Fór hefðbundinn 16 km hring seinnipartinn í dag þegar ég kom heim úr vinnunni. Spáin var ekki góð svo ég notaði tækifærið á meðan veðrið var skaplegt. Það var nokkur strekkingur en hlýtt. Finn að ég er orðinn aðeins þreyttari enda hlaupið upp á hvern dag frá marsmaraþoni. Reikna með að taka frídag á föstudaginn. Þetta er allt með ágætum og eftir bókinni. Veit ekki hvort ég kemst með utanvegahlaupafélaginu í fyrramálið, enda nenni ég varla ef veðrið verður leiðinlegt.
Sá á WS 100 vefnum að það hafði kyngt niður snjó í Squaw Valley um og fyrir helgina. Snjóþykktin er reyndar einungis aðeins yfir meðallagi svo þetta á að vera allt í lagi. Eitt árið var gríðarleg úrkoma svo að það var snjór yfir öllu þegar hlaupið fór fram og upp var komið. Ég held að hlaupararnir hafi þurft að hlaupa yfir 30 km í snjó. Tími besta manns var um 2 klst lakari en venjulega og aldrei féllu eins margir úr keppni og þá. Nóg er nú samt svo þetta bætist ekki við. Ég held að úr þessu verði allt í lagi því það fer greinilega yfirleitt að hlána í aprílbyrjun. Fyrir 15 árum var ég í Kanada um þetta leyti, í Klondyke héruðunum við Whitehorse. Við komum þangað í 30 gráðu frosti en það hlýnaði um ca 35 gráður á þeirri viku sem við vorum þarna og vorið var komið þegar við fórum.
Heyri að ýmsum finnst óþarfi að Alþingi hafi gengið í mál Fishers og leyst það. Mér finnst að kallinn skipi það stóran sess í íslandssögunni að fyrst mögulegt var að forða honum frá því að rotna í bandarísku fangelsi þá var það hárrétt ákvörðun. Sú gríðarlega skákvakning sem átti sér stað á Íslandi á áttunda og níunda áratugnum á rætur sínar að rekja til einvígis Fishers og Spassky. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að Ísland, þetta örlitla þjóðfélag, eigi flesta stórmestara allra þjóða á Norðurlöndum. Kjúklingarnir á þingi hefðu átt að hafa manndóm í sér til að greiða atkvæði á móti þessu frekar en að sitja hjá, sem er aumingjalegasta afstaðan að mínu mati, fyrst þau gátu ekki stutt frumvarpið. Ég skil vel að kallinn sé orðinn önugur og úrillur.Hver væri það ekki í hans sporum.
Horfði á 2. flokk Víkings tapa 3 - 4 fyrir Leiftri niður í Laugardal í kvöld. Leiðinlegt veður var og setti það sinn svip á leikinn. Ég var liðsstjóri 2. flokks í fyrra og hef gaman að fylgjast með strákunum, hvernig þeir hafa þroskast og tekið framförum. Greinilegt vanmat var á ferðinni hjá þeim í kvöld og það kann ekki góðri lukku að stýra.
miðvikudagur, mars 23, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli