Það hefur átt sér stað nokkur umræða að undanförnu um breytingar á Rás tvö. Það hefur verið gefið út að það eigi að gera Rás tvö þannig úr garði að hún hæfi "unga" fólkinu betur en rás 1 verði svona fyrir miðaldra fólk og þaðan af eldra. Ég man þá tíð þegar Rás tvö var ung rás og átti að höfða sérstaklega til unga fólksins. Þá var svokallaður vinsældalisti spilaður dag út og dag inn og þótti ekki merkilegt dagskrárefni. Staða rásarinnar breyttist hins vegar gríðarlega til batnaðar þegar var farið að setja meiri metnað í dagskrárgerð og þannig meira kjöt á beinin. Gott ef það var ekki á þeim tíma þegar Stefán Jón kom heim úr námi. Nú skiptir það mig engu máli hvort ég hlusta á Gest Einar með "grátt í vöngum" á Rás 1 eða Rás 2. Það er í mínum huga engin niðurlækkun að vera fluttur yfir á rás 1 og stilliskrúfan á tækinu er mjög einföld í notkun. Það sem mér finnst hins þegar skrítið að einhverjir menningarvitar uppi í útvarpi telji að þáttur Gests Einars (alias tónlistin frá gullaldartíma rokksins) höfði ekki til ungs fólks. Það ungt fólk sem ég kannast við og hefur áhuga á tónlist, sem er kannski ekki margt en þó svona dálítið, sækir hugmyndir og innblástur nákvæmlega í þessa tónlist frá árunum 1964 - 1970. Aðdáun á henni er sko alls ekki bundin við fólk á mínum aldri sem ólst upp við hana heldur er stór hluti af þessum lögum klassískar perlur sem eru tímalausar. Það er meira en hægt er að segja um margháttaða tónlist sem fylgdi þar á eftir. Tónlist þessa tíma er toppurinn og það er enginn embætttismaður uppi í útvarpi sem segir unga fólkinu hvað því finnst gaman að hlusta á eða skilgreinir það nákvæmlega. Þetta kemur allt í ljós.
Strákarnir í 2. flokki Víkings í handbolta spiluðu við jafnaldra sína í Stjörnunni í gærkvöldi og unnu góðan sigur. Þeir hafa staðið sig vel í vetur og eru til alls líklegir. Nú er hins vegar jólaprófahrinan byrjuð þannig að það verður alvaran sem fengist er við á næstu vikum.
þriðjudagur, desember 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli