föstudagur, desember 02, 2005

Sambandið hélt ráðstefnu um Lýðræðið í dag í tilefni af 60 ára afmæli sínu. Ráðstefnan var ágæt og þokkalega sótt. Fyrirlesarar nálguðust viðfangsefnið frá ýmsum hliðum. Það sem stendur helst eftir hjá mér var sá hluti ræðu Gunnars Helga stjórnmálafræðings þegar hann fjallaði um það hverjir væru virkir í hinu svokallaða íbúalýðræði. Þátttaka í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna á Íslandi er mjög há miðað við þau lönd sem við berum okkur oft saman við. Hún er yfirleitt á milli 80 og 90% á meðan hin norðulö-ndin eru með þátttöku á milli 50 og 65%. Í Bandaríkjunum er hún yfirleitt undir 50%. Á hinn bóginn er þátttaka í kosningum um afmörkuð málefni yfirleitt mikið minni. Í kosningunni um flugvöllinn kusu 35% og í kosningu um hundahald í Reykjavík kusu 13%. Í ræðu GUnnars Helga kom fram að þeir sem væru virkastir á íbúaþingum væru alls ekki þverskurður af þjófélaginu. Það væri yfirleitt vel menntað fólk, oftar en ekki flokksbundnir og með góðar tekjur. Því setti hann fram þáspurningu hvort það væri rétt að svona takmarkaður hlutri af samfélaginu væri að taka ákvarðanir fyrir heildina. Er það lýðræði?

Þessi spurning kemur mér til að hugsa um karlafundinn í Kópavogi í gær. Þar mættu eitthvað um 150 manns. Hverjir mæta á svona fund? Það eru þeir sem ekki hafa annað við tímann að gera, sérstakir áhugamenn um málið og menn sem eiga auðvelt með að fara úr vinnunni á svona fundi. Nú er farið að túlka ályktanir fundarins sem að "karlmenn á Íslandi hitt" og "karlmenn á Íslandi þetta". Ég vil bara þakka kærlega fyrir að einhver fundur áhugamanna um eitthvað málefni í Kópavogi sé að tala fyrir mig og túlka skoðanir mínar í einhverju máli. Ekki í þessu frekar en að einhver hópur karla myndi hittast í Kópavogi og vera sammála um að taka upp dauðarefsingu. Ég er hræddur að það hvini í einhverjum ef ályktanir slíks fundar væru túlkaðar á þann veg að allir karlmenn á Íslandi vilja dauðarefsingu. Á svona fundi koma ekki karlar sem geta ekki fengið sig úr vinnu eða eru að vinna þannig vinnu sem gerir það að verkum að þeir eru allt annarsstaðar á landinu eða út á sjó og svo framvegis. Þess vegna er alveg út í hött að fara að alhæfa um niðurstöður úr umræðum á svona fundi.

Ég hlustaði á útvarpið í gær. Þá var einhver útvarpsmaður sendur út af örkinni að taka viðtöl við karla um hvað þeim fyndist um efnistök og innihald fundarins. Í ljós kom að fæstir höfðu velt þessu fyrir sér af einhverju marki. Einn svaraði dálítið glannalega og sagði að þeir karlar sem hann þekkti vildu helst hafa bjór og stripp þegar þeir hittust. Fréttamaðurinn var greinilega ekki alltof glaður yfir að fá svona svör því þegar hún kvaddi þá sagði hún: "Takk fyrir og gangi þér vel" (og svo kom örstutt þögn og síðan sagði hún) "í slorinu".

Þórir Karl félagi forn lenti í átökum í fyrradag, þegar hann vildi leita réttar síns um að fá að leggja í bílastæði fyrir fatlaða sem ófatlaður strákur hafði lagt í. Þegar sá ófatlaði kom út úr versluninni skammaðist hann sín ekki vitund þegar við hann var talað og endaði með því að sparka í Þóri. Síðan færði hann þau rök fyrir sparkinu að "karlinn hefði ekki einu sinni verið í hjólastól". Þetta er náttúrulega með ólíkindum. Ég verð æ sannfærðari um það að gapastokkurinn er bæði vanmetinn og vannýtt refsitæki. Þórir er búinn að ganga í gegnum ótrúlega hluti vegna baksins sem er ónýtt. Bakið á honum er spengt saman með járnplötum og var það gert framanfrá.

Sá góða umræðu í íslandi í dag um málefni einstæðra feðra. Augu fjölmiðla eru kannski aðeins að beinast að þeim mannréttindabrotum sem hafa verið framin á þeim af tómu miskunnarleysi á liðnum áratugum. Yfirleitt þegar farið hefur verið að tala um þessi mál þá hefur verið ráðist á ákveðnia einstaklinga úr hópi feðranna og þeir sakaðir um vanrækslu og og skeytingarleysi gagnvart börnunum og síðan alhæft fyrir hópinn allann. Mjög þekkt aðferðafræði þegar málefnaleg og efnisleg rök mega ekki komast að í umræðunni.

Setti nokkrar myndir inn á myndahlekkina. Bæði þær sem ég tók af tjörninni í vikunni og síðan aðrar sem ég fann á vefnum af hlaupaleið í gegnum Grand Canyon. Bandarískur hlaupari hljóp 42 mílna leið í gegnum gljúfrin um miðjan nóvember og tók myndir í leiðinni. Hann var um 12 tíma á leiðinni enda hækkun og lækkun í heildina um 3300 metrar. Þarna væri gaman að taka LSD sunnudagstúr.

Engin ummæli: