Tók lengra hlaup í kvöld en vanalega í miðri viku. Það spáir kólnandi og eins gott að nota veðrið meðan hitinn er réttu megin við frostmarkið. Fór upp Elliðárdal og Poweratehringinn, upp Hattinn og síðan út á Grensásveg og svo heim. Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum þá eru þetta um 16 km. Ég hef hlaupið þessa leið oftar en tölu verður á komið og mér líkar hún alltaf jafn vel. Maður þekkir hana út og inn og getur borið saman hvernig maður svarar álagi í brekkunum við fyrri hlaup. Markmiðið er að hlaupa að jafnaði um 100 km í viku í mars þannig að það verður að halda þokkalega á spöðunum.
Síðasta Poweratehlaupið er á morgun. Ég hef ekki tekið þátt í þeim í vetur, byrjaði ekki í haust og nennti síðan ekki að slást í hópinn á miðri leið. Kannski maður taki síðasta hlaupið á morgun svo maður geti farið með góðri samvisku á lokahófið.
Fór í sakleysi mínu að kaupa aðeins í matinn í dag. Það var nú meira ruglið. Búðin full af biðröðum. Mér finnst að það ætti ekki að vera heimilt að gefa daglegar vörur eins og nú er verið að gera. Hvar eru samkeppnislögin? Maður sér á þessu hvað hinn frjálsi markaður í dagvörugeiranum er raunverulegur eða hitt þó heldur. Ef nýr aðili ætlar sér að taka slaginn þá svarar sá stóri og sterki með því að undirbjóða hann þangað til að sá nýi fer á hausinn, svo fremi að hann sé ekki þeim mun öflugari. Sá sem getur selt meir á undirverði, hann lifir og getur síðan stillt verðið af eftir þörfum fram að næstu atökum. Er þetta nokkur hemja?
Sá frambjóðenda til formanns í Samfylkinginnu tala um það í sjónvarpinu hve merkileg tilraun það væri að allir flokksmenn Samfylkingarinnar fengu að kjósa formanninn beint. Einhvern vegin minnir mig að þetta hafi nú verið gert áður í formannskjöri flokksins þannig að nýjabrumið er kannski ekki eins mikið og af er látið. Einnig var rætt um hina nýju straum í stjórnmálunum s.s. með auknu vægi almennra atkvæðagreiðslna um ýmis málefni. Ég hef það þó á tilfinningunni að þeir sem tóku þátt í almennri atkvæðagreiðslu um flugvallarmálið í Reykjavík fyrir nokkrum árum sjái ekki að það hafi verið tekið mikið mark á niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.
miðvikudagur, mars 09, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli