laugardagur, desember 31, 2005

Nú er runninn upp síðasti dagur ársins. Myrkur úti en það er þó alltaf góð tilfinning að vita af því að dag er heldur tekið að lengja. Þetta hefur verið gott ár, eins og reyndar öll árin sem liðin eru. Meðan krakkarnir standa sig vel og eru heilbrigð og maður heldur sjálfur góðri heilsu þá er nú flest í lagi. Afstaða manns sjálfs skiptir miklu máli um andlega og líkamlega vellíðan. Ef maður væri sífellt að velta fyrir sér að einhver annar ætti betri bíl, hefði hærri laun, ætti meiri pening og ég veit ekki hvað og þessi munur væri dæmi um óréttlæti þjóðfélagsins þá væri býsna dimmt fyrir augum flesta daga ársins. Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum og ekki seinna vænna að það það er undir því komið hvað maður gerir sjálfur hver staða manns í lífinu er og það er hver sinnar gæfu smiður. Ég gleymi því ekki að slys eða veikindi geta hent hver sem er og ekki skal gert lítið úr afleiðingum þeirra en að öðru leyti ræður maður sínum næturstað nokkuð sjálfur. Það er nefnilega einn af stóru kostunum við að búa í þjóðfélagi eins og er hérlendis. Einstaklingurinn hefur óendanleg tækifæri bara ef hann vill og nennir að nýta sér þau.

Ég horfði aðeins á svokallaða álitsgjafa í sjónvarpinu í gærkvöldi í Kastljósinu. Það setur að manni hroll þegar maður heyrir sumt fólk fjasa um hvað allt sé ömurlegt í þjóðfélaginu, misskiptingin mikil, stjórnvöld ömurleg, óréttlæti í hverju horni o.s.frv. o.s.frv. Árið sem er að líða hefur verið frábært fyrir land og þjóð á flestan hátt. Það má ekki gleymnast að það er einungis 300 þúsunda manna hópur sem býr hér úti í Atlandshafinu. Lífskjör eru góð, atvinna mikil, menntunarstig hátt, heilbrigði mikið og gríðarlega margt færist til betri vegar þó mörgu sé ólokið eins og gengur. Síðan eignuðustum við fegurstu konu heims og Evrópu-,Englands-, Svíþjóðar-, Danmerkur- og Þýskalandsmeistara í hópíþróttum (kannski gleymi ég einhverjum) á árinu. Við eigum Norðurlandameistara í bókmenntum, heimsmeistara í spennusagnagerð, klippimeistara í kvikmyndagerð, heimsmeistara í Suðurpólsakstri og ég veit ekki hvað. Leikhúsfólk, tónlistarfólk og Latibær eru að gerða garðinn frægann. Þetta þykir kannski ekki mikið miðað við það stórþjóðirnar afreka en það er ekki sjálfgefið að það séu íslendingar sem ná þessum árangri en ekki einhverjir aðrir sem koma úr stærri og öflugri samfélögum. Það er fyrst og fremst sterkur þjóðfélagsgrunnur sem skapar forsendur til þess að hæfileikar einstaklinganna fái að njóta sín. Lífskjör þjóðarinnar eru þannig að það eru ekki margar þjóðir sem standa okkur jafnfætis í þeim efnum. Ný auðlind sem er vel menntað fólk á viðskiptasviðinu hefur skotið styrkri stoð undir samfélagið til viðbótar við það sem fyrir var. Vitaskuld eru aðstæður misjafnar eins og í öllum þjóðfélögum en misskiptingin er örugglega minni hér en í flestum nálægum löndum, hvað þá ef lengra er leitað. Sjálfskipaðir vitringar í fjölmiðlum halda því ítrekað fram að Ísland sé ekki lengur stéttlaust þjóðfélag og það sé dæmi um sívaxandi misskiptingu. Halda menn t.d. að það hafi ekki verið meiri stéttskipting til dæmis í kreppunni á síðustu öld en er nú? Þeir sem halda öðru fram vita ósköp lítið um hvað þeir eru að tala.

Fór í gærkvöldi með krökkunum að kaupa fýrverkerí. Höfum farið vel á annan áratug á sama staðinn og verslum við sama manninn. Verslum eftir mottóinu fátt og stórt er betra en margt og smátt.

Ég þakka þeim fjölmörgu sem hafa kíkt á þessa spjallsíðu á árinu. Heimsóknir eru orðnar vel yfir 20 þúsund sem er miklu meira en ág átti von á. Ég setti hana upp í upp í upphafi sem svipu á sjálfan mig og brenndi þar með allar brýr að baki mér við undirbúning að þáttöku í WSER. Hún hefur síðan þróast yfir í að ég læt hugann reika um það sem mér finnst efst á baugi hverju sinni ásamt hlaupatengdum vangaveltum í bland. Einstaka sinnum hef ég nálgast mörk þess sem er heppilegt en einnig hef ég séð að það er hægt að hafa áhrif með því að láta skoðanir sínar í ljós á þennan hátt. Það er kannski ekki til vinsælda fallið á öllum vígstöðvum en meðan maður er samkvæmur sjálfum sér þá hef ég ekki áhyggjur af því. Ég hef einnig fengið fjölmörg jákvæð viðbrögð við þessum vangaveltum og það er alltaf gaman að slíku. Ég sé einnig að það er gaman að geta rennt yfir árið og rifjað upp hvað var manni efst í huga á hverjum tíma.

Í fyrramálið ætla ég að renna yfir sett markmið á nýju ári.

Gleðilegt komandi ár og kærar þakkir fyrir það liðna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir marga og góða pistla um hin ýmsu málefni og pælingar um hlaup. Gangi þér vel á nýju ári.