miðvikudagur, desember 07, 2005

Heyrði í útvarpinu í dag frásögn af ferð Hróksmanna til Grænlands. Þeir eru komnir til þorpsins sem liggur rétt fyrir norðan Angmaksalik. Þar er verið að afhenda 500 töfl sem Hrafn forseti Hróksins safnaði fyrir með maraþontaflmennsku í Kringlunni fyrr í haust. Gaman var að heyra áhugann sem ferð þeirra hefur vakið. Grænlensk börn sitja nú að tafli dag út og dag inn í skólunum og kennararnir og skólastjórnendur hrífast með. Grænlendingar eru miklir spilamenn og töfrar skákarinnar eiga vafalaust greiða leið inn í sálarlíf þeirra. Starf Hrafns og þeirra Hróksmanna þarna er sérstakt og til mikillar fyrirmyndar. Nú var Piterak í þorpinu og þá er eiginlega ekki hundi út sigandi, frost og vitlaust veður.

Fékk skólanámsskrána í skóla Maríu í dag. Fletti henni í gegn og rak meðal annars augu í kynlegt kynjahlutfall starfsmenna.
Af níu stjórnendum eru 7 konur.
Af 20 umsjónarkennurum er enginn karl.
Af 22 öðrum starfsmönnum eru 17 konur.
Ég er ekki viss um að þetta kynjahlutfall starfsmanna í grunnskóla í sé alveg það heppilegasta með fullri virðingu fyrir þeim starfsmönnum sem ráðnir hafa verið til starfa við skólann. Það er kannski við stóran að deila en svona er þetta.

Skoðaði betur bréf Gordys. Hann segir að dýralæknar hafi hér áður farið að taka eftir því að Selengjöf í hesta fyrir hestaþolreið hafi gert það að verkum að það dró úr vöðvaskemmdum hjá hestunum í þessum hestaþolreiðum sem meðal annars hafi birst í "brown water" eða dökku þvagi. Selengjöf gerði það að verkum að vöðvaskemmdir urðu minni og þvag hestanna því ekki eins dökkt. Selen er meðal annars notað hérlendis í sauðfjárrækt til að draga úr hættu á stíuskjögri hjá vorlömbm sem hafa verið lengi á húsi. Gordy fór að nýta sér þessar niðurstöður sem gamall hestaþolreiðarmaður og tekur nú um 50 Mg/á dag í vikunni fyrir ultrahlaup.
Hann sagðist hafa farið að velta C vítamín notkun eftir að hann sá niðurstöður tilraunar frá því á sjöunda áratugnum þar sem gerðar voru rannsóknir á áhrifum C vítamíns á mýs og hve C vítamínið jók hæfni músanna til að standast álag. Músunum voru gefnir misstórir skammtar af C vítamíni og svo var athugað hve lengi þær gátu synt áður en þær sukku (en þá var þeim svipt upp úr!!!). Mýsnar sem fengu ekkert C vítamín gátu synt í ca 2,5 klst. Mýsnar sem fengu dálítinn skammt af C vítamíni gátu synt í um 5 klst en mýsnar sem fengu mega skammt af C vítamíni syntu stanlaust í 12 klst en þá voru þær teknar upp úr því rannsóknafólkið þurfti að fara heim.

Gordy blandar C vítamín dufti og salti út í orkudrykk eða djús og telur það nýtast betur á þann hátt heldur en að taka tölflur.
Þessi efni, C vítamín, Selen, E vítamín, Calsíum og Magnesíum tekur hann vikuna fyrir hlaup.

Athyglisvert.

Engin ummæli: