föstudagur, desember 23, 2005

Nú er sólin farin að hækka aftur á lofti. Munar lítið en munar þó. Ekkert sólstöðuhlaup var í ár enda erfitt um vik þegar vetrarsólstöður eru inni í miðri viku. Ég hitt kunningja minn á förnum vegi í fyrradag þegar ég var að fara með kortin á pósthús. Hann hefur verið einn af burðarásunum í Ásatrúarfélaginu um langan aldur en er eitthvað farin að hægja á sér. Ásatrúarmenn halda sólrisuhátíð á vetrarsólstöðum eins og komið hefur fram í fréttum. Ég hef tvisvar farið á slíkar samkomur. Önnur var ágæt. Hún var haldin í Stúdentakjallaranum og etið hangikjöt og uppstúf. Kunningi minn ásatrúarmaðurinn fór yfir margt á skömmum tíma og meðal annars yfir tilurð jólanna. Þau eiga rætur sínar að rekja allt aftur til ásanna. Vitaskuld er það eðlilegur hlutur að það sé haldin hátíð þegar sól fer að hækka á lofti og merki sjást um að veturinn og myrkrið láti undan síga. Síðan hefur margt gerst í aldanna rás og kristnir menn hafa eignað sér jólin með því að ákveða að fæðing frelsarans hafi akkúrat borið upp á þennan tíma. Sama er en ég sá það þann vetur sem ég dvaldi í Rússlandi hve mikið vantar þegar tilbreytingin er engin í skammdeginu sem kemur meðal annars af skreytingum og tilstandi margháttuðu sem tilheyrir jólunum.

Ánægjulegt er að sjá að skokkurum hefur verið úthlutað tímum í frjálsíþróttahöllinni nýju. Það skiptir gríðarlegu máli að geta farið þarna inn tvisvar í viku yfir veturinn og telkið æfingar við bestu aðstæður.

Nú verður skötuveisla í kvöld hjá Önnu systur. Hún hefur lengi boðið fjölskyldunni heim á þorláksmessu í skötu. Það er mjög gaman að borða svona karaktersterkan mat sem maður gerir í sjálfu sér alltof sjaldan. Ég minnist þess frá þeim tíma þegar ég bjó út í Danmörku að ein jólin var ég að fara heim vestur á firði. Vegna erfiðleika með flug fór varðskip með skólafólk vestur og skilaði því á firðina. Ég hafði búið á dönsku kollegíi um hausti og borðað þennan karakterlausa en annars ágæta danska mat (svínakjöt, kjúkling, flatfisk með remúlaði, bjúgu o.s.frv.). Í sjóferðinni vestur var heldur illt í sjóinn þannig að maginn var ekki upp á það besta á leiðinni. Við komuna til Patreksfjarðar fór ég í heimsókn til frænda míns og konunnar hans. Þau gáfu mér að borða eftir vistina á hafinu og ég held ég gleymi aldrei hvað mér fannst maturinn góður. Á borðum var það besta sem hægt var að hafa af þessum hefðbundna bragðsterka mat; hangikjöt, skata, sviðasulta, saltkjöt, hveitikökur, rúgbrauð og smjör og ég man ekki hvað. Eftir að bragðlaukarnir höfðu haft heldur lítið fyrr stafni seinni hluta ársins og maginn tómur eftir sjóferðina þá var það þvílík upplifun að fá þennan bragðmikla mat að maður fær enn vatn í munninn við tilhugsunina.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hi, I don't know your language but your pictures are really nice! Hi from Mexico!