Nú var ekkert hlaupið í dag, enda gott að fá hvíld eftir helgina. Athyglisvert sem Gísli benti á að strákarnir sem tættu hringinn á hreinum spretti og skiptust á hefðu ekki náð að slá íslandsmet Sigurðar P. Þetta sýnir manni hvaða fart hefur verið á honum. Jössus.
Sat fund í eftirmiðdaginn með fólki í Framsókn sem býr sunnan við Miklubraut (sem heitir víst Reykjavík suður). Farið var yfir nýliðinn landsfund. Það þjappar liðinu saman að bera saman bækur sínar.
Um kl. 19.30 var ég svo kominn í Tjarnarbíó þar sem fyrsta undanúrslitakvöld Músiktilrauna fór fram Þar spiluðu The Beautifuls ásamt fleirum. Strákarnir stóðu sig vel þótt ekki kæmust þeir áfram. Mér fannst þeir sem ég heyrði í spila vel og gaman að heyra hvað ungir krakkar eru búnir að ná góðu valdi á hljóðfærum og farnir að semja skemmtileg lög.
Lauk deginum með þvi að fara á myndakvöld hjá Útivist í Húnabúðinni. Þar voru sýndar myndir af ýmsum slóðum frá svæðinu norðan Vatnajökuls. Meðal annars frá Kringilsárrana sem ég hef áhuga á að heimsækja næsta sumar.
mánudagur, mars 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli