sunnudagur, mars 06, 2005

Vaknaði snemma í morgun til að koma Maríu af stað á seinni keppnisdaginn í íslandsmeistaramóti unglinga sem haldið var í Kópavogi. Hún keppir í flokki 12 ára stelpna og stóð sig vel, varð í 3ja sæti bæði í langstökki og hástökki og í fjórða sæti í 60 metra hlaupi. Ég fór af stað niður í Laugardal um korteri fyrir 10 í afar góðu veðri. Maður var svolítið þungur til að byrja með en það lagaðist allt þegar á leið. Hópurinn hélt til baka inn í Elliðaárdal og þar skildu leiðir, ég fór Poweratehringinn en hin héldu út Fossvog. Með því að fara þessa leið og síðan niður í Laugardal aftur náði ég um 22 km. Það gekk vel og ég hefði getað haldið áfram og tekið fullt maraþon ef upp á það hefði verið boðið og maður verið með nesti. Ég fann ekki fyrir neinni þreytu í fótunum og þetta er það sem maður er að stefna að, að geta haldið áfram og haldið áfram... Helgin gerir þá rúmlega 70 km sem er ágætt. Nú verður maður að fara að herða róðurinn.

Kl 1400 var æskulýðsmessa í Bústaðakirkju. Þar spiluðu þrjár strákahljómsveitir í Réttarholtsskóla og þar á meðal The Beautifuls. Þetta var góð tilbreyting hjá Pálma og gaman að sjá strákana standa sig vel.

Var sagt frá því að frambjóðandi í formannssæti hjá Samfylkingunni hefði lýst því yfir í kvöldfréttum í sjónvarpinu í gærkvöldi að það væri affærasælast fyrir sveitarfélögin að leggja Samband sveitarfélaga niður. Þetta er afstaða í sjálfu sér og verður fróðlegt að heyra hvernig hún er rökstudd.

Víkingur tapaði með 10 marka mun í Víkinni í kvöld fyrir HK. Það verður erfitt að komast í úrslitakeppnina.

Engin ummæli: