fimmtudagur, desember 01, 2005

Fullveldisdagurinn er í dag. Það er hátíðisdagur sem er að mínu mati merkilegri dagur í sögu þjóðarinnar en 17. júní, enda þótt þann dag sé minnst sjálfstæðis þjóðarinnar. Fullveldið var í raun miklu stærri og merkilegri áfangi í sjálfstæðisbaráttunni. Með fullveldinu fengu íslendingar full yfirráð yfir sínum málum fyrir utan utanríkisþjónustuna, Danir gættu enn landhelginnar og Hæstiréttur Dana var æðsta dómvald í landinu. Að öðru leyti var þetta komið. Virðing þessa dags hefur farið minnkandi meðal þjóðarinnar á liðnum áratugum og er það miður. Það var nefnilega síður en svo sjálfgefið að þjóðin fengi fullveldi á þessum tíma. Í sjálfu sér var það á ýmsan hátt órökrétt sökum þess hve þjóiðin var fátæk og vanbúin til margra hluta. Á hinn bóginn var mikill kraftur í þjóðinni og hún vildi takast á við verkefnið sem reyndist rétt ákvörðun. Gott menntunarstig svo sem almennt læsi var meðal annars sá grunnur sem byggt var á til framtíðar.

Það ætti hins vegar að vera mönnum hugfast að sjálfstæði þjóðar er ekki náttúrulögmál. Það getur breyst eins og annað. Austur Þýskaland varð til dæmis gjaldþrota og var innlimað í vestur Þýskaland. Austustu héröðin í Kanada, Nýfundaland og Labrador, Nova Scotia og Prins Edvard Island misstu öll sjálfstæðið rétt eftir seinna stríð. Þau réðu ekki lengur við fjármál þjóðanna og Kanada innlimaði þau eða yfirtók þrotabúið. Efnahagslegar forsendur eru þar á margan hátt svipaðar og hérlendis en á annan hátt betri. Ég hef ferðast um Nýfundnaland og PE og þar kemur manni ýmislegt á óvart. Þetta eru á ýmsan hátt samfélög sem eiga erfitt uppdráttar. Læsi er ekki almennt og ég hef lesið það að það sé varla meir en um 50% íbúanna sem geti lesið sér til gagns. Þegar fólk frá þessum landshlutum kemur hingað í heimsóknir verður það hissa á því hvað þessi fámenna þjóð hér norður í Ballarhafi hefur komið sér vel fyrir.

Tvær greinar í fréttablaðinu vöktu athygli mína í dag. Aðra skifaði Jón Gnarr. Hann fjallaði um ofbeldi kvenna gagnvart körlum inni á heimilunum. Þessari hlið umræðunnar um kynbundið ofbeldi hefur verið sópað undir teppið og meir að segja þegar hana bar á góma í einhverjum umræðuþætti þá voru viðbrögðin þau að það fóru allir að flissa. Kona að lemja kall, hahahahahaha, kanntu annann, hahaha? Gott hjá Gnarr.

Hina greinina skrifaði einhver kona sem heitir Kristín Eva. Henni lá mest á hjarta að skýra frá því hvað hún ætti annríkt. Dagurinn virtist ganga á einum spretti og hvínandi stressi. Flýta sér, flýta sér, flýta sér. Lífið snýst um kapphlaupið mikla. Manni varð bara illt af að lesa svona frsögn. Ég kannast við þetta líferni frá fyrri árum þegar maður hélt að maður væri ómissandi allsstaðar. Svo kom að því að maður hugsaði hlutina upp á nýtt. Nú vil ég ráða yfir eins miklu af mínum tíma og mögulegt er til að geta gert það sem mér finnst nauðsynlegast og þarflegast fyrir mig og mína en læt ekki aðra stjórna því hvernig tímanum er varið. Sjaldnast er þetta álag metið sem skyldi og oft of seint sem fólk áttar sig á því hverju er til kostað.

Við feðgar setjumst nú orðið niður á fimmtudagskvöldum og horfum saman á Bachelorinn. Þátturinn dregur að því maður veit ekki hvað getur komið uppá hjá Steina. "Viltu þessa rós eða ekki?" "Jæja, ég tek hana þá" Þetta er orðið spennandi.

Tók hring í hverfinu í kvöld. Veðrið gott og ætlað til hlaupa. Norðurljósin dönsuðu á himninum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tók akkúrat eftir þessum tveim greinum í Fréttablaðinu líka og sammála með Gnarr. Þurfti aðeins (eiginlega bara verulega) að líta í eigin barm eftir lestur seinni greinarinnar...