Hvíldardagur í dag. Var að hugsa um að fara í Salastöðina en lét það eiga sig. Nú verða tveir æfingadagar í vikunni en síðan ætla ég að hvíla í tvo daga fyrir Marsmaraþonið. Það má varla minna vera.
Fékk Marathon&Beyond í dag. Það voru ágætar greinar í tímaritinu sem gaman er að lesa. Áhugaverð frásögn um Patty Lyons sem var fyrsta bandaríska konan til að hlaupa maraþon undir 2.30 kl.st. Hún vann stóra sigra á hlaupabrautinni en barðist einnig við mikla persónulega erfiðleika. Í nokkur ár eftir að sól hennar reis sem hæst á íþróttahimninum bjó hún í bíl á götum New York borgar. Hún náði að lokum jafnvægi á líf sitt aftur og getur miðlað öðrum að sinni miklu reynslu.
Einnig var í tímaritinu góð grein um hve langt maður á að hlaupa þegar æft er fyrir löng hlaup, maraþon og þar yfir. Hvers vegna á að hlaupa langt? Hve langt á að hlaupa? Hve oft á að hlaupa langt? Á hvaða hraða á að hlaupa og þar fram eftir götunum. Mælt er með að taka eitthvað af 6 - 8 klst hlaupum. Bruce Fordyce, margfaldur meistari í Comrades, fór eftir eftirfarandi prógrammi í sinni æfingaáætlun: Eitt hlaup um 40 mílur (65 km), þrjú hlaup 26 - 35 mílur ( 40 - 55 km) og átta 20 - 26 mílur (32 - 42 km). Þetta er nokkuð í stíl við það sem ég hef hugsað mér og þó er það heldur meira. Þingvallahlaupið er yfir 70 km sem tekur 8 - 9 klst. Ég hef þegar hlaupið eitt 50 km hlaup og þrjú 35 km hlaup. Maraþon verður um næstu helgi og ef vel viðrar lengir maður það kannski aðeins. Síðan verður farið af meiri alvöru í löngu hlaupin þegar líður á apríl og maí. Mælt er með að hvíla fyrir og eftir mjög löng hlaup svo þau komi að meira gagni en ella. Einnig þarf að carboloda fyrir þau til að vera betur undirbúinn. Svona löng hlaup eru bæði til að búa skrokkinn undir átökin en og ekki síður andlegu hliðina sem er ekki síður mikilvægt.
mánudagur, mars 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli