föstudagur, mars 25, 2005

Frídagur í dag, föstudag. Var meðal annars að hjálpa til við að mála íbúð sem tengdaforeldrarnir eru að kaupa.

Las nýlega bókina Hvíti risinn sem þeir feðgar Ólafur Örn og Haraldur skrifuðu um aðdraganda göngunnar yfir Grænlandsjökul og um gönguna sjálfa. Sat fram á nótt og dreypti á góðu viskíi með lestrinum og gat ekki hætt fyrr en hún var búin. Ég las bókina fyrir nokkrum árum en fannst mjög gaman að fara aftur yfir hana. Þetta var ekki fyrsta ferð íslendings yfir jökulinn en íslendingar höfðu ekki gengið yfir Grænlandsjökul áratugum saman þar til þeir félagar Ólafur, Haraldur og Ingþór lögðu í hann. Síðan hafa fjórar íslenskar konur farið yfir hann og þar á meðal hún Þórey Gylfadóttir sem hlaupafólk þekkir að miklum dugnaði. Það er tvennt sem ég horfi sérstaklega á í bók Ólafs. Það fyrsta er hvernig hann lýsir því þegar hann gefst upp göngu á Hvannadalshnjúk!!!, 39 ára gamall, sökum úthaldsleysis og mörsöfnunar. Slagurinn við að koma sér í form á nýjan leiki var nokkur en gekk furðu vel, enda byggði hann á góðum merg. Síðan er þetta að þegar hann er kominn á fimmtugsaldur fær hann Grænlandsveikina og fer í alvöru að velta fyrir sér að ganga yfir Grænlandsjökul. Það var ekki í lítið ráðist. Það sem maður horfir síðan mest á úr göngunni sjálfri er hinn andlegi styrkur sem verður að vera til staðar við slíkar aðstæður. Þegar þeir voru búnir að berjast áfram í 10 daga og liggja dögum saman í tjaldi í manndrápsveðri, þá eru þeir komnir 80 km og eiga um 600 km eftir. Þá var ansi langt í land. Einu sinni þurftu þeir að liggja algallaðir í 20 klst upp í tjaldið vindmegin til að forða því að það tættist í sundur undan brjáluðu veðri. Að græja sig með alla hluti í 20 - 30 stiga frosti og oft stífum vindi vikum saman er ekki einfalt og ekki á allra færi. Ég á einnig bókina sem segir frá Suðurskautsför þeirra þremenninga , bókina sem segir frá för Haraldar á Norðurskautið svo og bókina um Everestför þremenningana Björns, Einars og Hallgríms. Allt saman eru þetta frásagnir af miklum þrekvirkjum sem eru einungis á færi líkamlegra og andlegra afreksmanna.

Byrjaði í dag að horfa á Samuræjana sjö eftir Kurusava. Hún er skemmtileg.

Engin ummæli: