fimmtudagur, desember 22, 2005

Jólasveinarnir hafa tekið nokkuð pláss að undanförnu eftir að presturinn í Borgarfirði hóf að leita sannleikans. Skemmtilegt var að lesa forystugreinina gömlu úr New York Sun í Blaðinu í gær en þar var þetta mál krufið til mergjar í eitt skipti fyrir öll og niðurstaða fékkst. Óumdeild.

Ég minnist þess að í tólf ár samfleitt fór ég á eins oft og ég gat á jólaföstunni í Þjóðminjasafnið og Ráðhúsið með krakkana þrjá, hvern á fætur öðrum, til að sjá jólasveinana. Þetta byrjaði þegar ég var nýfluttur aftur til landsins með Svein og vildi sýna honum þjóðlegheitin. Í upphafi þegar Þjóðminjasafnið fór að láta jólasveinana koma fram voru þetta örfáir foreldrar sem komu með krakkana. Þeir söfnuðust í kringum stigann sem lá upp á aðra hæð þar sem sveinki kom niður og spjallaði við börnin. Síðan fór sjónvarpið að sýna smá innslag frá þessu í fréttunum og það endaði með því að salurinn var orðinn svo fullur að maður þurfti að mæta snemma til að geta séð eitthvað. Jólasveinarnir voru eins misjafnir og þeir voru margir en alltaf var þetta góð tilbreyting og alla hlakkaði til að fara að sjá jólasveinana.
Mér fannst Ráðhúsið aldrei ná sömu stemmingu eins og Þjóðminjasafnið í þessum efnum. Þjóðminjasafnið var meira í stíl. Það tilheyrði að jólasveinarnir spryttu þar fram og það var svo praktiskt að koma ofan af loftinu. Það kom nefnilega fyrir að það sást einhver vera að pukrast fyrir aftan skerminn í Ráðhúsinu áður en jólasveinninn birtist og sá var ekki alltaf klæddur eins og jólasveinn.

Það er fátt verra en að gera upp á milli barnanna á jólunum. Sérstaklega er það slæmt ef þau stærri fá meira en þau minni. Hitt er frekar verjanlegt. Nú hefur kjaradómur gefið sínar gjafir rétt fyrir jólin. Ekki verður betur séð en að þar sé nokkuð ójafnt skipt. Það þýðir lítið í þessu sambandi að vísa í kjaranefnd. Það er svona svipað að réttlæta ójafnar gjafir milli barnanna með því að það sé gert svona í næsta húsi. Mér finnst undarlegt ef kerfið sem niðurstaða kjaradóms byggir á stendur ekki á traustari grunni en svo. Gott að heyra hvað Einar Oddur er samkvæmur sjálfum sér. Ég sá í gær að ýmsir voru að hnussa á bloggsíðum um að það heyrðist líklega ekki mikið í EOK út af niðurstöðu kjaradóms. Karlinn brást heldur betur við og vill bara kalla þingið saman milli hátíðanna til að stja lög á niðurstöður kjaradóms. Líklega skilur enginn alþingismanna betur hættuna á vaxandi verðbólgu en Einar Oddur. Nema ef væri Pétur Blöndal.

Ég sé ekki annað en vankunnandi blaðamenn séu búnir að eyðileggja annars ágætt tæki sem heitir skoðanakannanir. Þær eru ágætt mælitæki til að fá hugmynd um skoðanir fjöldans ef rétt er á málum haldið. Annars eru þær bara ómerkilegt áróðurstæki. Skoðanakönnun byggir á vönduðu en ekki endilega stóru úrtaki þar sem hlutfall þeirra sem sem svara má helst ekki vera undir 75 - 80%. Skoðanakönnum þar sem hlutfall svarenda er 50% er ónýt. Hún segir ekkert um skoðanir fjöldans. Að draga ályktanir af skoðanakönnun sem byggir á slíkum forsendum segir meir um þann sem túlkar niðurstöðuna en niðurstöðuna sjálfa. Ég hef séð birtar niðurstöður úr skoðanakönnun sem byggði á 35% svörun. Það er með ólíkindum hve standardinn er lágur hjá þeim sem vilja kalla sig blaðamenn.

Sá á frétt á visi.is í gær þar sem sagt var að Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur hefðu sameinast Húnavallahreppi. Skyldi "blaðamaðurinn" vita hvar á landinu þessi sveitarfélög eru? Það kannski skiptir ekki máli frekar en svarhlutfall í skoðanakönnunum. Aðalatriðið er að fylla út dálksentimetrana.

Engin ummæli: