Fór hefðbundinn 16 km hring í kvöld. Létt rennsli og þægilegt. Spáin er ekki nógu góð fyrir tvo næstu daga en vona að ég geti tekið sama rúnt fram á fimmtudag. Sigmundur á Selfossi hringdi í dag. Hann er að taka síðasta langa hlaup á laugardaginn áður en niðurtalningin fyrir Boston byrjar og hann var að spökulera í að koma með okkur á laugardaginn. Pétur er á sama róli og Sigmundur og er einnig á leið til Boston. Nú fer útrásin að byrja. Boston, London, Köben o.s.frv.
Það hefur orðið nokkur umræða í dag um aulaháttinn í krökkunum sem voru að þvælast um inni á hálendinu. Það er eins gott að svona liði sé ekki tekið eins og hetjum. Auðvitað á að senda þeim reikning. Maðurinn frá Landsbjörg sagði að þeir reiknuðu aldrei út kostnað heldur færu bara og björguðu viðkomandi. Auðvitað á ekki að meta það í krónum og aurum þegar virkileg vá er fyrir hendi en þegar aulahátturinn er allsráðandi þá snýr málið öðruvísi við. Mér blöskraði að sjá sjálfumgleðina og hrokann í liðinu í sjónvarpinu í kvöld, Jú takk, þetta var bara gaman og spennandi og svo ætluðum við bara að ganga rest. Villt, áttavita og kortalaus að ganga 40 km í vondu færi um hánótt í ágangsveðri. Það tekur aldrei minna en 10 tíma að fara slíka leið ef þau hefðu þá komist það. Vonandi sýnir einhver þann manndóm að skamma liðið almennilega.
Jónas Kristjánsson er endurreistur sem ritstjóri DV. Líklega er það þrautaráðið til að reyna að gera eitthvað blað úr þessum snepli. Jónas er góður blaðamaður og hokinn af reynslu. Þeir sem hafa áhuga á að kynnast hugarheimi hins ritstjórans ættu að grípa í bókina "Samúel" sem hann gaf út fyrir nokkrum árum. Skynsamlegt er að lesa svolítið í henni áður en tekin er ákvörðun um að kaupa hana. Eftir þann lestur kemur manni ekki á óvart efnistök þeirra DV manna undir ritstjórn rithöfundarins svokallaða.
Ekki finnst mér Eurovisionlagið spennandi. Liðið sem hefur atvinnu af að hæla hvort öðru er náttúrulega visst um að lagið vinnur. Kannski er maður orðinn of gamall til að skynja ágæti svona tónsmíða en ég hef aldrei verið hrifinn af því þegar megináherslan er lögð á að fetta sig, reka útglennta fingur út í loftið og rífa í hárið á sér. Jæja maður sér til, en ég minni bara á hvað allir voru hrifnir af Birtu hér um árið, já og einnig af Jónsa í fyrra.
þriðjudagur, mars 22, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli