Unnur Birna alheimsfegurðardrottning kom heim í dag og hitti fjölda manns í Smáralindinni. Þar var vel mætt eins og gefur að skilja. Sá í fréttum í kvöld að einn af aðstandendum keppninnar var spurður að því hvort það væri ekki sérstakt að svona smáþjóð hefði sigrað þessa keppni þrisvar á tuttugu árum. Hún sagði það vissulega vera sérstakt og sagði svo athyglisverðan hlut: "Þið hljótið að hafa frábæran mat hérna!!" Það var nefnilega það. Konan fór ekki með með neinn meiningarlausan frasa um fallega afkomendur víkinga eða eitthvað svoleiðis bull heldur sagði nákvæmlega það sem máli skiptir. Þið borðið frábæran mat. Ég hef oft hugsað um að maturinn sem við eigum hér uppi er náttúrulega alveg einstakur að gæðum. Fiskur, kjöt og mjólkurvörur eru afar vistvæn framleiðsla að því leyti að eiturefni eru ekki notuð í landbúnaði og fiskurinn er einn sá hollasti sem fyrir finnst. Vitaskuld eru gæði matarins hér ekkert einsdæmi en það sem skiptir mestu máli er að allur almenningur hefur aðgeni að þessum góða mat en ekki einungis þeir sem mest hafa efnin.
Ég kom til Nova Scotia og Newfoundlands fyrir nokkrum árum. Þessi lönd eru lágtekjusvæði og mikið atvinnuleysi. Maturinn sem maður fékk á veitingahúsum var ágætur en þegar maður kom í venjulegar verslanir þá sá maður að það var flutt inn sem svaraði kaupgetunni. Annars flokks matur. Ég keypti mér t.d. danskan Brie ost sem ég taldi mig þekkja en hann var allt að því óætur. Eplin voru vond, brauðið vont.
Ég var staddur þarna akkúrat á sama tíma og Vala Flosa tók verðlaun á ólympíuleikunum. Vitakuld vorum við ánægðír með okkar konu en fólkinu á Newfondlandi fannst það út af fyrir sig vera afar merkilegt að Ísland, þessi fámenna þjóð, skyldi yfir höfuð vera á Ólympíuleikunum og hvað þá taka verðlaun. það hafði þeim bara aldrei dottið í hug að gæti gerst hjá þeim. Það var rétt einn og einn heimamaður sem spilaði íshocky í canadísku deildinni en það var líka toppurinn.
Það má segja að þarna sannaðist máltækið; Þú stekkur ekki lengra en þú hugsar.
Heyrði gott viðtal við Ómar Ragnarsson í útvarpinu í dag þar sem hann var að segja frá starfi sínu sem jólasveinn hér á árum áður. Ómar hóf tilvist jólasveinana í aðrar hæðir en áður hafði þekkst. Hann lagði gríðarlega alúð í þetta og stúderaði vel hvað það væri sem var vinsælast hjá krökkunum. Hann kom fram sem Gáttaþefur í fleiri áratugi. Nú er öldin önnur. Maður sér döpur eintök jólasveina sem halda að kúnstin sé í því fólgin að tala við krakka eins og þeir séu bjánar og kyrja Nú skal segja og Adam og þá sé þetta bara búið. Sumir eru meira að segja á hlaupaskóm. Þeim sem eru að gefa sig út fyrir að leika jólasveina væri hollt að hlusta á viðtalið við Ómar. Hann fór t.d. aldrei af jólatrésskemmtun án þess að taka í hendina á hverju einasta barni sem var á staðnum.
sunnudagur, desember 18, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli