föstudagur, desember 09, 2005
Í gær voru 25 ár síðan John Lennon var skotinn. Það má segja að það gildi fyrir fólk á mínum aldri að það muni eftir því þegar það heyrði fréttina um að JFK var skotinn svo og þegar John Lennon var skotinn. Haustið 1980 var ég nýfluttur til Svíþjóðar og var að fóta mig í hagfræðinámi í sænska landbúnaðarháskólanum. Roland félagi minn og sessunautur sagði mér tíðindin að morgn til þann 9. desember þegar fréttir um ódæðið höfðu borist yfir hafið. "Han var den störste" sagði Roland. Það þarf ekki að rekja hvaða áhrif Bítlarnir höfðu á mannkynssöguna. Það vita allir sem vilja vita. Ég man t.d. enn eftir því í árdaga þegar einn þátturinn af Lögum ungafólksins var hafður á þann veg að það voru eingöngu og einvörðungu spiluð lög með Bítlunum og engar kveðjur lesnar til að sem flestir fengju óskir sínar uppfylltar. Það var í þá daga. Það sem mér finnst afar skemmtilegt að verða vitni að nú er hve krakkarnir í dag kunna vel að meta þessa sömu tónlist og hve hún eru þeim mikil uppspretta ferskra hugmynda. John Lennon var vafalaust alger rebell en samt sem áður hafði hann í sér sköpunargáfuna, aðlögunarhæfnina og frumkvæðið sem gerði hann sérstakan í annars mjög litríkri flóru tónlistarmanna þess tímabils sem hann lifði.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli