laugardagur, mars 26, 2005

Fórum fínan túr í morgun. Pétur hvíldi sig en í staðinn kom Sigmundur austan af Selfossi með okkur Halldóri. Við fórum sem leið lá fyrir Kársnes, yfir Garðabæinn og niður að Hrafnistu og þaðan inn bryggjuhverfið í Hafnarfirði að Suðurbæjarlauginni. Nokkur mótvindur var mest alla leiðina en það batnaði þegar við snerum við. Síðan var farið heim í gegnum Garðabæinn og Smáralindina, upp Kópavogströppurnar og svo skildu leiðir í Fossvoginum. Þetta gerði samtals 32 km í góðu óg hlýju veðri. Sáralítil rigning var en ég hafði verið hræddur um að hún yrði til leiðinda. Sigmundur er að búa sig undir Boston maraþonið og þetta var síðasta langa æfing hans áður en niðurtalningin hefst. Hann er búinn að vinna vel í hraðanum í vetur og verður gaman að sjá hvernig honum gengur. Ef dagsformið verður gott er allt til hjá honum.

Dagurinn var annars tíðindalítill. Horfði áfram á samoræjana 7. Þetta er um 3ja tíma mynd svo hún er ekki búin strax. Verður alltaf betri og betri eftir því sem lengra líður á hana. Japanarnir hlaupa alltaf til og frá en ganga ekki og síðan öskra þeir hver á annan í stað þess að tala. Gríðarlegur munur er að hafa talið á japönsku heldur en á ensku eins og farið er að hafa á mörgum myndum frá málsvæðum þar sem enska er ekki daglegt mál. Horfði t.d.
á Píanóleikarann í sjónvarpinu í gærkvöldi. Í myndinni sem gerist í Varsjá töluðu innfæddir ensku sín á milli og rússarnir töluðu ensku þegar þeir hertóku borgina í stríðslok. Það brá þó fyrir að einstaka þjóðverji talaði þýsku. Myndin var annars mjög góð þó málið truflaði. Hún virkaði sérstaklega á mig þar sem ég fer til Kraká eftir um 3 vikur og þá förum við meðal annars í ferð til Auswich útrýmingastöðvanna. Ég hef aldrei komið á þær slóðir fyrr.

Úrslitin í leiknum við Króatíu voru eftir bókinni. Þeir hefðu þó átt að sleppa því að fá fjórða markið á sig.

Engin ummæli: