sunnudagur, desember 11, 2005

Hljóp niður í Laugar í morgun og hitti Vini Gullu. Tókum nokkra hringi í Elliðaárhólmanum en svo fóru menn svolítið hver í sína áttina, ég fór upp að litlu brúnni fyrir neðan Fylkisvöllinn og svo enn einn hring í hólmanum og svo heim. Losaði 22 km.

Fór að hugsa um hvað maður horfir oft langt yfir skammt. Maður hefur stundum hugsað með smá öfund til frænda vorra á norðurlöndunum sem geta hlaupið á skógarstígum og skýlt sér nokkuð fyrir veðri. Það er mýkra undir fæti og á ýmsan hátt betra en að hlaupa á malbiki. Síðan fór ég að velta fyrir mér í dag að vitaskuld eigum við þetta hérna. Elliðaárhólminn er náttúrulega stórkostlegur staður. Þar er hægt að rúlla hring eftir hring við kjöraðstæður og þótt menn séu ekki að fara út um víðan völl þar þá hvað með það. Ég þekki Heiðmörkina ekki alveg eins vel en veit af mörgum góðum stígum þar, sem njóta sín sérstaklega vel þegar fer að hlýna á vorin. Hvað er svo verið að öfunda aðra þegar þetta er við fæturna á manni?

Fékk enn eitt bréfið frá Gordy í dag. Var að spyrja hann hvort megaskammtar af C vítamíni hefðu ekki hliðarverkanir. Hann sagðist að fyrst og fremst ykist "gasframleiðslan" og síðan fengi hann smá nýrnaverk en það hyrfi um leið og hann hætti að taka vítamínið.

Fór niður í nýja frjálsíþróttahúsið á laugardaginn. ÍR hélt þar haustmót sitt. Um 300 krakkar og unglingar á aldrinum 8 - 16 ára voru þar að keppa. Það er stórkostlegt að sjá muninn á hinum frábæru aðstæðum í húsinu miðað við það sem áður var. Egilshöllin var reyndar stórt skref fram á við en þetta hús tekur henni langt fram. Íslandsmet féllu á laugardaginn. Mér fannst ansi skítt að sjá ekkert minnst á þetta mót í fjölmiðlum þrátt fyrir að þetta væri fyrsta alvöru mótið í þessu glæsilega húsi og því hefur heldur að engu verið getið í fréttum að íslandsmet hafi fallið. Það er ljóst að gæluíþróttir íþróttafréttamanna ráða því hvað kemur í fréttum og hvað ekki. Oft heyrir maður t.d. ekkifréttir um að hinn eða þessi hafi ekki skorað eða ekki spilað með liðinu. Hvaða ekkifréttamennska er þetta?

Það hefur nokkuð verið talað um UNICEF uppboðið hér um daginn þar sem Roger Moore mætti sem heiðursgestur og nýríkir íslendingar fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína alveg eins og fólkið í útlöndum gerir. Gjöf er eitthvað sem gefandann munar um. Annars er hún ekki mikils virði. Það er annað að taka við gjöf frá einstakling sem maður veit að hefur ekki of mikið milli handanna heldur en frá einhverjum sem maður veit að veit ekki aura sinna tal. Maður hugsar bara til hins síðarnefnda "Af hverju gaf hann ekki meira?". Mér er svo sem alveg sama að fólk sé að sáldra peningum úr vösum sínum en það er alltaf svolítið smáborgaralegt að sjá þörfina fyrir að láta aðra vita af því. Skyldi þessu fólki líða betur yfir að sjá það í blöðunum að það hafi keypt ómálað málverk á 20 m. kr. heldur en það hefði bara lagt sömu upphæð inn á reikning hjá einhverju líknarsamtakanna og ekki sagt neinum frá því. Sýniþörfin er mest hjá þeim sem keypti stöðu veðurfréttamanns á 2,5 m.kr. því hann var að tryggja sér að þá myndu allir vita af því að hann hefði lagt þessa fjárhæð í púkkið. Nema að hann verði með grímu.

Eins er það svolítið banalt að forsetinn sé prímus mótor í einhverju KB dæmi þar sem er verið að halda einhvað einkasamkvæmi með söngvara fyrir útvalda. Vonandi hefur hann skemmt sér vel.

Heyrði í dag viðtal við höfund bókarinnar "Brosað gegnum tárin" þar sem hún sagðist hafa verið svolítið hissa á að kjör stúlkunnar í gær sem Ungfrú Heimur hefði vakið svo mikla athygli hérlendis. Hún hefði haldið að áhuginn fyrir svona keppnun hefði minnkað á liðnum árum. Sem betur fer er öfgafull feminisk umræða sem oft gengur gjörsamlega úr hófi fram ekki búin að drepa niður áhuga landsmanna á góðri frammistöðu enda þótt hún byggi á kvenlegri fegurð og frambærilegum einstaklingum. Sen betur fer er kvenleg fegurð og yndiþokki enn í hávegum hafður og svo verður um alla framtíð. Það er ég fullviss um hvað sem allir öfgamenn eru að þusa. Þeir hafa þó víða lagt sig fram um það. Einu sinni voru bæði kýr og konur lítillækkaðar hérlendis með því að halda því fram að fegurðarsamkeppnir kvenna væru nokkurskonar kúasýningar.

Ég man í þessu sambandi einnig eftir skemmtilegri frásögn Flosa Ólafssonar frá þeim árum þegar hann var upp á sitt besta og var á ferð í Kaupmannahöfn. Hann var í góðum stemmingum að vappa um borgina og gott ef hann var ekki farinn að nálgast Huvudbanegaarden og það sem á bak við hann var þegar hann mætir flokk af sænskum félagsfræðingum kvenkyns sem var á ráðstefnu í borginni, líklega að skilgreina stöðu kynjanna. Hópurinn fór mikinn og var allur eins klæddur, í mussur og flatbotna skó. Flosa varð svo mikið um við þessa sjón að allur lyftingur og léttar stemmingar gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu og hann náði sér ekki aftur á strik fyrr en löngu síðar.

2 ummæli:

kókó sagði...

Segir meira um Flosa en konurnar þar sem frjálsar ástir voru mestar meðal mussukvenna í ilskóm!

Nafnlaus sagði...

Fjölmiðlar þurfa að vita af móti til að hafa möguleika á að segja frá því.
Ég held einfaldlega að mótshaldarar hafi ekki látið neina fjölmiðla vita af þessu, sem er mikil synd því að þetta var mjög gott mót og krakkarnir höfðu rosalega gaman af þessu.