Fór í Salastöðina í kvöld. Tók hefðbundinn hring, 8 km á brettinu og síðan yfirferð um tækin. Tók besta tíma á 8 km og bætti við endurtekningum á öllum tækjaæfingum Ég ætla að bæta við hraða, þyngd og endurtekningum hægt og sígandi. Þetta verður orðið ágætt í maí.
Þrekæfingar eru örugglega mjög góðar til að styrkja fæturna fyrir hlaupin. Sá á vefnum hjá Birni Margeirssyni link þar sem er mynd af Ratcliff þar sem hún er í lyftingum. Sú tekur á.
Ósköp var Guðni Ágústsson, nýendurkjörinn varaformaður, óheppinn í kvöld. Kynntar voru niðurstöður skoðanakönnunar num fylgi flokkanna sem voru heldur daprar fyrir Framsóknarflokkinn. "Ég sigli ei skýin , ég sigli sjá, svaraði kappinn og hló" svaraði Guðni og taldi sig vera að vitna í hetjukvæði. Tilvitnunin er í kvæðið um Eggert Ólafsson (eftir Matthías Jocumsson að því mig minnir) þar sem gamall sjómaður er að vara hann við veðurútlitinum "Mér ógna þau vindaský" sagði sá gamli þegar Eggert var að búast til brottfarar. Þá svaraði oflátungurinn Eggert með þeim orðum sem Guðni tók eftir og taldi bera vott um hetjulund. Varla er þörf á að minna á að Eggert Ólafsson náði aldrei landi eftir að hann lét frá Skor þrátt fyrir aðvaranir veðurglöggra. Skyldi þetta vera táknrænt.
Eureka, eureka. Loksins náði Ragnar skjálfti að standa í broddi fylkingar þegar lýðurinn gerir uppreisn. Hann, hálfsjötugur kallinn, var í forsvari fyrir Svarfdælinga sem fylktu liði á traktorum um götur Dalvíkur í dag og mótmæltu niðurlagningu grunnskólans á Húsabakka. Einn dreifði meir að segja mykju á planið fyrir framan bensínstöð Olís á staðnum. Skyldi Olís hafa fulltrúa í bæjarstjórn?
þriðjudagur, mars 01, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli