mánudagur, desember 19, 2005

Fór ekkert út að hlaupa um helgina, þetta er náttúrulega hálfgerður aumingjaskapur en hvað með það. Maður leyfir sér hann svona einstöku sinnum.

Mér hefur flogið í hug verðmunur á ýmsum hlutum hérlendis og erlendis í sambandi við umræðuna um hve mætti lækka mikið matvælaverð hérlendis ef tollar væru aflagðir á þeim. Nú stendur gengi íslensku krónunnar háttþannig að samanburðurinn er frekar óhagstæður innlendu verðlagi en sama er. Munurinn er það mikill að maður getur ekki annað en horft á staðreyndir. Við feðgar keyptum okkur bassagítar í fyrra frá Bandaríkjunum í gegnum netverslun sem er mjög í stíl við þann sem Paul McCartney lék á hér áður fyrr á árunum. Af hoinum voru greiddir allir skattar og skyldur. Hann kostaði hingaðkominn um 25. 000 kall. Ég sá nákvæmlega samskonar gítar í verslun hérlendis og þar kostaði hann 67 þúsund kall. Nær þrefaldur munur. Lewis gallabuxur kosta 2 - 3000 kall í USA en hérlendis milli 10 og 20 þúsund. Canon myndavél sem kostaði 165 þúsund með einni linsu og litlu korti hjá Hans Petersen kostar 2000 USD (125 þúsund) í USA með þremur linsum, tveimur þrífótum, 4 GB korti tveimur töskum, flassi og ég veit ekki hverju. Svona pakki myndi kosta hérlendis um 300 þúsund kr. Fartölvur eru enn eitt dæmið. Ég skoðaði fartölvur úti í San Francisco í vor. HP tölva með 17" skjá, 2 milj. örgjörva, 80 GB diski og 512 mb vinnsluminni kostaði þar 1200 USD. Með afslætti kostaði hún 1.050 USD eða 65 - 70 þúsund. Hérlendis kostar svona tölva um 180 - 200 þúsund. VSK er 8% í Californíu en 24,5% hér. Ok, þar er smá munur en hann réttlætir ekki þann gríðarlega verðmun sem er á verði á tölvum hérlendis og í Bandaríkjunum. Matvæli eru oft ódýrari í Danmörku en hérlendis. Svo merkilegt sem það er þá eru tölvur einnig miklu ódýrari í Danmörku en hér. Mig minnir einnig í þessu sambandi að tollar hafi verið lækkaðir sérstaklega af tölvum hér í árdaga þegar Albert Guðmundsson var fjármálaráðherra. Vafalaust munu menn segja að í þessum bransa öllum sé gríðarleg samkeppni milli fyrirtækja og álagning sé í algeru lágmarki. Einhvernvegin minnir mig að olíufélögin hafi einnig sagt það þegar samráð á milli þeirra var sem samansúrraðast.
Niðurstaða þessa er að það er margt fleira að skoða í þessu sambandi en verð matvæla.

Ein úr fýluliðinu skrifaði grein í Moggann í gær og hélt áfram að agnúast út í forsætisráðherra fyrir að hafa sent Miss World heillaóskaskeyti. Reyndar gott hjá henni að koma fram undir nafni og halda fram skoðunum sínum. Maður veit þá við hverja er að eiga. Hún var meðal annars að agnúast út í að íslenski fáninn hefði verið notaður í þessu sambandi og taldi það varða við stjórnarskrána sem vanvirða við fánann. Þarna kepptu viðkomandi einstaklingar sem fulltrúar heimalanda sinna. Það var kallað Miss Iceland þegar alheimsfegurðardrottningin var kölluð fram. Vitaskuld er fáninn notaður í þessu sambandi. Samkvæmt þessum stalíniska hugsunarhætti þá hefðu Everest fararnir þrír ekki mátt flagga íslenska fánanum á tindi Mt Everest hér um árið. Haraldur pólfari og félagar hans ekki mátt hafa fánann með í farteskinu við sínar hetjudáðir eða Gunnar bílasmiður ekki mátt hafa fánann á húddinu þegar hann setti hraðamet til og frá Suðurpólnum á dögunum á bílnum sem hann smíðaði. Af hverju hefðu þessir einstaklingar ekki mátt flagga íslenska fánanum samkvæmt framansögðu. Jú, af því hér var um einkaframtak að ræða.
Mér finnst gott að þessar öfgar hafa komið svo rækilega fram í dagsljósið í tengslum við Miss World keppnina. Hvar sem ég sé á þennan málflutning minnst, þá hafa verið settir hníflarnir í hann. Verðskuldað.

Engin ummæli: