Fór 16 km í kvöld í góðu veðri. Tók Poweratehringinn að heiman og síðan út á Grensásveg og heim Sogaveginn. Fór heldur rólega en annars allt í góðu róli. Stefni að því að nota góða veðrið næstu daga vel. Þarf að taka prufur með höfuðljósin í myrkri til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi og þau gagnist eins og þau eiga að gera.
Heyrði iðnaðarráðherrann tala í kvöldfréttum um konuna sem fékk ekki stjórnarsæti í sparisjóðabankanum. Það var nú meira bullið.
Sem betur fer fundust krakkarnir heilu og höldnu sem voru að villast á Kjalvegi sl. sólarhring. Það á reyndar að taka svona fífl og skamma þau duglega og helst ætti að láta þau borga hluta af kostnaðinum við leitina, 100 dagsverk með tilheyrandi tækja- og þyrlukostnaði. Þau brutu öll lögmál sem verður að hafa í heiðri þegar farið er á hálendið yfir háveturinn og þegar það er gert þá er voðinn vís. Sem dæmi þar um má nefna eftirfarandi:
1. Aldrei á að fara inn á hálendið á minna en þremur bílum í hóp. Það getur alltaf einn fest sig eða bilað. Þá er einn bíll bjargarlítill.
2. Alltaf skal hafa fjarskiptatæki sem duga hvar sem er til að geta látið vita af sér.
3. Vegurinn var illa merktur sagði stelpan. Þetta er með meiri aulahætti sem maður hefur heyrt af fólki sem er að ferðast á hálendinu. Á þessum tíma eru hálendisvegir yfirleitt á kafi. Því þarf að hafa trak af leiðinni og GPS tæki og kunna á það.
4. Að hella allri olíunni á annan bílinn og hafa hinn olíulítinn er ekki gáfulegt.
5. Að hafa ekki kort eða áttavita og vita ekkert hvar þau eru stödd og vera að spökulera að yfirgefa bílinn undir kvöld og ganga til byggða í ágangsveðri er sama og að ganga í opinn dauðann.
Ég á ekki von á að þau lesi þetta en betur færi ef einhver talaði við þau tæpitungulausa íslensku.
Gott að Fisher er kominn með ríkisborgararétt svo hægt verði að frelsa kallinn úr japönsku fangabúðunum. Dapurlegt fannst mér að kjúklingarnir á þingi skyldu sitja hjá við afgreiðslu málsins. Í fyrsta lagi er hjáseta ekki afstaða heldur skoðanaleysi. Í öðru lagi skil ég ekki hvers vegna þau hafi ekki séð ástæðu til að styðja kallinn. Kannski vegna þess að þau voru ekki fædd þegar einvígið var haldið. Er það kannski eitt af sérstöðu unga fólksins, sem það er alltaf að básúna, að taka ekki afstöðu til mála sem eiga rætur sínar að rekja til atburða sem gerðust áður en þau fæddust? Í norsku sveitarstjórnarlögunum er bannað að sitja hjá. Þar í landi er fólk kosið til áhrifa til að hafa skoðanir en ekki til að skila auðu.
mánudagur, mars 21, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli