Hefðbundinn túr á sunnudagsmorgun. Fór niður í Laugar í góðu veðri og þaðan var farið vestur í bæ. Dágóður hópur var mættur. Guðmann og Sveinn voru að fara rólegt hlaup eftir erfiða æfingu gærdagsins því þeir mæta til Rotterdam eftir tvær vikur og þá skal uppskorið eftir miklar æfingar síðustu mánaða. Gaman verður að fylgjast með hvernig þeim gengur því þeir eru til alls líklegir. Bryndís vakti máls á Two Oceans hlaupinu í Suður Afríku en það var haldið í gær með 20 þúsund þátttakendum. Hún og Úlfar eru að plana þátttöku í því á næsta ári og eru að spana fleiri til að koma með. Það er 55 km langt og hlaupið er milli úthafa. Gaman að láta sig dreyma. Fór út á gamlárshlaupssnúninginn og svo heim sem gerir um 24 km. Hitti bæði Halldór og Pétur á leiðinni til baka. Halldór fór 38 km í gær og var hinn léttasti. Síðustu 10 dagar hafa verið mjög góðir og ég finn að styrkurinn hefur aukist og kílóunum fækkað. Fín helgi að baki.
Dagurinn í gær var annars tíðindalítill. Hann leið við bókalestur og sjónvarpsgláp þar til leið á daginn en stórfjölskyldan kom í mat í gærkvöldi. Horfðum á stórskemmtilega mynd úr Austurdal í Sakagafirði. Gaman þegar maður sér svona orginal myndir í sjónvarpinu í stað þessa rusls sem alltof mikið er af, bæði innlendu sem erlendu.
mánudagur, mars 28, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli