sunnudagur, mars 13, 2005

Fór að stað á laugardagsmorguninn kl. 8.00 og hitti Pétur og Halldór úti í Fossvogsbotni tæplega 8.30. Fórum hefðbundna leið fyrir Kársnesið en svo skildu leiðir við Smáralindina, Pétur ætlaði að fara stutt, tók tröppurnar og fór síðan sem leið lá út Fossvogsdal og heim en við Halldór tókum strikið suður að Vífilsstöðum og þaðan inn að Elliðaárvatni. Við mældum löngu brekkuna og reyndist hún vera um 1,8 km. Hún var léttari nú en síðast, tempóið þar sem hún var sem bröttust var ca 6,10 en það sem hún var léttari var það um 6,00. Púls um 155. Það verður aman að sjá hvernig hún verður í maí. Við héldum síðan sem leið lá yfir að Árbæjarlaug og niður Elliðaárdal. S'iðan fylgdumst við að út að Nauthól en þar sneri ég við en Halldór ætlaði að fara út á Eiðistorg og svo heim til að ná 35 km. Mig vantaði aðeins upp á 35 þegar ég kom í Elliðaárdalinn aftur þannig að ég tók lykkju upp að rafstöðinni og síðan aðra yfir göngubrúna þangað til að settu amrki var náð.

Það er áhugavert að fylgjast með baráttunni milli efnisins og andans í svona löngum hlaupum. Andinn (hugurinn) er reiðubúinn í löng hlaup og mikla áreynslu en efnið (skrokkurinn) er latt og vill helst liggja uppi í sófa og horfa á sjónvarpið. Síðan standa átökin um hver ræður. Þetta er eins og að temja ótaminn hest. Það er barátta milli knapa og hests. Þegar maður fer að nálgast sett mark fer skrokkurinn að segja að það sé nú allt í lagi að fara heim þótt maður nái bara 33 km. Það muni ekki svo mikið um 2 km. Andinn er hins vegar stefnufastur og stendur ákveðið á sínu. Í þessari baráttu er gott að hlaupa framhjá beygjunni sem liggur heim og kenna efninu hver það er sem ræður. Í gær fór ég þrisvar fram hjá þeirri leið sem lá styst heim og skrokkurinn var orðinn þægur eins og lamb þegar heim var komið og sáttur við að hafa náð settu marki þótt kalt væri úti. Þessi barátta er ett af undirbúningnum fyrir vorið því að þá mun skrokkurinn æpa og emja og vilja hætta á meðan andinn vill ná settu marki. Þá skiptir miklu máli hver hefur undirtökin. Ef skrokkurinn sem hneigist til hóglífis fær að ráða þá er ekki að spyrja að leikslokum.

Strákarnir í fjórða flokk Víkings eru að spila síðustu turneringuna um helgina. Þeir unnu Hauka með einu marki og var það uppreisn æru eftir tapið gegn HK. Sveinn spilaði æfingaleik með Gróttu í kulda á Leiknisvellinum og tap var niðurstaðan.

Árni Jens frá Sigurðarstöðum á Sléttu var jarðsettur á Raufarhöfn í gær en hann lést í bílslysi fyrir norðan um síðustu helgi. Hann hefði orðið 21 árs í aprílbyrjun. Efnilegur piltur og eftirminnilegur.

Afmælisveisla var hjá 5 ára frænku í eftirmiðdaginn en ég stoppaði stutt þar því það þurfti að fara að undirbúa kvöldmatinn því góðir gestir komu í heimsókn, fjölskylduvinir frá Raufarhöfn. Kvöldið leið hratt við góðar samræður og rauðvínstár.

Engin ummæli: