Jóladagur að kvöldi kominn. Aðfangadagurinn leið eins og aðrir dagar enda þótt manni hafi fundist þetta vera lengsti dagur ársins hér áður fyrir á árunum. Svo er sem betur fer enn hjá mörgum að mínúturnar eru taldar þar til helgin rennur í garð. Það verður vonandi svo alltaf að litlar manneskjur fyllast óþoli yfir því hve aðfangadagurinn er lengi að líða. Ég sá á bloggsíðu einhvers að hún hafði alist upp við þann sið að opna jólakortin jafnóðum og þau bárust. Síðað hefði hún uppgötvað að það væri meiri stemming yfir því að opna jólakortin á aðfangadagskvöld. Það var alltaf siður í mínu ungdæmi að opna kortin á aðfangadag. Þá var það staðfest af alvöru að jólin voru mætt þegar pabbi fór að opna kortin eftir að komið var inn frá gegningunum, búið að þvo sér og skipta um föt. Ég held þeim sið að opna kortin á aðfangadagskvöld og fer ekki að sofa fyrr en það hefur verið gert. Það er hluti af stemmingu dagsins að fara yfir hverjir senda fjölskyldunni kveðju í tilefni jólanna. Oft fylgja með fjölskyldumyndir sem sýna hvað börnin þroskast og stækka ár frá ári. Ég skil ekki það fólk sem finnst jólakortin skipta engu máli og rífa þau kannski ekki upp fyrr en komið er fram á þrettánda.
Pabbi og mamma voru hjá okkur í gærkvöldi og síðan kom stórfjölskyldan í kaffi síðar um kvöldið. Fyrr en varði var svo komin nótt. Gjafir margar ágætar bárust fjölskyldunni. Krakkarnir gáfu okkur m.a. diskinn með KK og Ellen. Þetta er ein sú besta jólaplata sem ég hef heyrt. Mæli með henni á hvert heimili sem óbrigðulum lykli að jólastemmingunni.
Langaði að taka hring í gær en tími vannst ekki til þess. Fór aftur á móti hring í morgun í rigningu en hlýju veðri.
Mér til undrunar beið kveðja frá Mexíkó í tölvupósthólfinu í morgun. Einhver þarlendur sem hafði verið að surfa á netinu hafði rekist á síðuna og var að þakka fyrir myndirnar sem ég reyni að setja inn flesta daga vikunnar enda þótt viðkomandi skildi ekki neitt í því sem skrifað var. Gaman að því að þær vekji athygli þarlendra. Þarf að rannsaka þetta betur.
sunnudagur, desember 25, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli