föstudagur, mars 11, 2005

Powerate í gærkvöldi í fyrsta sinn á þessu tímabili. Skokkaði uppeftir og síðan heim aftur þannig að ég náði 18 km út úr kvöldinu. Aðstæður voru mjög góðar, logn og hlýtt miðað við árstíma. Ég fór heldur rólega og tíminn eftir því enda ekkert sérstakt markmið á ferðinni. Þórey Gylfa hljóp mig uppi í byrjun hlaups og við áttum samleið nokkra km. Hún sagði mér frá New York maraþoninu sem verður í haust. Þau þurfa að ná 20 manns í hlaupið til að fylla upp í ákveðinn kvóta sem nauðsynlegt er til að þau haldi umboðinu. Því miður er það ekki á áætlun að fara þangað í ár en vonandi kemur að því síðar. Ég myndi leggja það upp sem upplifunarhlaup með myndavél og nota að sem sightseeing um einstaka borgarhluta New York. Held að það sé frábært hlaup.

Skrapp á bókamarkaðinn upp í Perlu í gær og keypti nokkrar bækur. Aðallega voru það bækur sem Vestfirska forlagið hefur gefið út. Einnig keypti ég bókina "Kóngur um stund" þar sem Gunnar Bjarnason ráðunautur fer yfir lífshlaup sitt, sáttur við guð og menn. Ég las hana í gærkvöldi og gat varla hætt. Gunnar er mjög minnisstæður maður, mikill eldhugi og stiklaði oft á fjallatoppum og fór með himiminskautum í hugmyndumsínum. Hann fór oft einn gegn öllum, enda var afturhaldssamt landbúnaðarsamfélag sjaldnast ginkeypt fyrir stórbrotnum hugmyndum. Ef Gunnar hefði verið unglingur í dag heði hann örugglega verið settur á ofurskammt af rítalíni. Nafn Gunnars verður lengst minnst í sambandi við það brautryðjandastarf sem hann vann í sambandi við útflutning á íslenska hestinum. Upp úr miðri síðustu öld hóf hann að predika fyrir velmegandi erlendum hestamönnum hvílík dásemd íslenski hesturinn væri með þeim árangri sem flestir þekkja í dag.

Merkilegt ástand í ríkisútvarpinu. Principielt er ég á móti því að undirmenn ráði hver yfirmaður þeirra verður. Þessa hugarfars verður oft vart í grunnskólum þegar kennarar vilja ráð hver verður ráðinn skólastjóri og verða afar ósáttir yfir að þeirra maður hafi ekki verið ráðinn. Undirmenn eiga aldrei að ráða ferð varðandi stjórnun stofnana eða fyrirtækja. Það er principatriði að mínu mati. Hjó eftir því í morgun að fréttamaður ríkisútvarpsins kallaði það allt í einu þjóðarútvarp. Hvaða bull er þetta? Er það eitthvað þjóðarútvarp þótt maður sé píndur til að greiða afnotagjöld af því hvort sem maður vill eða ekki. Þetta er ríkisstofnun alveg eins og vegagerðin. Á maður að fara að segja vegagerð þjóðarinnar?

Engin ummæli: