Er jólasveinninn til? Stórt er spurt. Vitaskuld er jólasveinninn til. Það þarf ekki annað en að litast um á jólaföstunni til að sannfærast um það. Þeim bregður fyrir á ýmsum stöðum, oft mörgum saman. Þarf frekar vitnanna við? Hvar þeir búa er svo annað mál. Hvort það er í Esjunni, á Norðurpólnum eða í Finnlandi skal ég ekki segja um. Búferlaflutningar hafa aukist svo á seinni árum að það er erfitt að henda reiður á búsetu allra. Prestur á Vesturlandi hefur komist í fjölmiðla vegna þess að hann hefur sagt yngstu meðlimum safnaðarins að jólasveinninn sé ekki til. Rökin sem hann færir fyrir þessu er að hann vilji ekki skrökva að börnunum. Þegar maður er búinn að segja A verður oft að segja B í beinu framhaldi. Ég er hættur að reyna að telja krökkunum mínum trú um að það sé allt satt í gömlu þjóðsögunum frá Austurlöndum nær sem þau verða að læra í grunnskólanum. Krakkar eru skynugir og það þýðir ekkert að reyna að telja þeim trú um að eitthvað sé satt og rétt sem stangast á við almenna rökhyggju. Jólasveinninn er allt annað. Hann er hluti af jólunum og aðdraganda þeirra. Jólin eru venjur og siðir, þau eru lykt, þau eru stemming, Þau eru ljósadýrð, þau eru eftirvænting, þau eru hátíðleiki. Það greinir þau frá öðrum helgum þar sem fólk gerir sér dagamun. Það er enginn vandi að tilreiða góðan mat og gefa hvort öðru gjafir en fyrrgreind stemming gerir þau frábrugðin öðrum hátíðum.
Ég man eftir tveimur dæmum um nærveru jólasveinsins frá því að krakkarnir voru yngri og við bjuggum fyrir norðan. Í annað skiptið var ég að koma keyrandi frá Akureyri austur til Raufarhafnar að kvöldlagi á jólaföstunni og hringi heim. María svaraði og hjá henni var staddur lítill vinur hennar. Mér datt í hug að kynna mig sem jólasveininn og talaði við þau nokkra stund sem slíkur og kvaddi svo með tilþrifum. Þegar ég kom austur biðu mín aldeilis fréttirnar. Jólasveinninn hafði hringt og talað við krakkana. Slíkur viðburður hafði ekki gerst áður í þeirra lífi.
Í hitt skiptið vorum við að búa okkur af stað suður í jólafrí. Áður en við lögðum af stað skrifaði yngri strákurinn á miða og setti í alla glugga: "Er ekki heima!"
Hér áður var ég ekki sérstaklega hrifinn af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Skoðanir hans fóru yfirleitt ekki saman við skoðanir vinstri manna á þeim árum. Á seinni árum hefur mér fallið æ betur við málflutning Hannesar. Hvort það er sökum þess að ég hugsa öðruvísi eða hann er hófsamari skal ég ekki segja um nema hvortveggja sé. Hann er ekki einhamur verkaður. Nú síðast réðst hann í það stórvirki að rita sögu Halldórs Kiljan Laxness. Það eitt að hann myndi gera það var næg ástæða þess að öldur risu. Miklar deilur risu eftir að fyrsta bókin kom út og viðurkennd Hannes ákveðin mistök við ritun hennar. Það mál er nú fyrir dómsstólum og fær þar réttláta niðurstöðu. Nú er síðasta bókin komin út. Ég hef ekki lesið hana nákvæmlega en flett henni nokkuð. Atygli vekur að heimldaskrá er jafnþykk meðal reifara. Það hefur vakið nokkra athygli að í bókinni kemur það fram í fyrsta sinn að Gunnar Gunnarsson skáld var búinn að fá tilkynningu um að hann hefði verið útnefndur til nóbelsverðlauna árið 1955. Hópur íslendinga sendi þá skeyti til nóbelsnefndarinnar og taldi óhæft að maður sem hefði verið sakaður um daður við nazisma væri útnefndur til slíkra verðlauna. Nefndin dró þá tilnefningu sína til baka enda þótt hún hefði verið kynnt Gunnari persónulega. Má leiða líkur að því hvílíkt áfall það hefur verið fyrir Gunnar. Svo merkilegt sem það er þá hefur þetta ekki komið fyrir almenningssjónir fyrr en nú. Að mínu mati eru þessar upplýsingar næg réttlæting fyrir því að bækurnar voru skrifaðar og þannig betur af stað farið en ekki. Merkilegt má teljast að Halldór Guðmundsson hafi ekki minnst á þetta atriði í sínu verki sem kom út fyrir skömmu.
Gunnar hefur verið mjög merkilegur rithöfundur á sínum tíma. Hann brýst úr sárri fátækt til Danmerkur og nær þar slíku valdi á ritstörfum og máli landsins að hann verður þar mest lesni rithöfundur þjóðarinnar. Í Þýskalandi kom hann næstur á eftir Göthe. Í forbifarten má minnast á Kristmann Guðmundsson sem braust sömu leið og Gunnar, úr sárri fátækt hér heima til ritstarfa á erlendri grund. Hann varð með mest lesnu rithöfundum í Noregi og Danmörku á sínum tíma. Menningarelítan hér heima taldi hann hins vegar aldrei vera almennilegan rithöfund.
þriðjudagur, desember 20, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli