Dóri afabróðir minn var jarðsunginn í dag, orðinn 87 ára gamall. Hann var einn af 10 systkinum sem fæddur var á Móbergi á Rauðasandi vestur og var afi heitinn einn af þeim. Dóri var alinn upp af móðursystkinum sínum í Kirkjuhvammi frá sex ára aldri en þá lést faðir hans. Siggi er nú einn eftir lifandi af þessum stóra hóp, 94 ára gamall. Hann var vitaskuld í jarðarförinni og fylgdi bróður sínum til grafar, ern og vel á sig kominn. Helst sagðist hann vera farinn að heyra aðeins ver en annars væri hann alveg eins og áður. Það er ein af bernskuminningunum í árdaga þegar systkini afa og þeirra fjölskyldur komu af og til í sveitina á sumrin til að hitta frændfólkið og rifja upp gamlar minningar frá uppvaxtarárum sínum á Rauðasandi. Sumt kom oft, annað sjaldnar eins og gengur. Í huga þeirra var bjart yfir uppvaxtarárunum á Sandinum enda þótt efnin hafi ekki alltaf verið mikil. Nú orðið er það helst að maður hittir ættbogann við jarðarfarir og svo á ættarmótum, alla vega þann hluta hans sem liggur aðeins fjær.
Nú er fýluliðið komið á kreik. Staðalímyndarráð feministafélagsins sendi frá sér fréttatilkynningu í dag og gerði athugasemd við það að forsætisráðherra hefði sent stúlkunni sem varð ungfrú heimur í Kína á laugardaginn heillaóskaskeyti í nafni íslensku þjóðarinnar. Tekið var viðtal við fulltrúa þeirra a.m.k. í útvarpinu (rás 2). Staðalímyndarráðið sagði að heillaóskirnar væru ekki sendar í sínu nafni og því væri skeytið ekki sent í nafni íslensku þjóðarinnar. Eitt er að svona þrönghyggjujaðarhópar hafi sínar skoðanir, það er hverjum og einum frjálst. Annað er að fjölmiðlar hlaupi eftir hverju og einu sem þeir láti frá sér fara og komi því umyrðalaust á framfæri, það finnst mér ekki sjálfsagt. Það var helst að skilja á staðalímyndarfulltrúanum að árangur stúlkunnar í Kína á dögunum myndi í bráð og lengd koma í veg fyrir að kona yrði forsætisráðherra þjóðarinnar. Þetta er svona svipað og ef Þórey Edda yrði ólympíumeistari í stangarstökki og forsætisráðherrann sendi henni heillaóskaskeyti í tilefni afreksins fyrir hönd þjóðarinnar. Þá myndu áhugamenn um glímu setja upp fýlusvip og segja að skeytið væri ekki sent fyrir þeirra hönd því með því að halda fram árangri stangarstökkvara væri verið að draga úr möguleikum þess að landsmenn festu áhuga við að horfa á og stunda glímu, sjálfa þjóðaríþróttina. Ætli einhver fjölmiðill myndi hlusta á svona lagað rugl? Ég held ekki. Á meðan staðalímyndarráð feministafélagsins er á móti fegurðarsamkeppnum þá er ég mikill áhugamaður um fegurðarsamkeppnir sem og að kona verði forsætisráðherra en bara ekki hvaða kona sem er.
Lengi getur vont versnað. Nú er ég búinn að finna þann sem slær út Silvíu Nótt. Silvía bara bliknar og er eins og kettlingur í tilbúningi bjánahrolls í samanburði við þann nýfundna. Hver hann er verða menn bara að giska á. Ég er samt ekki að setja upp getraun.
mánudagur, desember 12, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sérðu virkilega ekki mun á því að ná árangri með mikilli elju eða með því að vera í minnsta bikiníinu? Hvernig væri ef einhver myndi vinna Þóreyju Eddu í stangastökki fyrir að vera í "flottari búning" þó hún stykki styttra?
Það að þykjast vera að safna fé fyrir fátæka í nafni fegurðar þegar umgjörðin um þessa keppni er líklega mun kostnaðarsamari en þær upphæðir sem safnast fyrir fátæka.
Skrifa ummæli