föstudagur, desember 09, 2005

Ég sá nýlega í einhverju dagblaðanna sagt frá því að það hefði verið gerð könnun á viðhorfi almennings gagnvart verðbólgu í þjóðfélaginu. Tæp 40% höfðu engar áhyggjur af því að verðbólga færi að hrjá þjóðfélagið. Ætli það sé ekki svipað stór hluti þjóðarinnar sem var ekki kominn til vits og ára þegar tókst að rétta kúrsinn í þjóðfélaginu með þjóðarsáttarsamningunum í kringum 1990 og færa hagstjórn í áttina til vitræns samfélags.

Verðbólgan blossaði upp eftir stjórnarskiptin 1971 þegar vinstri stjórnin tók við völdum. Þá tók við stjórn sem vildi gera margt fyrir flesta og jók peningaprentun hömlulaust. Peningaprentun er það kallað, til nánari upplýsingar, þegar peningamagn í umferð í þjóðfélaginu er aukið án þess að um raunverulega verðmætaaukningu hafi verið um að ræða. Þessi stjórnarstefna kostnaði 20 ára slag við verðbólguna með tilheyrandi kaupmáttarskerðingu og öðrum afleiðingum. Almenningur, sem hafði enga möguleka til að bera hönd fyrir höfum sér, fór vert af öllum út úr þessu. Sparifé hans var gert upptækt blygðuanrlaust. Ég minnist þess til dæmis að ég fór á fund með Ólafi Jóhannessyni, þáverandi dómsmálaráðherra, árið 1977 vestur í Stykkishólmi. Á fundinum stóð upp Björn á Kóngsbakka og kvað vel í veiði að ná tali af dómsmálaráðherra því hann hefði verið rændur. Hann hefði fyrir þremur árum lagt inn í banka sem svaraði andvirði 7 fullorðinna nautgripa. Síðan hefði hann tekið upphæðina út úr bankanum fyrir stuttu síðan og þá hefði hann ekki fengið meira fé í hendur en sem svaraði verðmæti 7 smákálfa. Þetta kallaði hann rán. Ólafi vafðist eðilega tunga um tönn og gat fáu öðru svarað en að svona væri þetta bara!!

Á þessum árum var það kennisetning vinstri manna að launahækkanir væru ekki orsök verðbólgunnar heldur væru þær eðlileg leiðrétting gagnvart hækkuðu verðlagi. Hagstjórnarþekking þessara manna var fyrir neðan frostmark. Því voru ætíð knúnar í gegn eins miklar hækkanir launa eins og lifandi mögulega var hægt og svo var gengið fellt daginn eftir að samningar voru undirritaðir. Þetta var vítahringur sem snerist hraðar og hraðar. Verst af öllu var ástandið í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thor. Þar sátu menn bara til að sitja. Verðbólgan sló yfir 100% þegar leið að lokum valdasetu hennar. Án þess að ég geti sannað það eða hafi rannsakað það þá held ég að á þessum árum hafi þjóðfélagið komist næst því að missa sjálfstæðið. Efnahagskerfið var orðið svo sjúkt að það dugði ekkert nema fantaaðgerð til að fá sjúklinginn til að fara að draga andann. Klippt var á samband verðlags og launa með lögum í 30% verðbólgu. Margt fólk sem stóð illa í spori, var t.d. í húsbyggingum og skuldsett, missti allar eigur sínar. Sumt hrökklaðist úr landi. Þrátt fyrir að þetta hafi verið hrossalækning þá held ég að hún hafi verið nauðsynleg.

Þessi ríkisstjórn, sem var undir forsæti Steingríms Hermannssonar, þorði þó að taka á málunum og reyna að stýra fleyinu út úr brimgarðinum enda þótt það kostaði áföll. Betra að nokkrir færu en allir. Upp úr þessu var smám saman hægt að ná tökum á hagstjórn samfélagsins. Með þjóðarsáttarsamingunum árið 1990 varð grundvallarbreyting á viðhorfi og afstöðu aðila vinnumarkaðarins og annarra aðila sem málið varðaði gangvart kjarasamningum. Það var ekki samið um hærri launahækkanir en verðmætasköpunin leyfði. Uppskeran lét ekki á sér standa. Á síðasta áratug hefur verið samfellt góðæri og kaupmáttur allra aukist gríðarlega, atvinna verið mikil og góð. Eðlilega hafa verið miklar breytingar á samfélaginu því þjóðfélagsgerðin hefur verið að breytast sem hefur verið forsenda þeirra framfara sem átt hafa sér stað. Enda þótt vel ári um þessar mundir þá getur maður ekki annað en litið um öxl og svipast eftir hvort gamli óvætturinn sé nokkurs staðar á stjái, ekki síst þegar menn hvorki hugsa um tilvist hennar eða eru jafnvel að ragmana hana fram á sviðið. Það er nefnilega svo að ef menn gleyma tilvist verðbólgunnar eða telja sig ekkert þurfa um hana að hugsa meir og hvað þá varast hana, þá er það með hana eins og aðrar forynjur. Hún bíður bak við næsta húshorn og tekur mann þegar minnst varir.

Eða eins og Megas söng:

Það var barn í dalnum sem datt niðrum gat
Þar fyrir neðan ókindin sat

Engin ummæli: