Fór ekkert út að hlaupa í kvöld þrátt fyrir úrvals veður. Var, aldrei slíku vant, svolítið slappur. Vona að það rjátlist út sem fyrst.
Sé að Ásta er farin að bíða eftir nýja barninu sem getur birst á hverri stundu. Það minnir mig á viðlíka stundir þegar mín börn fæddust. Skrautlegast var það þegar yngri strákurinn fæddist. Það var í byrjun febrúar á þeim árum þegar kom svolítill vetur. Sigrún fékk verki seint um nóttina svo ekki var um að villast. Þá var hringt í tengdamömmu sem var farin af sofa laust af spenningi. Hún kom í snatri en eitthvað fór hún fram úr sjálfri sér því hún festi bílinn á miðri götunni. Ég fór út að losa hann, hvað og gekk, og síðan setti ég minn bíl í gang til að hita hann upp. Ég var víst eitthvað óstyrkur líka því þegar bíllinn var kominn í gang, þá læsti ég honum með eina lyklasettið sem til var í svissinum. Nú voru góð ráð dýr. Ég hringdi á lögregluna og spurði hvort þeir gætu opnað fyrir mig bíl þar sem lyklarnir væru læstir inni í honum. Þeir voru heldur tregir til enda skiljanlegt á þessum tíma sólarhringsins og spurðu hvort það gæti ekki beðið til morguns. Þegar ég sagðist þurfa að keyra konuna upp á fæðingardeild hið fyrsta á bílnum þá fylltust þeir skilningi og komu um hæl og opnuðu hann. Strákurinn fæddist svo skömmu eftir að við mættum upp á deild.
Heyrði í fréttum sagt frá einhverri ráðstefnu í Háskóla Íslands þar sem var verið að fara yfir niðurstöður á skoðun kynjahlutfalla í fjölmiðlum, bæði fréttum og auglýsingum. Konunni sem hafði skoðað málið taldi á konur hallað og vildi að hlutfall kynjanna í fjölmiðlum og auglýsingum væri það sama og hlutfall þeirra í þjóðfélaginu. Er þetta nú svo einfalt? Hún sagði að það væri alltof mikið af fréttum af fiskveiðum, slysum og efnahagsmálum og þar væru karlar yfirgnæfandi. Nær væri að flytja fréttir af einhverju öðru þar sem hlutföll kynjanna væru jafnari. Eiga fréttastofur sem sagt að fylla upp í kynjakvóta í hverjum fréttatíma eða í fréttatímum hverrar viku og miða fréttaöflun út frá því. Takk fyrir kærlega.
Ef ég ætti fjölmiðil eða væri að kaupa auglýsingar í fjölmiðlum þá myndi ég hafa fréttaflutninginn og / eða framsetningu auglýsinga nákvæmlega eins og ég teldi að markaðurinn brygðist best við en sjálfsögðu innan gildandi laga og reglna. Einhverjum þrýstihópum kæmi bara ekkert við hvernig ég ræki mín fyrirtæki að þessu leyti. Ef einhverjir segja hinsvegar að það eigi að vera jafnt hlutfall milli kynjanna í fréttum og auglýsingum, hvað þá með aðra. Konur og karlar eru ekki einsleitur hópur. Á að reikna út hlutfall fátækra og ríkra, ungra, miðaldra og gamalla fyrir hvort kynið svo dæmi séu tekin. Á að reikna út hlutfall samkynhneigðra, innflytjenda, hörundsdökkra, fatlaðra o.s.frv. o.s.frv. og flytja fréttir af þessum hópum þjóðfélagsins í hlutfalli við hlutdeild þeirra í þjóðfélaginu. Ef þú segir A, þá kemur B skammt á eftir.
Ég er kannsi ekki svo pirraður út í þrýstihópana, það hefur hver rétt á að halda fram sínum skoðunum. Maður þarf hins vegar ekki að vera sammála þeim. Á hinn bóginn er ég pirraður út í fjölmiðlanna eins og oft áður. Konan sem talað var við sagði að undirtektir undir málflutning hennar hefði verið misjafn á fundinum. Einungis var vitnað í viðbrögð Elínar Hirst sem var búin að kalla til fundar strax eftir helgi um málið. Af hverju var ekki talað við aðra sem eru á andstæðri skoðun? Ríkisreknir fjölmiðlar eiga að vera hlutlausir og birta bæði sjónarmið ef þau eru fyrir hendi þegar fjallað er um einstök mál en ekki koma fram eins og einsleitar áróðursmaskínur. Prívat fjölmiðlar gera hins vegar bara það sem þeir vilja og finnst skynsamlegast út frá rekstrarlegum forsendum.
Fengum Skjáinn í kvöld. Passaði vel því Man. Utd. sigraði Wigan stórt í bresku úrvaldsdeildinni.
miðvikudagur, desember 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þú skrifaðir nýlega hve áberandi væri hvaða íþróttir íþróttafréttamenn fjölmiðlanna gæla við. Engin umfjöllun um stórmót í frjálsum og nýtt hús. Það sama gildir um aðra þætti fjölmiðla eins og fréttir. Fréttir eru þröngt skilgreindar. Viðmælandinn lagði ekki til að hætt væri að flytja fréttum af sjávarútvegi og afbrotum, heldur gaf það sem skýringu en það má vissulega vera fjölbreyttara. Lengi vel var sagt að skýringin væri að konur væru ekki í áhrifastöðum. Nú eru fleiri konur ráðherra, kona formaður næststærsta flokksins og 2 konur varaformenn fjórflokka. Aldrei hafa fleiri konur verið bæjar- og sveitarstjórar og konur eru rektorar tveggja stærstu háskólanna en samt hefur hlutur kvenna í fjölmiðlum ekkert aukist. Hvað þarf þá til?
Skrifa ummæli