sunnudagur, mars 20, 2005

Lagði af stað niður í Laugardal upp úr 9.30 í morgun. Fór að hugsa um það á leiðinni niður eftir að ef ég hefði lagt af stað í WS 100 í gærmorgun um leið og marsmaraþonið var ræst þá væri ég að koma í mark á þessum tíma, ef allt hefði gengið vel. Ef eitthvað hefði komið uppá ætti ég hins vegar kannski allt að 20 km eftir og byggist við að koma í mark eftir 3 - 5 tíma eða undir kl. 15.00. Úbs.

Margmenni var í laugunum og var hlaupið sem leið lá niður í Öskjuhlíð og þar eftir skemmtilegum stígum. Síðan lá leiðin inn Fossvog á móti strekkingsvindi. Hálfdán er framsækinn eins og vanalega og tókum við góða siglingu inn í Elliðaárdalinn. Var ánægður með að ég fann ekkert fyrir gærdeginum í fótunum. Ég ætlaði ekki að fara mjög langt og láta mér um 20 km nægja. Því fór ég upp að stíflu og síðan til baka út Bústaðaveg og síðan inn Sogaveg og heim. Passaði alveg. Þegar ég skokkaði niður Grensásveginn lá lítil plastlykkja á gangstéttinni eins og eru settar utan um blaðabunka eða eitthvað svoleiðis. Þegar ég steig á lykkjuna hefur hún líklega risið upp og krækst í tána á hinum skónum því ég flaug á hausinn eins og hefði verið kippt undan mér fótunum. Sem betur fer meiddi ég mig ekki því ég náði að snúa mér í fallinu og taka þannig versta skellinn í stað þess að fljúga marflatur á hausinn. Svona er þetta, það þarf ekki alltaf mikið til.

Það spáir vel um páskana þannig að ég sé ekki annað en að ég eigi að ná settu marki fyrir marsmánunð ef ekkert kemur upp á.

Í eftirmiðdaginn var fermingarveisla hjá fjölskylduvinkonu. Það eru alltaf tímamót að ganga í gegnum fermingu. Maður er ekki enn búnn að gleyma eigin fermingardegi, enda þótt það hafi ekki verið eins mikið umleikis eins og víða er í dag.

Alveg er makalaust hvað telst fréttaefni. Þess var getið bæði í sjónvarpsfréttum og í Fréttablaðinu að einhver kona sem bauð sig fram í stjórn sparisjóðabankans hefði ekki náð kjöri. So what. Það er vitnað í eitthvað bréf viðskiptaráðherra um að hvetja fyrirtæki til að kjósa konur í stjórnir í þessu sambandi sem eitthvað allsherjar manifest. Ég lít þannig á málið að konur og karlar hafa jöfn tækifæri til menntunar og starfa. Hvorugt kynið á að hafa einhverja forgjöf. Til að ná ofar í valdapýramídann þarf að sanna sig og berjast fyrir hverri tröppu. Að láta sér detta það í hug að karlar í dag eigi að framkvæma einhverskonar syndaaflausn fyrir að konur fengu t.d. ekki kosningarétt fyrr en fyrir ca 100 árum síðan og stíga hljóðalaust til hliðar ef einhver kona ásælist einhverja stöðu eða stjórnarsæti er vitaskuld fásinna. Því miður hefur málflutningurinn verið í alltof ríkum mæli á þessum nótum á síðustu tímum. Hlustaði á Silfur Egils í dag þar sem var fjallað um efni þessu tengt og var afar sammála skoðunum Jakobs Magnússonar stuðmanns í þessum efnum. Ég er það þó alls ekki alltaf. Ég geri ekki ráð fyrir að nýráðinn forstjóri Flugleiða hafi verið ráðinn vegna kynferðis heldur vegna þess að þar er á ferðinni mjög hæfur einstaklingur. Ég þekki hins vegar allmörg dæmi þess úr stjórnkerfinu að það er þýðingarlaust fyrir karla að sækja þar um ákveðin störf vegna þess að það þurfi að ráða kvenkyns einstaklinga í þau. Þetta pirrar mig. Ég vil að allir standi jafnt að vígi á grundvelli menntunar, reynslu og hæfileika.

Engin ummæli: