Marsmaraþon. Vaknaði um kl. 8.00 og fékk mér ristað brauð og te í morgunmat. Skokkaði niður í Elliðaárdal upp úr 9.30. Veðrið var gott, hlýtt og stytt upp. Mér fannst vera svolítill strekkingur í morgun en hann virtist heldur hafa minnkað. Hópur hlaupara var samankominn við rásmarkið. Um tuttugu sveitir ætluðu að hlaupa og 16 lögðu af stað í heilt (að því mig minnir). Það var létt leiði vestureftir en þungt á móti stífum vindi austur á bóginn. Við Halldór hlupum saman og tókum þetta af hóflegum krafti. Ég vildi ekki keyra mig út því það verður æfing á morgun og svo ætlaði ég einnig að fara upp í ca 50 km í heildina. Halldór kvartaði undan verk í hægra hnénu og kenndi það skónum en hann hefur ætíð fengið í hnéð þegar hann hleypur langt í ákveðnum skóm og í dag var lokatilraunin. Þessi leið sem nú er farið að hlaupa er fín og tíminn líður hratt, mun hraðar en þegar farið er um slóðir sem eru ókunnugari. Lykkjan inn að Loftleiðahótelinu er alls ekki jafnleiðinleg og áður eftir að hafa hlaupið hana 17 sinnum í Pétursþoninu. Haraldur Júlíusson slóst í för með okkur um stund en svo tók hann að sér að brjóta fyrir Þórhall sem var með fremstu mönnum eftir að Trausti hætti keppni. Þórhallur kom í mark á um 3.11 sem er mjög góður tími af fimmtugum manni í eins stífum mótvindi helming leiðarinnar eins og raun bar vitni í dag. Fleiri náðu vafalaust góðum tima eins og Þórður, Siggi Ingvars og Sigþór án þess að ég viti tímana nákvæmlega. Ekki veit ég heldur hver vann. Við Halldór kláruðum á um 3.50 sem var svona eftir bókinni, þetta átti ekki að vera neitt hraðahlaup. Eftir að hafa skipt um föt og borðað banana í markinu þá gekk ég og skokkaði upp að stíflunni og svo til baka að sunnanverðu. Það passaði nokkuð að fara þangað, aftur að markinu og svo heim til að ná 50 km. Maður liðkaðist fljótt við að hreyfa sig og eftir að hafa teygt svolítið var maður orðinn giska mjúkur. Hins vegar borgar sig að stoppa stutt þegar hlaupið er mjög langt því maður stirðnar fljótt ef ekki er haldið stöðugt áfram. Á drykkjarstöðvum er best að stoppa eins stutt og hægt er og borða síðan heldur gangandi heldur en að setjast niður.
Eftir að hafa farið í sturtu og blandað recoverydrykk var maður bara orðinn fínn og orðinn fær um að takast á við klósetthreingerningar, ryksugun og matseld.
Víkingur vann Þór fyrir norðan í handbolta og á því enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Þeir þurfa að leika til úrslita um laust sæti við FH, sem töpuðu í dag fyrir Fram.
laugardagur, mars 19, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli