Góður dagur. Mér leist satt að segja ekkert voðalega vel á daginn þegar ég fór út í Smárann rétt fyrir kl. 11 í morgun. Það gekk á með rigningarskúrum og þær voru ekki af smærra taginu. María Rún var að fara að keppa þar á íslandsmóti unglinga í frjálsum. Ég náði svo niður í útsölu Adidas í Faxafeninu um kl. 1200 og hitti Harald. Júl. þar. Keypti eina skó þar sem mér fundust vera harla góðir. Ég held reyndar að ég hafi aldrei keypt mér hlaupaskó nema á útsölu. Ég á hins vegar nóg af þeim og skipti þeim hiklaust út þegar tími er kominn á þá. Kom heim um kl. 12,15 og gerði mig kláran í flýti. Ég hafði gert ráð fyrir að hlaupa niður í Nauthól og vildi ekki sleppa möguleikanum. Rúllaði af stað rétt fyrir hálf og fór heldur skemmri leið eða um 4 km. Komst á tilsettum tíma. Fjölmenni var við Nauthól og formaðurinn afar kátur og í afmælisskapi. Margmenni var þarna samankomið sem ætlaði bæði að fara heilt maraþon og eins að hlaupa boðhlaup. Veðrið reyndist síðan verða eins og best varð á kosið. Ég fann fljótt að ég var ekki í stakk búinn að hlaupa á almennilegu tempói. Hvað olli getur bæði verið að ég undirbjó mig ekki neitt, borðaði t.d. kjöt í kvöldmat á föstudagskvöldið og engin hleðsla var í gangi sem undirbúningur. Síðan hafði ég einnig verið í þrekæfingum í vikunni. Stílaði því fljótlega inná á taka hlaupið sem langa æfingu og hafði engar áhyggjur af tímanum. Kláraði hlaupið á rétt tæpum 4 klst sem er með þvi alslakasta sem ég hef fengið en sama er því fylgir alltaf sérstök áhægja að klára maraþon. Var engu að síður fínn og í mjög góðu formi að hlaupinu loknu. Pétur Franzson hlýtur að hafa átt skemmtilegan afmælisdag með þessu góða veðri og þessum fjölda fólks sem var að hlaupa langt og stutt, hægt og hratt. Sérstakar þakkir fær hann fyrir verðlaunagripina fyrir maraþonhlauparana. Áritaðir verðlaunaskildir. Hvað er kallinn að hugsa? Kærar þakkir fyrir mig. Eftir að hafa skipt um boli og borðað banana þá skokkaði ég heim til baka og náði þannig um 50 km á deginum. Var dálítið stirður til að byrja með en það lagaðist og var orðinn fínn þegsr ég kom heim. Þetta er nefnilega góð æfing, bæði andleg sem líkamleg, að byrja á nýjan leik þegar maður er stirður og á samkvæmt guðs og manna lögum að hvíla sig og jafnvel láta vorkenna sér dálítið sökum þreytu. Ég var orðinn fínn þegar ég kom heim eftir 4 km og hefði getað haldið áfram nokkuð lengi. Þegar heim var komið var ekkert annað að gera en að fara í sturtu og skipta um föt í hasti því starfsmannafélag sambandsins var að fara á árshátíð upp í Skíðaskála. Þar átti maður góða kvöldstund og dansaði úr sér strengina sem voru svo sem ekki miklir.
Góður dagur að kvöldi kominn.
sunnudagur, mars 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli