fimmtudagur, desember 15, 2005

Það var dálítið óhugguleg frásögn í Mogganum í morgun. Gamli Höskuldur, afi Höskuldar vinar Sveins, hafði verið niður á Kanarí í haust með konu sinni. Það gerist þar að hann dettur og beinbrotnar, bæði á hendi og mjöðm. Þau vissu ekki annað en að þau væru með allar tryggingar vegna ferðarinnar sem hægt væri að taka og þar undir slysatryggingar. Engu að síður tók þrjár vikur að ná honum heim svo hratt sé farið yfir sögu. Viðbrögð tryggingafélagsins hér heima var með ólíkindum. Viðbrögð þess voru að vísa aðstandendum á eitthvað enskt tryggingafélag sem þeir hafa líklega keypt trygginu hjá og þar þurftu synir hjónanna að feta sig áfram eftir refilstigum tryggingakerfisins. Upplýsingar þurfti að toga út með töngum við hvert fótmál. Ekki var hægt að gera nauðsynlegar aðgerðir á Höskuldi fyrr en heim var komið eða eftir þrjár vikur vegna alls þessa. Það er sem sagt ekki nema fyrir harðsvírað og þrautreynt fólk að fást við að leita réttar síns gagnvart tryggingafélögunum því að í tilfelli sem þessu var ekkert gefið uppi sem gat létt undir með fólki að greiða úr aðstæðum.

Sé mér til mikilar ánægju að það eru fleiri en ég sem hneykslast á öfgajaðarhópi feminstafélagsins vegna viðbragða þeirra við heillaóskaskeyti forsætisráðherra til Unnar, fegurstu konu heims um þessar mundir. Það er ekki nema eðlilegt að venjulegu fólki blöskri svona fýlupokarugl. Nú síðast sá ég að þær voru að fjasa út af því að þær fengu ekki jafn mikið pláss í Mogganum eins og lagt var undir umfjöllun um keppnina sjálfa og sigurvegara hennar. Er þetta lið stjúpit? Hvað á maður að halda? Sem betur fer liggja ekki allir fjölmiðlar jafn marflatir eins og ríkisfjölmiðlarnir gagnvart svona jaðarskoðunum.

Sá í blöðunum í dag að Finnsk stjórnvöld ætla að fara sænsku leiðina og banna vændi. Af hverju skyldu þeir ekki banna bæði fátækt og atvinnnuleysi svona í leiðinni fyrst þeir eru í banngírnum yfir höfuð og virðast trúa því að bönn leysi það sem þeir skilgreina sem vandamál. Ég er alfarið á móti þessari sænsku leið. Mér finnst hún vera óraunhæf og ekki vera á neinn hátt lausn á því sem sæsnk stjórnvöld skilgreina sem vandamál. Ég hef kynnt mér málflutning Petru Östergren, sænsks feminista og raunsæismanneskju. Hennar skoðun var að sænskar yfirstéttarkonur, sem aldrei hefðu kynnt sér málefn i sænskra vændikvenna, hefðu talið að þessi fix aðferð myndi koma svíum í fyrirsagnir í heimspressunni. Loks hefðu svíar tekið alheimsforskot í einhverjum hlut á nýjan leiki.
Hérlendis er bannað að hafa framfæri sitt af vændi. Hvaða rök eru nú fyrir því? Ég bara sé þau ekki. Ef einhver manneskja, karl eða kona, telur aðstæður sínar vera þannig að vændi sé valkostur í einhverri stöðu, þá er það bara þannig. Það sem er fyrst og fremst refsivert í þessum málum er að einhver hafi aðra manneskju að féþúfu í gegnum vændi. Það er nú eitt ruglið í þessari umræðu að það er alltaf talað um vændi eins og það sé einvörðungu bundið við konur. það er hin mesta firra. Ég sá sl. vetur tölur um að það væru fleiri strákar á framhaldsskólaaldri sem seldu sig heldur en stelpur.

Þeir sem vilja banna vændið segja að það sé eftirspurnin, kúnnarnir, sem skapi vændið. Án eftirspurnar væri vændið ekki til. Það má alveg eins fullyrða að án framboðs væri vændið ekki til. Áður en sjónvarpið kom til sögunnar, þá langaði engan í sjónvarp. Framboðið bjó til eftirspurnina. Svo er um allar nýjungar. Ég geri ráð fyrir að það sé svipað um vændið. Ef ekkert framboð er af því, hver er þá eftirspurnin? Alla vega finnst mér að það sé ekki hægt að fullyrða neitt í þessum efnum á hvorugan veginn.

Síðan er það sænska aðferðin. Ég fylgist nokkuð vel með sænsku pressunni. Hafi einhver látið sig dreyma um að vændi myndi minnka í Svíþjóð eftir að bannlögin voru sett á, þá er það reginmisskilningur. Það hefur hins vegar breyst. Það er komið á netið, inn í hús, undir yfirborðið. Staða þess fólks sem er í þessu, er ef eitthvað er, miklu verri en áður. Hið félagslega öryggis- og eftirlitsnet sem var fyrir hendi áður þegar fólk var á götunum er horfið. Öfuguggar og glæpamenn eiga mun auðveldara með að þjóna lund sinni eftir en áður. Er það sú leið sem stjórnvöld vilja fara?

Þingnefndin sem hefur fjallað um þessi mál hérlendis er klofin. Vonandi nær hún ekki saman um að fara sænsku leiðina. Alla vega ætti hún fyrst að leggja til að fella úr gildi lög þess efnis að það sé refsivert að stunda vændi.

1 ummæli:

kókó sagði...

Það er EKKERT framboð af börnum sem vilja vera misnotuð, samt eru til barnaníðingar...