miðvikudagur, mars 30, 2005

Stutt var farið í kvöld. Fór þó fyrst á leik Víkings og FH í Krikanum. Víkingur tapaði með fjórum mörkum með aðstoð dómaranna (þetta segi ég ekki oft). Þegar heim var komið fór ég að ganga frá skattframtölunum þannig að það voru ákveðin atriði í forgangi í kvöld önnur en langhlaup.

Fréttir í kvöld komu inn á að andúð ungmenna á innflytjendum hefði aukist frá því að slík könnun var síðast gerð. Félagsfræðiliðinu kom þetta á óvart eftir því sem sagði í fréttunum en nú þyrfti eitthvað að fara að gera. Fræðsla skyldi það vera og byrja í leikskólanum. Umræðan hefur að mínu mati verið afar sjálfhverf fram til þessa og fjallað fyrst og fremst um fjölmenningarsamfélag, taka vel á móti innflytjendum og vera kurteis og þolimóð við nýbúa. Ég sé ekki annað en að þróunin hérlendis sé á góðri leið með að feta í kjölfar þess sem hún hefur verið á öðrum norðurlöndum. Þó má segja að við erum þó betur staddir en nágrannalöndin vegna þess að stærstur hluti innflytjenda hérlendis er vinnandi fólk. Því er töluvert á annan veg farið sérstaklega í Svíþjóð og Danmörku. Í þessari umræðu hefur alveg gleymst að ræða nema eina hlið málsins, þ.e. sem snýr að heimamönnum. Það er talað um að þeir sem fyrir eru í landinu eigi að sýna kurteisi og skilning. Að mínu mati má ekki gleyma því að það þarf einnig að gera kröfur til þess fólks sem flytur til nýs lands. Ég þekki nokkuð vel til í Skandinavíu og veit að fjöldi innflytjenda foraktar og fyrirlítur það þjóðfélag sem það býr í, en býr þar samt sem áður og notar sér allt það í samfélaginu sem hægt er að hafa gagn af.

Ég heyrði nýlega að það væri hætt að hafa svínakjöt í hádegismat Austurbæjarskólanum. Þetta líkar mér illa. Það er orðið alvanalegt í Danmörku að svínakjöt er ekki framreitt í mötuneytum þar í landi en svínakjöt var um áratugi ein af aðalútflutningsvörum dana. Þetta er dæmi um þróun sem er kjörin til að espa upp andúð heimafólks á innflytjendum. Þeir sem fyrir eru í landinu eiga ekki að þurfa að beygja sig í duftið og breyta siðum sínum og venjum til að þóknast þeim sem flytja til landsins. Það er þeirra sem eru að flytja til nýrra landa að aðlaga sig að venjum og siðum móttökulands, læra mál þess og gera hvað hægt er til að falla inn í samfélagið. Það þýðir ekki að gera kröfur bara á annan veginn.

Engin ummæli: