Hvíldardagur í dag. Ágætt því það verður löng helgi. Við leggjum af stað kl. 8.00 í fyrramálið eða hálftíma fyrr en vanalega. Ætla að ná milli 35 og 40 km ef allt gengur vel. Fer rólega enda er hraðinn ekki meginmálið á þessu stigi. Tökum kannski brekkur til að krydda daginn.
Hef verið að gefa Bryndísi góð ráð við kvefi á upphafsstigum. Það er bara að skera sér góða sneið af venjulegum lauk, tyggja hana vel og lengi og renna síðan öllu niður. Ég hef notað þetta með góðum árangri í mörg ár og þakka lauknum meðal annars hvað ég er sjaldan veikur (7 - 9 - 13). Þegar ég finn kvefið vera að læðast að er afar hollt að skella í sig góðri lauksneið. Sem eftirrétt má gjarna hafa Gammel dansk eða Koníak með heitu tei. Hvoru tveggja afar gott.
Kíkti á lokahóf Poweratehlaupanna. Pétur og Dagur hafa mikinn sóma að hafa staðið fyrir þessari hlaupaseríu fjórða veturinn í röð. Þessi vetur fór reyndar fram hjá mér ýmissa hluta vegna en það er alltaf góð stemming æí kringum þessi hlaup og þau hafa sína dyggu áhangendur. Það verður gaman að fylgjast með Kára og Írisi í framtíðinni en þau hafa alla möguleika til að ná í fremstu röð ef það halda vel á sínum spilum. Þarna eru líka aðrir sigurvegarar eins og Ketill Hannesson, gamall starfsfélagi, sem er fæddur 1937 og hleypur enn af sívaxandi þrótti. Hann skrefaði heilt maraþon á síðasta ári sem sýnir manni að það er aldrei of seint að byrja og góð hreyfing gerir ekkert annað en að styrkja bæði líkama og sál.
Strákarnir í Víking spiluðu í HK húsinu í kvöld í síðasta móti vetrarins. gerðu fyrst jafntefli við FH í leik sem þeir áttu að vinna og íðan töpuðu þeir gegn HK þar sem kveikjan var ekki alveg nógu rétt stillt. Vona að allt verði komið í rétt horf á morgun.
Enn vekur ríkisútvarpið mér undrun og framganga starfsmanna þar. Í dag heyrði ég einn dagskrárgerðarmann flytja nokkurskonar minningarávarp yfir landslýð vegna Jóhanns Haukssonar sem sagði upp störfum. Tónninn var eins og Jóhann hefði látist á sviplegan hátt. Eru engin takmörk fyrir hvað starfsmenn ríkisútvarpsins geta látið innri valdabaráttu ganga langt með því að manipúlera dagskrána eins og þeir ættu þetta blessaða útvarp sjálfir. Ef svo væri kæmi mér þetta ekki við, en biðst bara undan því að þurfa að hlusta á þeirra persónulegu geðshræringar. Las mjög góðan pistil á www.andriki.is í dag vegna málsins.
Set inn á síðuna slóð á myndasýningu frá WS 100 frá árinu 2002. Það gefur áhugasömum aðeins hugmynd um hvernig þetta lítur út. Var að lesa bók Gunnars Bjarnasonar. Þar segir hann frá þolreið á íslenska hestinum þvert yfir Bandaríkin, líklega um 2000 mílur sem var farin árið 1976. Sama leið og Forrest Gump hljóp. Hann byggði árangur hestanna, sem var mjög góður, á ákveðnu lykilatriði. Það var að beita þeim vel í náttstað og hafa þá alltaf vel kviðfulla. Á þann hátt gátu þeir haldið meiru vatni í innyflinum sem nýttist skrokknum í hitanum og gerði nýrunum auðveldara með að starfa. Bandaríkjamennirnir voru ekki eins natnir og hugðu ekki að þessu. Hestar þeirra geymdu því ekki eins mikið vatn í skrokknum og við að svitna mjög mikið urðu nýrum óstarfhæð og endaði með að þeir drápust. Þetta getur valdið fólki erfiðleikum t.d. á Laugaveginum ef það byrjar of seint að borða og drekka. Þá hættir líkaminn að geta nýtt sér vatnið og það er bara í polli í maganum, sama hvað drukkið er. Slíkt getur endað með ósköpum eins og lá t.d. við á Laugaveginum í hitteðfyrra. Kannski reynsla Gunnars úr hestareið í Bandaríkjunum fyrir 30 árum eigi eftir að nýtast mér í vor? Gunnar Bjarnason lætur ekki að sér hæða dauður frekar en lifandi.
föstudagur, mars 11, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli