fimmtudagur, desember 29, 2005

Næst síðasti vinnudagur ársins. Hann leið án stórátaka en það var dundað við eitt og annað. Það er merkilegt hve árin líða hratt núna eins og manni fannst þau vera lengi að líða hér áður. Hvert ár var heil eilífð en nú er hvert þeirra varla byrjað þegar það er á enda runnið. Mestu máli skiptir þó að enda þótt árin líði hratt þá eru þau býsna góð og fara batnandi ef eitthvað er á svo margan hátt.

Ég er ekki alveg að ná því sem máli skiptir í umræðunni um Kjaradóm. Vafalaust fer hann eftir þeim reglum sem honum er gert að vinna eftir. Ef stjórnvöld eru ósátt við niðurstöður dómsins þá þarf að breyta reglunum. Það er út í hött að ætla honum að taka upp fyrri úrskurð sinn ef ekki er hægt að benda á dæmi þess að rangt hafi verið reiknað. Þá er þetta ekki lengur kjaradómur heldur reikniverkfæri ríkisstjórnar hverju sinni. Þá er eins gott að fela góðum excelmanni í fjármálaráðuneytinu að reikna út hækkanirnar.

Ég tek hins vegar undir áhyggjur þeirra sem eru hræddir að það séu ýmis hættumerki á vinnumarkaði. Það þarf mjög lítið til að það fari alger hringavitleysa af stað. Dæmi um það sjást í Kópavogi þar sem blásið er á nýgerða samninga og farið að krefjast hærri launa. Stéttarfélög viðkomandi stétta kynda undir umræðuna og skipuleggja hana enda þótt þau segi formlega að það ríki friðarskylda. Fjölmiðlar gera síðan eins mikið úr því sem betur mætti fara eins og mögulegt er. Ég man ekki eftir að hafa heyrt hvað það vanti hlutfallslega marga leikskólakennara í Kópavogi enda þótt ástandið sé erfitt þar sem vantar fólk. Er neyðarástand enda þótt vanti 5% starfsmanna í leikskólum eins sveitarfélags? Þarf að hækka laun allra til að ná að manna þessi 5% sem eru ómönnuð? Á það ber að líta að það er háspenna á vinnumarkaði og spurning hvort sveitarfélögin geti alltaf og ævinlega fylgt toppunum í launaskriðinu upp í efstu hæðir hverju sinni. Þetta er vandi þeirra sem eru að fást við að reka sveitarfélögin í ástandi eins og nú ríkir. Spurning er hvenær á að hífa og hvenær að slaka?

Fór góðan hring í hverfinu í kvöld. Finn að kílóunum hefur aðeins fjölgað síðustu viku. Það eru fín kjör sem Frjálsíþróttahúsið bíður upp á fyrir skokkara. Þúsund kall á mánuði fyrir aðgengi að sal og lyftingagræjum. Þetta er miklu betra en að kaupa sér árskort. Ég keypti mér eitt slíkt í janúar og notaði það fram í mars, en þegsar fór að hlýna þá nennti ég ekki lengur að pjakka inni.

Engin ummæli: