þriðjudagur, desember 27, 2005

Fór í Fífuna í morgun með Maríu. Hún var þar að spila á jólamóti HK og Blikanna með stöllum sínum í B liði í 4ða flokki. Þær stóðu sig vel og féllu á hlutkesti frá því að komast í úrslitaleikinn. Síðan spilaði hún þar á eftir með A liðinu og þar náðu þær 2. sæti. María er harðskeyttur framherji sem skorar mikið af mörkun. Sprettæfingar hjá Ármanni hjálpa henni vafalaust mikið því hún hleypur flestum hraðar. Gaman að fylgjast með stelpunum hjá Víking og sjá hvað þeim hefur farið mikið.

Tók hring í hverfinu í dag. Tímamótadagur því þar með skreið ég yfir 3000 km hlaupna á árinu eða um tvo hringi umhverfis landið. Að meðaltali eru þetta nær 60 km á viku. Það er það mesta sem ég hef hlaupið til þessa. Þó ber að minna á að það það þarf ekki að fara saman magn og gæði. Þegar Sigurður P. var upp á sitt besta hljóp hann um 4000 km á ári og vafalaust allt gæðaæfingar. Ég hef verið frekar latur í haust en er í góðum gír og til í allt. Áætlun fyrir næsta ár verður birt á nýársdag.

Ég gerðist nýlega áskrifandi að tímaritinu Þjóðmál. Mér finnst akkur að svona tímaritum sem kryfja málin til mergjar á dýpri hátt en dagblöðin megna yfirleitt að gera. Ég furða mig hins vegar á því hvað lítil umræða hefur orðið um þær ágætu greinar sem þarna birtast. Manni finnst að margt af því sem tekið er upp til umræðu í útvarpi og sjónvarpi sé úr slíkum fjaðurviktarflokki að því væri tekið fagnandi ef eitthvað birtist sem krufið væri meir til mergjar. Ég held að lágkúran hafi orðið hvað mest þegar einhver feministinn var fenginn upp í útvarp að diskútera grein sem hún hafði skrifað í Moggann daginn áður en þar lýsi hún því hvað henni hafði orðið illa við þegar hún vaknaði af værum blundi og heyrði rapptexta fluttan (þetta er varla söngur) þar sem komu fyrir orðin motherfucker og bitch. Um þetta var fimbulfambað fram og til baka langa stund. Þegar slíkt rugl er tekið til umræðu í ríkisútvarpi allra landsmanna finnst manni ekki úr vegi að greinar eins og "Innflytjendur og íslam í Evrópu", "Er launamunur kynja blekking?" og "Dagskrárvald Baugs: Saga misnotkunar" séu teknar til umræðu. Aldeilis ekki. Nú ræður þögnin ein. Enda þótt menn séu ekki sammála niðurstöðum er full ástæða til að ræða hlutina út frá fleiru en einu sjónarhorni.

Ég les reglulega nokkrar bloggsíður. Maður finnur fljótt hvar er líklegt að eitthvað áhugavert sé í pottinum. Á aðrar kíkir maður kannski einu sinni í viku. Oft er það of oft. Ein sú best skrifaða bloggsíðan sem ég skoða er síða Össurs Skarphéðinssonar þingmanns. Hann er góður penni, víðlesinn og skemmtilegur. Svo er hann pólitískur. Fyrir nokkrum dögum kom hann inn á mál sem hefur orðið mér umhugsunarefni. Össur er formaður fyrir SPES samtökunum sem hafa að markmiði að safna fjár til að byggja þorp fyrir munaðarlaus börn. Samtökin, sem eru aðeins fimm ára, eru komin vel áleiðis með fyrsta barnaþorpið. Það er í Togo í Afríku. Spes þýðir VON.

Þetta er gott og fagurt markmið. Ég efa ekki að Össur hefur tekið þetta verkefni að sér af sannfæringu og fylgir því eftir af miklum krafti eins og honum er von og vísa.

En hvaðan koma peningarnir?

Tilvitnun í skrif Össurar:

Til þessa hefur mestu munað um rausnarlegt framlag minna gömlu vina í Baugi (!). Ég sótti um styrk í Baugssjóðinn þrátt fyrir að hafa eldað grátt silfur fyrr á árum við það ágæta fyrirtæki. Baugur tók Spes opnum örmum. Það var ekki nóg með að Jóhannes í Bónus tryggði fjármagn í heilt hús, heldur bókstaflega bað hann um að starfsmenn Baugs hefðu forgang um að gerast styrktarforeldrar þeirra 20 barna sem í því munu búa. Þegar hann afhenti fyrsta hluta styrksins hefði hann því getað sagt einsog skrifað stóð í lokum bréfs sem hann fékk einu sinni frá líffræðingi héðan af Vesturgötunni: "You ain´t seen nothing yet!"

Þarna leggur Baugur fram fé úr digrum sjóðum til að styðja gott verkefni þar sem þingmaður og kannski síðar ráðherra er í forsvari fyrir. Nú vil ég taka fram að það skiptir mig einu um hvaða þingmaður væri í þessari stöðu, ég er eingöngu að fjalla um principmál.

Mér kemur í þessu samhengi fyrst og fremst í hug máltækið gamla: "Æ sér gjöf til gjalda".

Það er kannski ekkert svo voða heppilegt að þingmenn eða aðrir stjórnmálamenn séu í forsvari fyrir svona verkefni ef þeir ætla að halda sjálfstæði sínu í bráð og lengd.

Heyrði í fyrradag viðtal við Baltasar Kormák þar sem var verið að ræða um nýju myndina hans. Hann talið um að einhverjir fylltust ætíð skaðagleði ef eitthvað gengi ver en ætlað væri. "Skaðagleði" sagði fréttamaðurinn, "'Eg hef aldrei heyrt þetta orð áður". "Jú ég bjó þetta orð til fyrir skömmu" sagði listamaðurinn. "Það lýsir því ef einhverjir gleðjast yfir óförum annarra". "Frábært" sagði fréttamaðurinn. Ekki meir rætt um það. Í dönsku er t.d. til orðið "skadefryd" sem þýðir gleði yfir óförum annarra. Vafalaust eru til álíka orð í öðrum norrænum og engilsaxneskum málum enda þótt ég þekki þau ekki. Íslenska orðið um svona viðbrögð er "Þórðargleði" sem á rætur að rekja til Árna prófasts Þórarinssonar og kom fram í víðfrægri æfisögu hans sem Þórbergur Þórarinsson skráði. Mér finnst miklu betra að nota hið hefðbundna orð sem við eigum heldur en að þýða erlend orð sem ná meiningunni ekki eins vel og hið gamla.

Nú eru komnir þrír frambjóðendur til fyrsta sætisins hjá Framsóknarmönnum í Reykjavík. Gott, ekki veitir af. Staðan í Reykjavík er náttúrulega alveg hroðaleg samkvæmt skoðanakönnunum. Mér er nokk sama hvort fylgið er 2,5% eða 4,0%. Að flokkur sem vill höfða til miðjunnar skuli hafa þá stöðu í stærsta sveitarfélagi landsins að 96 -97,5% kjósenda finni enga skírskotun með honum er slík staða að það verður að gera eitthvað mjög róttækt til að breytingar verði þar á.

Engin ummæli: