót vetrarins og alltaf gaman að sjá hvernig krakkarnir koma inn í veturinn. María keppti í nokkrum greinum og gekk vel. Hún bætti sig í öllu nema 60 m. grind en hana vann hún engu að síður. Hún náði í fyrsta sinn yfir 10 m. í kúluvarpi en það hefur verið ein slakasta greinin hennar í sjöþrautinni. Hún varð önnur bæði í 60 m. hlaupi og 200 m. hlaupi og svo sigraði hún í þrístökki á nýju íslandsmeti í sínum aldursflokki. Hún tvíbætti reyndar gamla metið. Vinkona hennar var búin að jafna íslandsmetið áður svo þær koma á góðu skriði inn í veturinn.

Í dag náði ég að hlaupa lengra samtals á árinu en ég gerði allt árið í fyrra. Í fyrra hljóp ég rúmlega 4800 km en ef allt gengur upp þá fer ég vel yfir 5000 km í ár. Árið 2007 hljóp ég samtals rétt yfir 3000 km á árinu svo álagið hefur aukist verulega. Engu að síður er þetta miklu léttara en áður. Það þakka ég fyrst og fremst mataræðinu. Vitaskuld byggist upp ákveðin reynsla en sama er. Ég ætla að taka langt hlaup inni á brettinu á morgun. Ég þarf að byggja upp smá reynslu á brettinu fyrir smáverkefni sem stefnt er að í byrjun desember. Meira um það síðar.

Ég sé að það eru fleiri en ég dálítið hissa á þeirri gríðarlegu áherslu sem umsjónarmenn íþróttasíðu Moggans sína þeim íslendingum sem hafa komist á samning hjá misjafnlega góðum fótboltaliðum hér og þar um Evrópu. Skýrt er reglulega frá þrásetu á bekkjum. Ef einhver fer í skoðun þá er það tíundað vel og rækilega. Umboðsmenn strákanna hljóta að hafa ótakmarkaðan aðgang að blaðinu. Á sama tíma er ekki minnst á margt það sem er að gerast hérlendis. Það ætti ekki að vera meira mál að hringja símtal innanlands en út um alla Evrópu. Alla vega kostar það heldur minna.

Nú síðast var okkur skýrt frá því að vonir standa til að Hermann Hreiðarsson komist á leikskrá hjá Portsmouth á næstunni. Mogginn er búinn að standa á öndinni í allt haust út af hermanni. Greint hefur verið í smáatriðum frá hverju einasta skrefi sem hann hefur tekið. Hermann hitt og Hermann þetta. Það eina sem mér finnst áhugavert í þessu sambandi er hvort Hermann Hreiðarsson setur enskt met í vor með því að falla úr úrvaldsdeildinni með fimmta liðinu. Hann er búinn að jafna enska metið með því að falla með fjórum liðum svo nú bíða margir spenntir eftir hvað gerist næst. Þó ekki íþróttasíða Moggans, hún minnist ekki á þetta.

fimmtudagur, nóvember 19, 2009

THE BEATLES - LOVE OF THE LOVED

Foss á Fjarðárheiði

Hroki er alltaf heldur leiðinlegur eiginleiki. Oft brýst hann fram þegar einstaklingar vita sig standa höllum fæti en bregðast við með hroka til að freista þess að slá aðra út af laginu. Óskabarn þjóðarinnar, Eiður Smári, brást við með ótrúlegum hætti þegar blaðamaður einn vogaði sér nýlega að segja að óskabarnið væri áhugalaust, latt og hefði engan áhuga á því að fá boltann. Þetta hafa flestir séð á undanförnum árum sem hafa viljað sjá það. Vitaskuld er alltaf auðveldast að kóa með en stundum verður að segja að kóngurinn sé ekki í neinum fötum (alla vega heldur lélegum). Eiður hefði getað brugðist mannalega við þessari gagnrýni og látið verkin tala. Landsleikur framundan og með góðri framistöðu þar hefði hann slegið allar gagnrýniraddir flatar. "Tölum saman eftir Luxemborgarleikinn" hefði verið flott svar og svo hefðu verkin verið látin tala. Nei, aldeilis ekki. Eiður hreytir skæting í blaðamanninn og segir að hann sé feitur og lélegur fótboltamaður sem aldrei hafi komist í atvinnumennsku og hafi því ekki vit á fótbolta. Svo upplifa menn það að sóknin gegn Luxemborg var hrein hörmung enda þótt Eiður sjálfur væri með í leiknum. Það er oft betra að segja minna og standa við það heldur en að blása sig upp með innistæðulausum orðum. Besti tími Eiðs var með Chelsea þegar hann og Jimmy Floyd sópuðu inn mörkum.

Það eru rúmir tuttugu kappar skráðir í Ironman í Kaupmannahöfn á næsta ári. Þetta er flott. Áhugi fyrir ultragreinum fer sífellt vaxandi og gaman að sjá hvað margir vilja takast á við þessa miklu íþrótt. Skyldi sá dagur renna upp að Ironman verði talin íþrótt hérlendis á við brennibolta og strandblak? Vonandi.

þriðjudagur, nóvember 17, 2009

Every Little Thing - The Beatles

Rós í garðinum

Skelfing finnst mér að útvarpsstjóri Útvarps Sögu hafi skotið sig í löppina þegar hún rak Guðmund Ólafsson hagfræðing frá útvarpinu. Guðmundur hafði verið með nokkra kerskni í spjalli sínu við Sigurð G. og gott ef hann var ekki að lýsa samræðum sínum við gömlu konuna í Keflavík. Þeir fóru nokkrum orðum um hvað siðgæðisverðir í fjölmilum gætu tekið sér fyrir hendur og voru dálítið glorrandalegir við það. Útvarpsstjóri sagði að það hefði nokkrum sinnum verið kvartað út af Guðmundi og nú hefði mælirinn verið fullur. Um þetta er ýmislegt að segja. Vafalaust hefur verið kvartað undan Guðmundi því bæði er hann mjög fróður og einnig naskur á að draga fram aðalatriðin úr umræðunni. Það hefur því oft bitið undan honum að ég tali nú ekki um þegar sú gamla í Keflavík hefur verið með í spilinu. Í annan stað hefur mér nú ekki funist það vera talað það mikið guðsbarnamál yfir höfuð á Útvarpi Sögu að það hafi tekið því að taka Guðmund út fyrir sviga. Í þriðja lagi er ég ekki búinn að gleyma því þegar Útvarp Saga gekk vasklega fram í því að rýja Jónínu Benediktsdóttur ærunni. Ég gat ekki hlustað ástöðina í ein tvö ár vegna sóðaskaparins. Það var á þeim árum sem Jónína var að skrifa um öll krosseignatengslin og baktjaldasukkið í íslensku fjármálalífi. Þetta fór illa í ýmsa og Útvarp Saga var notuð dyggilega við að níða niður af henni skóinn. Síðan hefur komið í ljós að efnislega hefur allt staðist sem Jónína var að fjalla um og hún stendur sterkari eftir. Það ætti sem sagt enginn að kasta grjóti sem í glerhúsi býr.

Nú ætlar ríkisstjórin að hætta að leggja fjármagn í að halda tófustofninum í skefjum. Ég efa ekki að ýmsum þeim sem hafa gengið um Hornstrandir finnst mjög sætt að hafa tófuna að flækjast við tærnar á sér og finnst alveg fráleitt að vera að skjóta þetta fallega dýr. Þegar þrjú ráðuneyti eru farin að vinna með útigangsféð í Tálknanum, ríkisstjórnin tekur það sérstaklega fyrir á fundi og það er til umræðu á Alþingi, þá getur maður alveg búist við að tófan verði alfriðuð. Það er mikið rétt að skaði í sauðfé af völdum tófu hefur minnkað mikið eftir að sauðfé er farið að vera meira inni, það er hýst fyrr á haustin og sleppt síðar á vorin. Það er hins vegar fuglalífið sem er ber4skjaldað fyrir þeirri gríðarlegu fjölgun tófunnar sem mun verða ef hætt verður að vinna greni og halda stofninum þannig í skefjum. Það er enginn að tala um að útrýma tófunni og hefur aldrei verið gert. Það verður hins vegar að halda stofninum í skefjum eins og hjá öðrum rándýrum sem hafa afar mikla viðkomu. Fjölgun tófunnar myndi verða í veldisskala. Hvert par eignast þrjá til fjóra hvolpa. Tófan eignast afkvæmi ársgömul. Því geta menn reiknað sjálfir hvernig þróunin yrði ef henni væri ekki fækkað skipulega. Mófuglar sjást ekki lengur á Hornströndum. Tófan hefur eytt bjargfugli í þeim svæðum bjarganna sem hún getur farið um án vandræða. Þessi hluti bjarganna er jafnvel ónýtur til frambúðar því fuglinn verpir ekkki þar sem grasvöxtur er mikill. Stofninum fjölgar eftir þvi sem fæðan nægir. Þá fara dýrin að leita út af svæðinu. Tófur hafa flætt frá Hornströndum suður um alla Vestfirði þegar þær komast ekki lengur fyrir á Hornstrandasvæðinu sökum fæðuskorts. Það sér t.d. stórlega á rjúpnastofninum fyrir vestan eftir að þessi vanhugsaða ákvörðun var tekin á sínum tíma í tíð Össurar Skarphéðinssonar umhverfisráðherra. Ég held að það megi finna aðrar matarholur til að draga úr ríkisútgjöldum frekar en að friða tófuna. Alla vega myndi ég treysta mér vel til þess. Ég þekki það vel til tófunnar að ég þarf ekki að láta segja mér neitt í þessum efnum.

Ég fór í fyrsta sinn í World Class í dag í fjórtán mánuði. Tók 10 km á bretti. Fór frekar varlega því það er dálítið öðruvísi að hlaupa á bretti en úti. Eyk hraðann smám saman næstu vikur og tek einnig löng hlaup á brettinu. Það er smá verkefni í undirbúningi í samvinnu við Björn í World Class. Það kemur betur í ljós í byrjun næsta mánuðar.

sunnudagur, nóvember 15, 2009

The Beatles - Hello Goodbye

Flórgoði við hreiður

Það var haldinn Þjóðfundur í gær. Þetta var svolítið sérstök samkoma. Nokkuð stór hópur fólks var kallaður saman og fékk það verkefni að móta nýja sýn til framtíðar eftir því sem manni skildist. Það hefur töluvert verið látið með þennan fund eins og hann komi til með að marka einhver tímamót í sögu þjóðarinnar. Heiðarleiki var nefndur einna oftast sem sá eiginleiki sem ætti að vera í forgrunni. Hvað gera svo fulltrúar þeirra 300 félagasamtaka sem voru kallaðir til fundarins. Koma þeir nú til síns heima eins og iðrandi syndarar og segja: "Sjá, mér hefur opnast ný sýn. Nú verðum við að vera heiðarleg og hætta að svindla." Þýðir það þá að allir (flestir) hafi verið óheiðarlegir fram til þessa. Það held ég ekki. Ég held að allur þorri fólks sé heiðarlegur í eðli sínu. Svona fundir breyta akkúrat engu hvað lífsviðhorf þessa fólks varðar. Það verður bara eins og það hefur alltaf verið. Síðan eru aðrir sem reiða heiðarleikann kannski ekki í þverbandspokum. Ég hef enga trú á að svona fundur breyti neinu fyrir þann hluta heldur. Hvert er þá markmiðið? Skapa umræðu. Gott og blessað. Gefa mönnum kost á að koma sama og ræða málin. Fínt. Maður sá í Silfri Egils að Menntamál, Atvinnulíf og Umhverfismál voru dregin sterkt fram en Jafnrétti og Lýðræði höfðu lágan prófíl. Ég hef þá trú að það sé erfitt fyrir marga að kyngja þessari áhersluröð. Hvað þýðir þetta? Á að setja jafnréttismálin í neðstu skúffuna? Hvað segir jafnréttisiðnaðurinn við slíku?

Ég átti leið fram hjá Laugardalshöllinni í gær þegar þjóðfundurinn var haldinn. Fullt af bílum var lagt snyrtilega upp á grasið til hliðar við götuna að höllinni og voru þar ekki fyrir neinum. Lögreglan var mætt og byrjuð að skrifa miður skemmtileg skilaboð. Ég spjallaði við lögregluþjóninns em var þar að verki. Hann sagði að það hefðu margir kvartað yfir bílum sem lagt væri upp á grasið. Líklega eru þar grasverndarmenn að verki. Vitaskuld sá ég einnig bíla sem lagt var mjög bjálfalega og engin ástæða til annars en að sekta. Merkilegt hvað löggan er fljót til með sektarmiðana við íþróttamannvirki. Ætli það sé vegna þess hver afköstin eru mikil? Þeir ættu t.d. að leggja leið sína af og til út á Reykjavíkurflugvöll þar sem bílum er lagt vel og vandlega við merki þar sem stendur skýrum stöfum "Bannað að leggja ökutæki".
Svo allrar sanngirni sé gætt þá skal þess getið að því sem næst öll bílastæðin fyrir framan stúkuna á Laugardalsvellinum voru tóm í gær.

Mér finnst umfjöllun fjölmiðla um störf barnaverndarnefnda að undanförnu vera ömurleg. Það er voðalega auðvelt að hafa uppi stór orð um störf aðila sem hefur enga möguleika á að segja eitt einasta orð um málið. Störf barnaverndarnefnda eru vafalaust með þeim erfiðustu í stjórnsýslunni. Fagmennska hefur vaxið verulega frá því umdæmin voru gerð stærri og aðgengi að sérfræðiþekkingu batnaði. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að barn vilji ekki fara frá heimili sínu þrátt fyrir allavega aðstæður. Það er sú fótfesta í lífinu sem það þekkir best, jafnvel þótt hún sé ekki beysin. Meir að segja ríkissjónvarpið tekur þátt í leiknum samkvæmt dagskrárauglýsingum fyrir kvöldið. Sú var tíðin að sumir fjölmiðlar höfðu ákveðna síu á því hvað þeir tóku til umfjöllunar. Það virðist vera liðin tíð. Við hverju er svo sem að búast af fjölmiðli sem brýtur landslög ítrekað með áfengisauglýsingum en skýlir sér bak við örlitla stafi sem eru vart læsilegir en eiga að þýða "Léttöl".

Við Jói og Gauti hittumst við brúna yfir Kringlumýrarbrautina í gær úm kl. 8:00 og tókum góðan hring. Ég fór út upp úr 6:30 og fór Poweratehringinn áður. Við hlupum svo út á Eiðistorg, inn í Laugar og svo heim. Logn og besta veður. Í morgun var hins vegar orðið hvasst og kallt. Ég fór út kl. 7:00 og hljóp vestur á Eiðistorg, inn í Laugar og síðan aftur til baka. Til að ná yfir 100 km í vikunni fór ég hring í Elliðaárdalshólmanum. Þetta er allt eins og á að vera.

föstudagur, nóvember 13, 2009

The Beatles - With a little help from my friends

Við Hallgrímur með Eddu

Við Hallgrímur Sveinsson, bókaútgefandi, fórum upp á Grensás um hádegið í dag og hittum Eddu Heiðrúnu baráttujaxl. Okkur langaði til að afhenda henni nokkrar bækur í tengslum við að hluti af söluverði bókarinnar "Að sigra sjálfan sig" rennur til Grensássamtakanna. Edda tók vel á móti okkur eins og hennar er von og vísa. Það er alltaf gaman að hitta hana og fá að kynnast því hvað hún er að fást við. Hún situr aldrei auðum höndum. Nú er hún nýlega komin inn í erlendan listaskóla fyrir fólk sem málar myndir með munninum. Listamaðurinn heldur á penslinum í munnunum og málar myndirnar þannig. Ég hef séð nokkrar slíkar myndir eftir hana. Edda er fyrsti íslendingurinn sem kemst inn í þessan skóla. Ég minnist þess að ég sá sýningu á myndum eftir Ólöfu Pétursdóttur sem málaði listafínar myndir með pensli í munninum. Hún lést á síðasta ári. Ég man einnig eftir Játvarði Jökli í Reykhólasveitinni sem skrifaði ófáar bækur á þennan hátt. Hetjurnar eru víða.
Edda sagði okkur að síðar í dag færi hún suður í álver í Hafnarfirði að taka á móti peningum sem hlaupahópur starfsmanna álversins hefur safnað í Grensásssöfnunina. Hún sagði að nokkrir hlaupahópar hefðu lagt fram álíka framlög. Það er ánægjulegt að vita til þess að fólk sýnir þessu málefni góðan stuðning í verki því það veit enginn hver er næstur til að þurfa á þjónustu Grensássdeildarinnar að halda.

Hún sagði okkur einnig að nýlega hefðu vinir hennar og kunningjar myndað nokkursskonar "hjálparsveit" til að gera henni betur kleyft að halda heimili og lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt er. Það eru ótal lítil viðvik sem þarf að gera á hhverju heimili sem ófatlað fólk veltir kannski ekki fyrir sér frá degi til dags. Það þarf að fara út með ruslið, baka köku, þvo bílinn o.s.frv. o.s.frv. Vinir hennar skiptast á við að kíkja við hjá henni eftir ákveðnu kerfi og gera sín ákveðnu verk. Það sem liggur henni þyngst á hjarta nú er að fá lestrarvél. Þá er bók sett í sérstakt statíf með ljósum og ákveðnum tækjum. Þá getur hún flett bókinni fram og aftur og grúskað. Hún segir að bókalestur sé sér afar nauðsynlegur eins og maður getur ímyndað sér.

Þáttaserían sem sjónvarpið er nýbúið að taka upp og var kynnt sérstaklega með því fororði að hún hefði verið tekin upp að viðstöddum áheyrendum er afar léleg að mínu mati. Það má vel vera að það hafi setið eitthvað fólk og horft á þegar upptökur fóru fram en það hefur þá líka verið á staðnum maður með spjald sem stóð á "Hlæið". Hann hefur svo brugðið spjaldinu upp af og til því ég get varla ímyndað mér að nær því samfelldur hlátur áhorfenda sé náttúrulegur. Einnig er vitaskuld hægt að fá aðkeyptan hlátur. Það er ekki síður líklegt að málið hafi verið leyst þannig. Þessi þáttaröð er þýdd og staðfærð eftir einhverjum seríum sem eiga það sameiginlegt að vera hallar undir Simpson syndromið. Karlar eru feitir, latir og heimskir.

miðvikudagur, nóvember 11, 2009

The Bealtes - I'm So Tired

Marsmaraþon 2007. Skömmu síðar gerði byl.

Ég fór upp í Odda eftir vinnu í dag. Ég var svolítið stressaður enda tilefnið erindið ekki alveg það sem maður gerir á hverjum degi. Ég var að sækja fyrstu eintökin af dálítilli bók sem ég gekk frá í sumar og haust og var að koma úr prentun. Í henni rek ég þróunina frá því við Jói litli tókum alveg óvænt þátt í skemmtiskokkinu forðum daga yfir í það þegar ég lýk Spartathlonhlaupinu í fyrrahaust og snerti styttu Leonidasar í Spörtu með fullum sóma. Á milli þessara tveggja atburða eru ansi mörg skref en hvert og eitt þeirra var þess virði að taka það. Bókin heitir "Að sigra sjálfan sig". Mér finnst titillinn lýsa nokkuð vel því sem hefur gerst á liðnum árum. Ég hef verið svo fyrirhyggjusamur gegnum tíðina að hafa myndavél með mér á mörgum góðum stundum í gegnum árin. Myndir gera manni auðveldara með að rifja upp stundir sem eru þess virði að halda til haga. Það var því til nóg af myndum sem bæði ég og aðrir hafa tekið á góðum augnablikum sem lífga vel upp á textann. Ég vildi ná verðinu niður eins og hægt væri og því er bókin í kiljuformi og myndirnar svarthvítar. Mér finnst nokkuð um vert að hafa svona samantekt á viðráðanlegu verði. Þá eru meiri líkur til að einhver glæpist á að kaupa hana en ef mikið er lagt í umbúðirnar sem bæta í raun afskaplega litlu við innihaldið en þýða aukinn kostnað. Bókin er gefin út af Vestfirska forlaginu sem Hallgrímur Sveinsson, fyrrum staðarhaldari á Hrafnseyri í Arnarfirði, rekur af miklum myndarskap vestur á Þingeyri. Það kom aldrei annað til greina en að hafa fyrst samband við hann þegar ég kannaði hvort eitthvað vit væri í þessari hugmynd sem hafði verið að gerjast með mér um tíma. Hallgrímur hefur gefið út bækur sem tengjast Vestfjörðum á einn eða annan hátt sl. 14 ár. Hann stakk síðan upp á því að láta 300 krónur af hverju seldu eintaki renna til Grensásssöfnunarinnar. Þetta var frábær hugmynd sem var vitaskuld samþykkt um leið. Við Hallgrímur ætlum að hitta Eddu Heiðrúnu uppi á Grensásdeild á föstudaginn kl. 13:00 og afhendum henni þar fyrsta eintakið sem fer formlega í umferð.

"Að sigra sjálfan sig" verður svo náttúrulega til sölu í öllum betri bókaverslunum landsins!!!!

Birgir Sævarsson stórhlaupari hringdi í mig fyrir skömmu. Hann flutti þau tíðindi að Asics umboðið væri að safna saman hópi hlaupara sem er boðið að mynda svokallaðan Asics hóp. Umboðið mun leggja okkur til skó, hlaupaföt, boli og húfur og þar á móti verðum við til taks til kynningar á vörum fyrirtækisins. Ég sagði Birgi að þetta gæti ég gert með góðri samvisku því Asics skórnir hafa reynst mér best af öllum skóm sem ég hef notað í löngum hlaupum. Skór henta fótum misvel. Hlutverk skónna er að vernda fæturna svo það skiptir ekki litlu máli að vera sáttur við þá þegar langar leiðir eru lagðar undir sóla. Ég er með Asics fætur.

sunnudagur, nóvember 08, 2009

THE BEATLES - WHEN I GET HOME

Straumandarbliki

Ég heyrði viðtal við formann fasteignasala í útvarpinu í dag. Formanninum þótti spár um þróun fasteignaverðs vera uppvænlegar og taldi einboðið að Seðlabankinn vissi eitthvað annað en almenningur hvað þessi mál varðaði. Mér finnst það nú liggja alveg í augum uppi að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu muni lækka enn frekar á komandi mánuðum og misserum. Það liggur í fyrsta lagi fyrir að það standa auðar einhverjar þúsundir íbúða sem eru á öllum byggingarstigum. Fullbúnar eða hálfkaraðar. Halda menn virkilega að þetta hafi engin áhrif á markaðinn? Í öðru lagi er spáð 16% lækkun kaupmáttar á næsta ári? Halda menn virkilega að þetta hafi engin áhrif á fasteignamarkaðinn? Það sem er verst í þessu öllu saman er hinn gríðarlegi fjöldi tómra íbúða sem mun draga tennurnar úr byggingariðnaðinum á komandi árum. Offjárfestingin er svo svakaleg. Menn hefðu betur hugsað um þessi mál í samhengi fyrir tveim - þremur árum eða svo. Fasteignaverð getur þróast öðruvísi út á landsbyggðinni ef þar verður næga atvinnu að fá. Víða er fasteignaverð þar mjög lágt en það getur breyst ef eftirspurn eftir húsnæði eykst í samræmi við næga atvinnu.

ManU. tapaði öðrum stórleiknum í röð. Nú var það Chelsea sem lagði kappa Fergusons. Það var sama uppi á teningnum og í Liverpoolleiknum að margir dómar voru undarlegir. Rooney dæmdur ranglega rangstæður í dauðafæri. Drobga rangstæður þegar Chelsea skoraði. Tveir Chelsea menn skella saman og liggja eftir. Félagar þeirra storma í sókn en þegar ManU. hafa brotið hana á bak aftur og sækja þá er leikurinn fyrst stöðvaður. Drobga fær gult spjald á furðulegan hátt. Auðvitað geta dómarar gert mistök eins og aðrir. Það er hins vegar pirrandi þegar dómar hafa mikil áhrif á gang svona stórra leikja.

Það var flott veður í morgun þegar ég fór út um sex leytið. Logn og smá stirningur. Ég lauk 34 km en var frekar þungur. Ég stefni að því að losa 100 km á viku það sem eftir er af árinu. Þá verður maður fínn með nýju ári.

laugardagur, nóvember 07, 2009

There's a Place - Lennon/McCartney

Húsandarhjón á Mývatni

Ég hlusta ekki mjög mikið á útvarpið en vissulega gerir maður það þó alltaf af og til. Helst er það þó á morgnana áður en maður fer í vinnuna. Mikið ósköp leiðist mér þetta innihaldslausa blaður sem tröllríður of mörgum stöðvum. Það er eins og að anda að sér súrefni að hlusta á normalt talað mál. Það liggur við að það sé frískandi að hlusta á veðurfregnirnar miðað við blaðrið.

Ég heyrði hluta af morgunþættinum á rás 1 í ríkisútvarpinu í morgun. Þar var meðal annars sagt að það þyrfti að vernda minnihlutann og tryggja rétt hans í þinginu sem og annarsstaðar. það er mikið rétt. Vitaskuld hefur meirihlutinn alltaf ákveðin völd en öll fundarsköp og lýðræðislegar reglur eru til þess að tryggja rétt minnihlutans. Meirihlutinn, hver sem hann er, sér yfirleitt um sig. Í þættinum var sagt að það væri miklu ríkari hefð fyrir minnihlutastjórnum á öðrum norðurlandanna en hérlendis og mér skildist að það væri merki um að þær þjóðir væru komnar lengra á hinni pólitísku þroskabraut. Skoðum þetta nú aðeins. Í Danmörku var minnihlutastjórn við völd í áraraðir og oftast undir forystu sósíaldemókrata. Hvers vegna skyldi það nú vera? Árið 1979 náði Fremskridspartiet undir forystu Glistrups kjöri á þing og fékk mikinn fjölda þingmanna. Enginn vildi vinna með þeim og þeir líklega ekki með neinum. Þess vegna gat Anker Jörgensen mindað minnihlutastjórn því Glistrup og hans menn náðu ekki saman við aðra hægri flokka. Sama staða var í Svíþjóð. Þar ríktu kratarnir í áraraðir með stuðningi kommúnistanna. Þeir vildu ekki fara í ríkisstjórn þvi það var þægilegra að vera utan stjórnar og gagnrýna en haft engu að síður einhver áhrif á stjórnarstefnuna. Af tvennu illu töldu þeir þó betra að hafa kratana við völd heldur en hægri menn. Svipuð staða er í Noregi og í Danmörku. Stefna Framfaraflokksins hefur verið þannig að aðrir hægri flokkar vildu lengi vel ekki vinna með honum. Því gátu minnihlutastjórnir starfað. Fjöldi minnihlutastjórna er því afsprengi stöðunnar en ekki dæmi um pólitískan þroska.

Í sama þætti var einnig sagt að einstaklingarnir (almenningur) ættu ríkið og ríkiseignir (að því mig minnir). Það er rangt að mínu mati. Það er samfélagið sem á ríkið og rikiseignir. Samfélag lifir lengur en sérhver einstaklingur. Samfélagið hefur verið byggt upp af hverri kynslóð á fætur annarri. Sérhverri kynslóð ber skylda til að skila ekki síðra búi til næsta kyndilbera heldur en því sem hann tók við. Þeir einstaklingar sem mynda samfélagið hverju sinni hafa því ekkert leyfi til að líta á ríkiseignir sem sína persónulegu eign því þær eru eign samfélagsins.

Það er ekki oft sem ég er sammála feministafélaginu. Eiginlega aldrei. Þó ber svo við að nú er ég dálítið sammála þeim. Þær voru að fordæma ráp fjármálastjóra KSÍ um rauðu hverfin í Zurich sem endaði á annan hátt en ætlað var (skyldi maður vona). Ég þarf ekki að velta því mikið fyrir mér að maður hefði ósköp einfaldlega ekkert verið að hafa fyrir því að mæta í vinnuna aftur ef kort vinnuveitendans sem maður hefði borið ábyrgð á hefði verið straujað á viðlíka hátt og fréttir herma að hafi gerst í þessari reisu. Það vita allir sem vilja vita að kampavínsflöskur á strippbúllum eru vægt sagt fokdýrar. Það er því ekkert einhver skyndileg ógæfa að lenda í svona máli heldur eitthvað allt annað.

Ég er að velta fyrir mér hvers vegna er verið að banna vændi með lögum? Hverjum kemur það við ef ég myndi auglýsa klukkutímann á tuttuguþúsund kall eins og taxtinn virtist vera hjá konunni sem rætt var við í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ég á hins vegar ekki von á því að það yrði mikill business en sama er, hvers vegna ætti að einhver að banna mér þetta. Mannsal er allt annað. Vitakuld á að tryggja það með lögum eins og fært er að einstaklingur sé ekki neyddur til að stunda vændi eða önnur störf þvert á móti vilja sínum. Það er bara allt annar hlutur. Ég sé í sænskum blöðum að það er síður en svo eining þar í landi um sænsku aðferðina sem felst í að banna vændi. Það er alveg eins hægt að banna fátækt og berja sér svo á brjóst. Það voru sænskir móralistar sem börðu þetta í gegn til að geta hreykt sér hátt á alþjóðlega vísu og sagt: "Vi er bäst í världen" Moralistarnir höfðu hins vegar engan áhuga á að aðstoða þá einstaklinga sem voru í götuvændinu í Svíþjóð segir sænsk pressa. Þetta heitir "Dubbelmoral".

Bandarísk pressa er ekki meðvituð:

"Icelandic detainee escapes in downtown Plattsburgh"

Gott hlaup í morgun. Fór út um 6:30 og tók fyrst Poweratehringinn. Hitti svo Jóa við brúna og við tókum hringinn vestur í bæ og svo til baka gegnum Laugar. Alls lágu 34 km. Fínt veður,logn og bjart þegar fór að birta.

Flott gert hjá Daníel Smára að veita smá verðlaun til þeirra sem eru að standa sig vel í almenningsíþróttunum. Steinn er verðugur kappi að taka á móti fyrstu viðurkenningunni.

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

I Don't Want To Spoil The Party - The Beatles

Hvítárnes

Þegar ég kom til Moskvu í byrjun tíunda áratugarins þá voru vestræn áhrif að ryðja sér til rúms í borinni. Heimamenn tóku þeim fagnandi eftir að hafa heyrt af dásemdum Vesturlandanna í áratugi án þess að geta sannreynt þær. Á þessum tíma var búið að opna fyrsta Mac Donalds staðinn í Moskcu. Það þóttu mikil firn. Á tímabili gátu ekki gert kærustunni hærra udnir höfði en að fara meða hana á Mac Donalds. verst var að röðin var sjaldan styttri en kílómeter svo þetta var fyrst og fremst spurnig um að bíða í röðinni fyrir utan Mac Donalds. Röðin þótti svo sérstök að gestum var gjarna sýnd hún og svo var um mig. Röðin hlykkjaðist um götur og torg út frá hamborgarastaðnum. Þetta þótti afar sérstakt. Á dögunum hvarf Mac Donalds frá Íslandi. Þá snerist Rússneska Mac Donalds syndromið upp í andhverfu sína. Fólk beið í löngum röðum efrir að geta keypt sér Mac Donalds borgara og notið þannig vestrænna mennignarstrauma í síðasta sinn áður en þeir hurfu af landi brott. Um þennan viðburð var skrifað í öllum virtustu blöðum heimsins (að því manni var sagt) og þarna var því skráð blað í mannkynssöguna. Land varð Mac Donalds laust. Munu menn lifa þetta af? Fjölmiðlar fimbulfömbuðu um þessi tíðindi fram og aftur og birt voru viðtöl við gleiðbrosandi veitingamann sem fékk verðmætar auglýingar alveg ókeypis. Útnesjamennskan í kringum þetta dæmi allt saman var dálítið mikil en borgarasalinn er kátur.

Stefán lögreglustjóri gaf smá leiðbeiningar í meðferð erlendra glæpamanna í morgun. Íslenska stjórnkerfið hefur að hans mati alla möguleika sem til þarf til að taka á þessu liði með þeim hönskum sem þeir eiga skilið. Reka þá skilyrðislaust úr landi ef þeir sýna einbeittan brotavilja. Fyrir slíkum aðgerðum eru næg fordæmi í nágrannalöndum okkar. Ég vona bara að Útlendingastofnun sé ekki svo skelkuð út í meðvitaða liðið að hún þori ekki að gera það sem hún má og getur í þessum málum.

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Every Little Thing - The Beatles

Beinhóll á Kjalvegi

Vorið 1970 komu tveir bræður í sumardvöl vestur að Móbergi, þeir Guðni og Gestur. Þeir voru þá 12 og 13 ára gamlir. Þeim var komið vestur af barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna einhverra aðstæðna sem ég þekki ekki og skipta svo sem ekki máli. Þeir voru hjá okkur í tvö sumur og Gestur hálfum vetri betur. Þetta voru ágætir strákar, góðir á heimili og hjálpuðu til eftir megni enda þótt þeim hafi kannski ekki alltaf þótt gaman að tína grjót úr flögum eða raka dreifar. Það er nú bara eins og gengur og manni þótti það svo sem ekki alltaf voða skemmtilegt sjálfum á þessum aldri. Eitthvað hafði Gestur svo skrensað eftir að hann kom suður eftir seinna sumarið því eftir áramót er hann sendur að Breiðavík. Maður hafði heyrt það á þeim bræðrum að lægra væri ekki komist í mannfélagsstiganum en að lenda í Breiðavík. Þann stað bæði óttuðust þeir og hötuðu eftir frásögnum stráka sem þeir þekktu. Gestur hafði haft á orði að hann myndi strjúka undireins ef hann yrði sendur þangað. Hann stóð við það því hálfum mánuði eftir að hann var kominn þangað strauk hann með öðrum strák. Það þykir nú ekki aldæla að leggja á fjöllin upp af Breiðavík í febrúar fyrir fullorðið fólk hvað þá ókunnuga og óharnaða unglinga. Þeir voru í sjálfu sér heppnir að þeir fundust undir myrkur og munaði kannski ekki miklu að illa færi. Mamma tók ekki í mál að hann færi að Breiðavík aftur og því var hann heima fram á vorið. Það fylgdi eitthvað bréf honum frá yfirvöldum syðra og mamma sagðist hafa brennt það þegar hún var búin að lesa það því hún vildi ekki að önnur eins lesning og var í bréfinu um strákangann kæmist í umferð. Hún kannaðist ekki við eitt einasta orð af þeirri lýsingu sem var skrifuð um hann þar. Henni þótti alltaf sérstaklega vænt um Gest eftir þennan vetur. Hann var alltaf kátur og ánægður, hjálpaði til eftir megni og var þægilegur á heimilinu þótt tilbreytingin væri kannski ekki mikil um háveturinn. Hann fór suður um páskana og lofaði að koma aftur eftir viku sem hann stóð vitaskuld við. Um vorið fór hann síðan suður og fór að vinna sem messagutti á varðskipi, fjórtán ára gamall. Síðan varð sjómennskan atvinna hans þar til hann slasaðist það illa á sjónum rúmlega þrítugur að hann varð öryrki upp frá því. Lítið atvik frá þessum árum sýnir manni að það þarf kannski ekki alltaf mikið til að það skilji eftir sig spor sem ekki fyrnast. Seinna sumarið í ágústmánuði var slæm flensa heima og lágu allir rúmfastir á heimilinu nema við Gestur. Við fórum að eiga við hey eins og gengur einn daginn og Gestur hjálpaði mér eftir megni. Við vorum hvort eð er þeir einu sem vorum uppistandandi. Mig minnir að Gestur hafi fengið að keyra traktorinn og eitthvað svoleiðis sem ungum strákum þykir töluverð upphefð í. Þegar við komum heim þá hrósaði ég Gesti kallinum fyrir dugnað og sagði eitthvað sem svo að það væri enginn einn sem hefði Gest með sér. Þetta var svo sem ekki merkilegt en þessu gleymdi hann aldrei. Þarna fékk hann kannske á tilfinninguna að hann skipti einhverju máli og það hafði kannske ekki oft verið sagt við hann fram að þessu. Þegar hann talaði við mömmu einhverjum tuttuguogfimm árum síðar þá minntist hann á þetta litla atvik sem hann sagðist aldrei gleyma. Ég var auðvitað fyrir löngu búinn að gleyma þessu en þetta rifjaðist vitaskuld upp þegar á það var minnst. Gestur var jarðsunginn í dag frá Fossvogskirkju, 51 árs gamall. Hann lést á líknardeild Landspítalans fyrir skömmu. Það er eins og Forrest Gump sagði, maður veit aldrei hvaða konfektmola maður fær úr kassanum.

Það kom í ljós að það þýddi ekki annað en að hafa hraðar hendur við að skrá sig í Comrades hlaupið. Þau 5000 pláss sem voru laus fyrir þá sem ekki hafa hlaupið þetta hlaup áður fylltust á 27 klst. Alls eru því 20.000 hlauparar skráðir til leiks í þetta langfjölmennasta ultrahlaup í heimi. Þótt einhverjir forfallist þá verða ekki teknir aðrir í þeirra stað. Þetta er náttúrulega dálítið mál en sama er, það verður alltaf að hafa einhver markmið. Síðan er bara spurnig hvernig þeim verður náð.

Ég var á smá fundi niður í FRÍ í dag. Þar á bæ er kominn mikill áhugi og vilji til að fara að tengja sambandið betur almenningshlaupum og leggjua sitt af mörkum við að hafa utanumhaldið og regluverkið skipulegra. FRÍ er orðinn aðili að IAU (International Association of Ultrarunners) og einnig að alþjóðasamtökum götuhlaupara. Þróunin er þannig í götuhlaupum, utanvegahlaupum og ultrahlaupum að þarna er kannske mesta gerjunin sem stendur. Afstaða RÚV til almenningshlaupa og frjálsíþrótta barst í tal og það eru ekki uppbyggilegt sem maður heyrir um þau mál.