sunnudagur, desember 04, 2005

Búin að vera góð hlaupahelgi enda veðrið með afbrigðum gott. Logn og froststirningur svo marrar í spori en engin hálka. Tók góðan hring í hverfinu í gær en fór lengri túr í morgun. Það var LDS með þeim Sibbu og Bryndísi. Morguntúr sunnudagsins var um 25 km. Það var gott að hrista gærkvöldið úr hausnum en sambandið var með jólahlaðborð fyrir starfsfólk og maka austur á Eyrarbakka á laugardagskvöldið.

Það var góð kvöldstund á Bakkanum. Við byrjuðum á því að skoða byggðasafn Árborgar í Húsinu, síðan var farið yfir í Verslun Guðlaugs kaupmanns sem verslaði þar óslitið frá 1918 til ársins 1993 og þar voru framreiddar veitingar. Í byggðasafninu er eftirlíking af brennivínsámu kaupmannsins sem tók 1320 potta. Oft var salan það mikil að það þurfti að fylla á áður en dagurinn var á enda runninn.Þegar Guðlaugur hóf verslun á Bakkanum voru 12 verslanir í þorpinu og þar bjuggu um 1000 manns. Magnús Karel og Inga Lára hafa verið að gera húsið upp og varðveita það til framtíðar. Það er timburhús á þremur hæðum. Það brakaði nokkuð í loftbitum þegar hópurinn var kominn á efstu hæðina. Magnús sagði að þegar Guðlaugur hefði haldið veislur í húsinu þá hefði hann slegið stoðum undir gólfbita á tveimur neðstu hæðunum til að gestir gætu skemmt sér áhyggjulausir á efstu hæðinni.

Ef áhrifamenn á Eyrarbakka hefðu á á sínum tíma getað haft áhrif á hafnargerðina í Reykjavík og flutning biskupsstólsins frá Skálholti til Reykjavíkur en náð honum á Bakkann í staðinn þá væri Reykjavík kannski smáþorp en Bakkinn höfuðborg landsins. Svona geta tiltölulega fáar ákvarðanir haft afgerandi áhrif til allrar framtíðar. Líklega réð betri hafnaraðstaða í Reykjavík úrslitum því Bakkinn liggur fyrir opnu hafi og hafnargerð erfið og dýr.

Síðan var haldið yfir í Rauðahúsið þar sem matur og með því beið. Þetta var fínt kvöld og allir skemmtu sér hið besta. Alveg gleymdi ég að drekka vatnsglas á móti hverju rauðu eins og Gísli segist hafa gert samviskulega en innbyrti rauðvín og koníak af mikilli kostgæfni og hafði engar áhyggjur af morgundeginum enda reyndist það ástæðulaust.

Það er full ástæða til að óska frjálsíþróttum til hamingju með nýja frjálsíþróttahúsið í Laugardalnum. Ég kíkti inn í vikunni þegar ég var að sækja Maríu á æfingu. Þetta hljóta að vera ótrúleg umskipti fyrir iðkendur og þjálfara að fara úr Baldurshaganum yfir í þetta musteri sem býður upp á það bestu aðstöðu sem hægt er að bjóða upp á. Vonandi mun þetta hafa þau áhrif að iðkendum frjálsra íþrótta muni fara fjölgandi en þær hafa átt nokkuð undir högg að sækja vegna mikilla vinsælda fótboltans fyrst og fremst og einnig hefur aðstaðan ekki verið til að draga fólk að.

Engin ummæli: